05.04.1927
Efri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (3479)

106. mál, skipun opinberra nefnda

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. forsrh. (JÞ) hafi sagt um till. það sem þarf af stjórnarinnar hálfu. Jeg sje ekki ástæðu til annars en að stjórnin taki vel í till. Jeg skil hana sem bending til stjórnarinnar um að skipa hæfar konur, þar sem hún hefir íhlutunarrjett. En hinsvegar kemur það ekki til mála um þær nefndir, þar sem stjórnin hefir ekki þann rjett.

Þótt þessi till. nái ekki til annara nefnda en þeirra, er stjórnin skipar getur það þó haft óbeinlínis áhrif úti um land, að Alþingi lýsi því yfir, að rjett sje, að konur eigi sæti í nefndum eftir hæfileikum. Þetta getur haft áhrif á nefndakosningar úti um land.

Jeg tel enga hættu á, að till. misskiljist, síður en svo, og jeg hefi ekkert á móti, að hún verði samþ. En jeg vil benda hæstv. flm. (IHB) á það, að í öllu falli vegna stjórnarinnar er nóg, að till. fari aðeins gegnum þessa deild. Mun hún eins taka hana til greina, þótt hún gangi ekki gegnum Nd. líka.