24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í D-deild Alþingistíðinda. (3463)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Bernharð Stefánsson:

Með því að svo stendur á, að aðalflm. till. virðist vera fallinn frá henni og hefir hjer á fundinum beint þeirri áskorun til okkar meðflm. sinna, að aðhyllast hina rökstuddu dagskrá, sem fram er komin, þá þykir mjer rjett að geta þess, að við meðflm. höfum borið okkur saman um þetta og getum alls eigi fallist á dagskrána, en höldum sjálfri till. fast fram. Það, sem valda mun þessari afstöðu hv. aðalflm. (JKr), er það, að hann býst við, að ef dagskráin verður feld og till. einnig feld, eða getur eigi komið til framkvæmda, þá sjeu þessir piltar ver farnir en annars og sjeu hreint og beint settir í hættu. En hann þarf alls ekki að bera kvíðboga fyrir þessu, eftir þeim hug til piltanna, sem hjer virðist hafa komið fram á fundinum, því að þótt svona kunni að fara, þá er altaf hægt að koma í gegn styrk handa piltunum með öðru móti.

Jeg ætla ekki að fara að munnhöggvast við hv. þm. Ak. (BL), enda voru ummæli hans nú hóglegri en áður. Hann sagði, að það hefði verið lítið, sem á milli bar árið 1924. En það gildir nú einu, hvort það var mikið eða lítið. Aðalatriðið er það, að jeg skýrði rjett frá. Hv. þm. Ak. var að mótmæla því, að hann hefði játað fyrir mjer, að hann hefði skýrt rangt frá því, sem gerðist á lokuðum fundi í Sþ. Þess hefði hv. þm. ekki þurft, því jeg hef aldrei haldið þessu fram. Nei, þau ummæli hans, sem jeg vitnaði í, sagði hann á opinberum fundi.

Mjer þykir leitt að geta ekki notið fylgis hv. þm. Barð. (HK) eins og jeg bjóst við í fyrstu, en við það verður nú að sitja.