05.04.1927
Efri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (3474)

106. mál, skipun opinberra nefnda

Einar Árnason:

Jeg vildi aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessarar till. Jeg finn sjerstaka ástæðu til þess, af því að mjer virðist þessi till. vera dálítið einstök í sinni röð. Það er eins og öllum er kunnugt, og hv. flm. till. (IHB) tók fram, að lagalegur rjettur karla og kvenna er orðinn jafn til þess að taka þátt í opinberum málum. Það var alveg sjálfsagt, að löggjafarvaldið ljeti það til sín taka, um þetta. En hitt finst mjer ekki alveg eins sjálfsagt, að löggjafarvaldið fari að grípa inn í á framkvæmdasviðinu um þetta efni. Mjer virðist, að með því sje í raun og veru verið að setja rjett kvenmanna hærra en karlmanna — að jafnrjettið verði misrjetti. Eins og till. er orðuð, þá er í raun og veru ekki hægt að skilja hana öðruvísi en svo, að stjórnin á hverjum tíma sje skyld til þess að skipa konur í allar nefndir — þar megi engin nefnd undan ganga. Og þá er stutt til þess, að allar nefndir verði skipaðar tómum konum. Og þá fer röðin að koma að okkur karlmönnunum að flytja þáltill. svipaða og þessa, sem hjer liggur fyrir.

Mjer virðist þessi till. binda of mikið hendur stjórnarinnar, þar sem jeg álít, að verði að skilja hana svo, að stjórnin sje altaf bundin því að tilnefna konur. Nú er eins og kunnugt er þáltill. á ferð hjer í Alþingi — hefir gengið gegnum Nd. og er nú í nefnd í Ed. — þar sem farið er fram á, að skipuð sje nefnd til þess að íhuga og samræma landbúnaðarlöggjöf landsins. í till. er gert ráð fyrir, að þingið nefni tvo nefndarmenn, en stjórnin einn. Verði till. samþ., þá hlýtur hæstv. stjórn að nefna konu í þessa nefnd. Út af fyrir sig hefði jeg ekkert út á það að setja, þótt kona kæmist í þessa nefnd. Það má vel vera, að konur sjeu eins vel færar um þetta eins og karlmenn. En það er aðeins þetta, að jeg vil ekki láta binda hendur stjórnarinnar í eitt skifti fyrir öll. — Hitt væri annað mál, ef Alþingi, þegar það ákvæði um nefndarskipun, að það í hvert skifti gerði ráð fyrir því, að kona, eða konur, fengi sæti í þessari og þessari tilteknu nefnd. Ef Alþingi á í eitt skifti fyrir öll að binda hendur stjórnarinnar í þessu efni, þá ætti það ekki síður að binda sínar eigin hendur og ákveða í eitt skifti fyrir öll, að konur skuli eiga sæti í hverri nefnd, er það skipar. Að því leyti til virðist mjer, að till. gangi of skamt hjá hv. flm. (IHB).

Ef nú stjórnin verður ekki við þessu, sem till. ræðir um, og skipar nefnd eða nefndir, þar sem engin kona er í, ja, hvað verður þá? Ekki verður stjórnin dregin fyrir landsdóm fyrir það. Og ef þetta verður einu sinni gert, þá verð jeg að skilja það svo, að það sje vítalaust, að stjórnin framfylgi ekki þessari till.

Það er langt frá því, að jeg sje því andvígur, að konur fái sæti í opinberum nefndum. Jeg álít meira að segja alveg sjálfsagt að taka fylsta tillit til kvennanna, þegar um það er að ræða. En jeg held það sje til önnur leið heldur en þessi þáltill.-leið, sem sje jafnvel heppilegri, að minsta kosti fyrir konur hjer í Reykjavík. Jeg tel alveg sjálfsagt, að stjórnin, hver sem hún er og á hverjum tíma sem er, mundi taka fult tillit til þess, ef kvenfjelögin öll hjer í Reykjavík, eða eitthvert þeirra, minti á sig, þegar svo stendur á, að þær finna ástæðu til þess, að þær komi til greina, þegar nefnd er skipuð. Jeg geri sem sje ráð fyrir, að þegar kona er skipuð í nefnd, verði hún hvort sem er úr Reykjavík. Jeg efast um, að það sje rjett, sem hv. flm. þessarar till. sagði, að það stæðu ef til vill allar kosningabærar konur landsins á bak við þessa till. Jeg efast fyrst og fremst mjög mikið um það, að konum úti um sveitir landsins sje þetta nokkurt áhugamál. Enda býst jeg heldur ekki við því, þegar þessi till. kemur til framkvæmda, að það verði konur utan úr sveitum landsins, konur, sem þekkja náttúruna, þekkja baráttuna og lífsstríðið íslenska, sem verða valdar í þessar nefndir.

Hv. flm. (IHB) dvaldi nokkuð við það, að það væri vel við eigandi, að konur ættu sæti í nefndum, sem skipaðar yrðu við hátíðahöldin 1930. Hygg jeg, að hv. flm. hafi alveg rjett fyrir sjer. Jeg held, að konur eigi áreiðanlega að taka sinn þátt í þeim hátíðahöldum. Og jeg efast heldur ekki eitt augnablik um það, að stjórnin muni gæta þess, þegar til kemur, að konur verði þar ekki settar hjá.

Hv. flm. lagði töluvert mikið upp úr orðinu „færar“ í till. sinni, að skipa „færar“ konur. Þegar jeg las till., þá var það einmitt þetta orð, sem jeg hnaut um, því að mjer fanst orðið óþarft. Maður verður að sjálfsögðu að ganga út frá því, að stjórnin á hverjum tíma, hvort sem er um konur eða karla að ræða, skipi þá menn, sem hún að minsta kosti álítur hæfa til þess að gegna þeim störfum, sem þeim eru í hendur fengin. En hinsvegar er það ómögulegt að mínu áliti fyrir stjórnina, hvort sem um karla eða konur er að ræða, að tryggja það fyrirfram, að það verði ekki vanfært um að framkvæma það starf, sem þeim er falið. Það getur meir en komið í ljós eitthvað það, sem sýnir, að kona verði vanfær um að gegna sínum störfum, og stjórnin alls ekki getur bygt fyrir. Þess vegna finst mjer þessu orði vera ofaukið. Það verður altaf að leggja það á vald stjórnarinnar, hverja hún telur færa og hverja vanfæra um að gegna þessum störfum.

Niðurstaða mín verður því sú, að það sje ekki rjett af löggjafarvaldinu að gefa neina almenna fyrirskipun í þessu efni. Þess vegna legg jeg til, að þessi till. sje afgr. með svohljóðandi rökstuddri dagskrá, sem jeg skal leyfa mjer að lesa hjer upp:

Með því að konur hafa að lögum jafnrjetti við karlmenn um þátttöku í opinberum málum, og þá að sjálfsögðu einnig um hluttöku í störfum þeirra nefnda, sem ríkisstjórnin skipar, og með því ennfremur að víst má telja, að þess verði gætt í framtíðinni, að konur fái sæti í opinberum nefndum, þegar ástæða er til, þá sjer deildin ekki ástæðu til að samþ. þessa till. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.