24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (3465)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Jón Baldvinsson:

Á fundum þeim, er haldnir voru á síðastliðnu sumri, var því haldið fram af formanni íhaldsflokksins, að þeir þyrftu ekki að gera ályktanir til að binda flokkinn, því að skoðanir þeirra væru svo líkar, og því hefði enn aldrei neitt mál verið gert að flokksmáli með samþykt. Trúi hver því, sem trúa vill. En mjer skilst þá, að í þessu máli sje það fyrirbrigði að gerast, að einn íhaldsmanna, sem er fyrsti flutningsmaður að tillögunni, sem nú er til umræðu, sje nú að ráðast gegn sínu eigin máli. Og hvers vegna skyldi hann gera það? Auðvitað hefir flokkurinn kúgað hann til þess. Og þetta er ekki óþekt í íhaldsflokknum; því fyrir fáum árum var einn af mektarmönnum þess flokks kúgaður til þess að hjálpa til að nema úr gildi lög, sem hann sjálfur hafði barist fyrir að koma á og sagði, að hefðu reynst betur en hann hafði búist við.

Nú vill íhaldsflokkurinn koma í veg fyrir, að Norðlendingar komi upp hjá sjer mentaskóla. Till. er spor í þessa átt. Þess vegna leggja þeir alt kapp á að drepa þessa till., og þess vegna hafa þeir fengið flutningsmanninn til að verða drápsmann sinnar eigin till.

Mjer heyrist menn leggja mjög mikið upp úr tillögum háskólans í þessu máli og taka þær sem úrskurð í málinu. En hjer er það hvorki mentaskólinn nje háskólinn, sem eiga að ráða, heldur Alþingi sjálft. Og vilji Alþingi koma upp lærðum skóla á Akureyri, þarf það hvorki að biðja um leyfi mentaskólarektors nje háskólaráðs til þess. Þess vegna er það Alþingi, sem á að binda enda á mál þetta.

Jeg lýsi yfir því, að jeg ætla að greiða atkv. með þáltill., en ekki með dagskrá hv. þm. Ak. (BL), sem er aðeins blekking fyrir norðanmenn.