24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (3458)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Hákon Kristófersson:

Jeg vil ekki lengja umræður, en finn þó hvöt hjá mjer að gera grein fyrir mínu atkv.

Þegar það var rætt hjer í hv. deild, hvort leyft skyldi framhaldsnám á Akureyri, þá var það aðallega fært fyrir, að nám væri þar kostnaðarminna. Því var slegið föstu, að breytingunni fylgdi enginn kostnaður, aðeins vildu kennararnir fá leyfi til þess að bæta þessu á sig. Jafnframt var því haldið fram, að nemendur mundu eftir sem áður koma hingað til prófs.

Hv. þm. Str. (TrÞ) talaði um krókaleið í þessu máli; en jeg verð að segja, að ef um krókaleið er að ræða, þá er það hjá þeim mönnum, sem töldu mjer og öðrum trú um það, að það mundi ekki koma fyrir, sem nú er komið á daginn.

Hv. 1. þm. Rang. (KlJ) sagði, að þetta væri ekki nema framhald af því, sem gerst hefir, og nú dygði ekki að spyrna á móti broddunum. Jeg get ekki fallist á, að þetta sje rjett. Atkvæði mitt með því máli áður hjer í hv. deild bygðist á því, að jeg vildi gera fátækum piltum námið kostnaðarminna fyrir norðan, eins og flm. leiddu rök að.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagðist vænta, að Alþingi sæi sóma sinn í að samþ. till. Jeg fyrir mitt leyti þykist ekki drýgja neina vansæmd, þótt jeg standi á sama vettvangi og áður og vilji ekki lengra fara. Jeg mótmæli, að í því, sem áður gerðist, hafi falist nein fyrirheit. Hvers vegna var ekki sú einlægni sýnd frá formælendum málsins, að þessa mætti vænta, þegar fram liðu stundir?

Jeg get ekki heldur tekið undir þau ummæli, er heyrst hafa frá sumum hv. þm., að það sje neitt undravert, að aðalflm. bregði á það ráð, sem vitrir menn ætíð taka, vegna málsins sjálfs, sem flutt er í fullri einlægni. Og þegar á að gera þessum góðu drengjum för sína hingað og dvöl svo kostnaðarlitla sem verða má, þá sje jeg ekki, hvernig hægt sje að segja, að Alþingi gæti ekki sóma síns. Jeg vildi óska, að Alþingi gætti hvergi miður sóma síns.