24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (3460)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Björn Líndal:

Gott þótti mjer að verða var við, að hv. 2. þm. Eyf. (BSt) er þó ekki svo langt horfinn frá sínum góða fyrra manni, að hann þrætti fyrir, að jeg hafi skýrt nokkurn veginn rjett frá okkar samtali 1924. En jafnframt leyfir hann sjer þó að telja ekki nákvæmlega rjett hermt frá. En það er svo lítilfjörlegt, sem á milli ber, að jeg nenni ekki að eltast við það. En jafnframt fann hann ástæðu til að bera mig þeim sökum, að jeg hafi skýrt rangt frá því, sem gerst hafi á lokuðum fundi í þinginu fyrir nokkru. Vitanlega er hjer ljett að tala, en erfiðara að sanna. Jeg vil benda hv. þm. á það, að þessum sömu sökum var borinn annar þingmaður, sem jeg veit, að hv. 2. þm. Eyf. (BSt) metur mjög mikils. Sakirnar bar hann ekki af sjer, og líklegast af því, að hann hefir talið það árangurslaust. Því að það mun jafnerfitt að sanna hvorttveggja. Ætla jeg ekki að fara lengra út í þá sálma.

Því næst sagði hv. 2. þm. Eyf. (BSt), að jeg hefði játað, að mjer hefði hjer misheyrst. Þessu leyfi jeg mjer að þverneita. Fyrst og fremst af því, að jeg er enn í dag sannfærður um, að mjer misheyrðist ekki — eða öllu heldur missýndist ekki. (BSt: Misminti). Við skulum láta það svo vera. Jeg endurtek það, að jeg þverneita, að jeg hafi sagt nokkurn tíma slík orð við hv. 2. þm. Eyf. (BSt). En jeg vil benda á það, að hefði jeg sagt slík orð við andstæðing í stjórnmálum, er það þá ekki sennilegast, að jeg hafi sagt honum það í trúnaði, í fullu trausti þess, að hann væri sá drengskaparmaður að þegja yfir þessu? Þess vegna virðist mjer augljóst orðið, hvernig drengskapur þessa hv. þm. hefir farið í því pólitíska loftslagi, sem hann hefir lifað í undanfarin þing. Hv. þm. misskildi orð mín um drengskap. Jeg tók það fram, að jeg hjeldi, að þessi pólitíska fæða, sem hann hefir notið hjer í bænum að undanförnu, hafi verið snauð að drengskaparbætiefnum. Mjer finst framkoma hans benda á það, jafnvel þótt hann kunni að vera sannfærður um, að hann hafi rjett fyrir sjer, en jeg ekki. Efast jeg ekki um, að hann hafi átt við að búa þann pólitíska bætiefnaskort, að honum takist betur að sanna rangt mál en mjer rjett, ef fullnaðarsönnunin á að vera komin undir vottorðum og vitnisburðum þeirra manna, sem hann hefir illu heilli valið sjer fyrir pólitíska sálusorgara. En þesskonar vitnisburðum beygi jeg mig ekki fyrir. Jeg ætla ekki heldur að fara í mannjöfnuð við hv. þm. (BSt), ætla ekki að metast við hv. þm. um það, hvor okkar hafi unnið sjer meira til sæmdar eða vansæmdar hjer í þinginu. Hann telur það afturför, sem jeg tel framför, og sennilega illa gert, sem jeg tel vel af hendi leyst.

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem jeg hefi sagt um rökst. dagskrána, en hv. 1. þm. Eyf. (BSt) bað mig að benda sjer á þann stað í lögum, þar sem óheimilað væri, að stúdentspróf væri tekið á Akureyri. Þessu hafa aðrir hv. þdm. þegar svarað og vitnað þar um í háskólalögin. Jeg er ekki að hrósa mjer af því, að jeg sje lögfræðingur, en jeg get bent hv. þm. (BSt) á ágætan lögfræðing, sem er á sömu skoðun og jeg í þessu máli. Það er hæstv. atvrh. (MG). Hann hefir fullyrt, að þetta sje brot á 3. gr. í háskólalögunum, og hann hjelt því fram, sem rjett er, að ekki er hægt að breyta gildandi lögum með þingsályktun. Jeg leyfi mjer ennþá einu sinni að fullyrða, að hjer sje verið að berjast fyrir því að koma fram þáltill., sem fer í bág við gildandi lög.

Hv. þm. (BSt) gat þess, að jeg vildi koma málinu fyrir kattarnef, og sagði það hundsbætur, sem dagskráin fer fram á. Mín vegna má hann gjarnan nefna þetta hundsbætur, en það get jeg sagt hv. þm. (BSt), að það er miklu verra en hundsbætur að leyfa þessum námsmönnum að taka „stúdentspróf“ á Akureyri, sem engin æðri mentastofnun tekur gilt eða metur að nokkru, próf, sem engin rjettindi fylgja.