05.04.1927
Efri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (3473)

106. mál, skipun opinberra nefnda

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Fyrir hönd stjórnarinnar vil jeg ekki annað segja út af þessari till. en það, að ef hún verður samþ., þá mun núverandi stjórn að minsta kosti að sjálfsögðu taka það til vinsamlegrar íhugunar í hvert skifti, hvort ekki sje völ á hæfum konum til þess að taka sæti í þeim nefndum, sem stjórnin annars skipar.

Um málið að öðru leyti vil jeg aðeins bæta því við, að það er náttúrlega svo yfirleitt, þegar skipað er í opinberar nefndir, að leitað er eftir mönnum, sem vegna sinnar fyrri starfsemi í sömu og hliðstæðum opinberum málum hafa sýnt bæði einhvern áhuga og einhverja sjerstaka þekkingu á þeim málum.

Það er nú svo, að þótt það sje orðið alllangt síðan konur fengu hjer fullkomið jafnrjetti móts við karlmenn, þá hafa þær það sem af er yfirleitt tekið miklu minni þátt í opinberum málum en karlmenn. Svo að það þarf engan að furða, að hingað til hefir frekar verið bent á karlmenn en konur, þegar átt hefir að finna þá menn, sem þegar hafa sýnt bæði áhuga og þekkingu á sjerstökum tegundum opinberra mála.