25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (3496)

71. mál, áfengisvarnir

Jónas Jónsson:

Jeg vil leyfa mjer að segja nokkur orð um þessa till., þar sem hún fjallar um eitt af stærstu málum á þessu þingi, þó að þingmenn virðist ekki skilja það, ef marka má burtveru þeirra. Er mikið ósamræmi milli þess tómlætis, er áfengismálin mæta, þegar þau eru rædd hjer, og þess áhuga, er hafður er fyrir þeim um kosningar.

Það er harla undarlegt af forsrh., sem ber ábyrgð á stjórn landsins, að minsta kosti síðustu mánuðina, að hann hefir látið sterklega í ljós, að hann vildi vinna gegn áfengi, eða svo sagði hann og hans flokkur að minsta kosti í haust um kosningarnar; þá höfðu þeir baráttu gegn áfenginu efst á dagskrá sinni. Báðir ráðherrarnir hafa talað hjer í dag, en í alt öðrum tón en fyrir kosningar. Sá eini, er talað hefir með einskonar samúð fyrir áfengisvörnum úr þeirra herbúðum, er hv. 2. þm. Rang. (EJ).

Jeg verð að telja það undarlegt mjög og óviðeigandi, að nokkur flokkur skuli leyfa sjer að lofa kjósendum sínum því um kosningar, sem hann ætlar sjer ekki að efna á þingi. Forsrh. (JÞ) vill leggja þann skilning í þetta mál, að Sigurður Eggerz hafi búið þannig um hnútana, að ekki sje hægt að framkvæma 1. lið till., og vitnar í reglugerð frá 1922, að ekki mætti gera að engu innflutning á vínum. Sá ráðh. ákvað útsölu á vínum í kaupstöðum landsins, en hvorki var það borið undir þing nje kjósendur. Ef svo hefði verið gert, hefði því verið svarað neitandi. Hjer var mótstaðan svo mikil, að bæjarstjórnin vildi ekki mæla með neinum til þess að hafa á hendi útsölu í bænum, og varð stjórnin því að setja þetta í hendur erlends manns, án meðmæla bæjarstjórnar. En ekki er nóg með það, heldur hafa allir kaupstaðir mótmælt.

Nú hafa menn komið sér saman um að offra Reykjavík, sem er stærsti bærinn, en leita almenningsálits í öðrum kaupstöðum landsins og selja þar ekki vín nema fólk vilji.

Forsrh. vill halda því fram, að tveir síðustu fyrirrennarar sínir hafi verið sömu skoðunar og hann sjálfur. Það er mjer ókunnugt um. En ræður Sigurðar Eggerz bentu ekki í þá átt. Forsrh. reynir að verja sig með því, að samningurinn, eins og hann er birtur í Stjórnartíðindunum, sje ónákvæmlega þýddur, og vill færa rök fyrir því. Það væri þó leiðinlegt fyrir stjórnina, sem líklega hefir látið einhvern sinna vildarmanna þýða samninginn, ef hann væri ekki rjett útlagður. En það er annað, sem forsrh. tekur ekki með í reikninginn, að báðar þjóðir eiga að njóta hinna bestu kjara í þessum efnum. Við látum engan hafa betri kjör, þó salan sje eingöngu í Reykjavík, og brjótum því ekki samninginn. Við fáum því aðeins hliðstæð kjör hjá Spánverjum viðvíkjandi fiskmarkaðinum, nefnilega þau bestu.

Nú hafa Spánverjar fengið undanþágu til að hafa hjer markað á vínum; alt, sem gert er til þess að draga úr markaðinum, er því brot á samningnum. Margt mætti upp telja, ef farið væri út í þá sálma. Og ekki væri það heppilegt, ef óvinir landsstjórnarinnar segðu Spánverjum, að stjórnin prjedikaði bindindi í Dölunum, og að stjórnarflokkurinn hefði á stefnuskrá sinni að hækka styrk til Goodtemplara, og helstu menn flokksins stofnuðu fjelög, til þess að vinna á móti áfengisnautn. Alt er þetta til þess að draga úr áfengissölunni. En miklu fleira mætti telja; t. d. mundi aukin fræðsla draga úr áfengisnautn.

Nú gætu hjer verið lög, sem ákvæðu, að hvergi mætti selja vín utan Reykjavíkur, nema þar sem hjeraðsstjórnir óskuðu eftir því. Setjum svo, að Húnvetningar óskuðu eftir áfengissölu í Kálfshamarsvík, þá myndi það óefað gera miklu minna til, þótt þar væri áfengisverslun í stað Siglufjarðar. Skýring ráðh. er því einskisvirði í þessu efni. Öllum er kunnugt, að margir þeir sem á móti banni hafa verið, hafa kallað bannlögin þrælalög, og hafa ýmsir úr stjórnarflokknum fylt þann hóp.

Síðan sendir stjórnin þann mann til Spánar, sem er harðsnúnasti andstæðingur bannlaganna, til þess að tala máli okkar, meðan stóð á samningum um málið, og ekki nóg með það, heldur hefir hann verið sendur enn á ný og gerður þar að föstum starfsmanni. Þetta sýnir, að hjer eru margir menn, og líka meðal þeirra, sem fara með völdin, sem virðast gera sjer far um að storka þeim, sem vinna á móti áfengisnautn.

Þá kemur hæstv. forsrh. með þá ályktun, að það muni spilla fyrir okkur að leita nýrra samninga. Jeg veit ekki, hvort hæstv. forsrh. er kunnugt um, að Finnlendingar hafa gert samninga við Spán, án þess að veita nokkra undanþágu á vínum. Úr því svo er, þá væri það engin goðgá, þótt leitað væri samninga á nýjum grundvelli, þar sem Spánverjar hafa lítillækkað sig til þess að gera samninga við bannþjóð, án undanþágu á vínum. En þetta vill hæstv. forsrh. (JÞ) ekki fara fram á; enginn gæti þó haft neitt á spurningunni.

Þá virðist hæstv. atvrh. (MG) vera ánægður með, að vínverslunin eigi mörg hundruð þús. kr. útistandandi í lánum. Segir, að það sje ekkert óeðlilegt, því margir úti um land þurfi að fá vín á þann hátt, og virðist hann helst vera hræddur um, að samningunum verði sagt upp, ef hætt sje að lána vín úti um land. Þingið hefir enga skýrslu fengið um það, hjá hverjum lánin eru; ólíklegt er, að það sje aðeins hjá hjeraðslæknum. Ef það er hjá lyfjabúðunum, þá ættu þær að geta borgað. Það er opinbert leyndarmál, að í mörgum lyfjabúðum og hjá sumum læknum er opinber vínsala, og að það áfengi er ekki ætlað til lækninga, heldur nautna.

Ennfremur er það kunnugt, að sumir bestu læknar hjer, t. d. Halldór Hansen, nota ekki vín til lækninga. Og svo kemur hæstv. heilsumála-, mentamála- og dómsmálaráðherra og segir, að það þurfi að lána! Það yrði þá kannske til þess, að skuldin yrði ½ milj. kr. Þetta er ekkert annað en frekari tilraun til þess að selja sem mest af áfengi. Þetta er því fyllilega misbeiting af stjórninni, að lána lyfjabúðunum vín, til þess að selja út á mjög vafasama lyfseðla. Allir vita, að lyfjabúðirnar eru arðmestu verslanir landsins, og ættu þær því að geta borgað reikninga sína tafarlaust. Þetta er því aðeins tilraun til að láta þær selja sem mest, með því að láta þær hafa vín í umboðssölu. Mjer hefir ennfremur verið sagt, að sumir „praktiserandi“ læknar þessa bæjar skuldi áfengisversluninni stórfje. Þetta mundi sýna sig, ef stjórnin legði skjölin á borðið. En það vilja hlutaðeigendur ekki. Fjhn. hefir sagt mjer, að hún hafi ekki enn fengið skuldalista áfengisverslunarinnar, þótt hún hafi heimtað hann. Jeg verð að játa, að jeg er mjög hissa á hæstv. ráðherrum og hv. 2. þm. Rang. (EJ), að þeir skuli allir vera mjög tregir við 4. lið. Um hann er þó ekki hægt að veifa neinni rauðri, spánskri dulu.

Ef læknarnir og lyfjabúðirnar yrðu að standa borgurum landsins skil á áfengissölu sinni, þá væri hægt að vita, hverjir notuðu vínleyfið á leyfilegan hátt, og hverjir ekki. Nú veit enginn um það, nema ef vera kynni landlæknir. Á fundi í Læknafjelaginu fyrir skömmu vildi meiri hluti verða af með vínleyfið, vegna þeirrar minkunar, sem vínlæknarnir hafa komið á stjettina með framferði sínu. Það er því hart, að hjer á Alþingi skuli þeir menn, sem segjast bera áfengismálin fyrir brjósti, tala eins og hæstv. heilsumála- og dómsmálarh. gerði í dag.

Ef 4. liður væri samþyktur, mundi áfengisnautn minka um helming í landinu, því að læknar og lyfjabúðir mundu þá kynoka sjer við að selja vín á óleyfilegan hátt og láta alla þjóðina sjá árangurinn. Aftur á móti getur læknabrennivínið verið forsvaranlegt, að einhverju leyti. Ef hæstv. heilsumálaráðherra legðist í lungnabólgu og læknir vildi láta hann fá koníaksflösku, væri auðvitað sjálfsagt að lengja líf hans með flöskunni. Hinsvegar sje jeg enga ástæðu til, að hvaða ræfill sem er geti ónáðað lækna um vín, aðeins til að verða fullur af því. 4. liður till. er þrauthugsað úrræði þeirra mana, sem bera áfengismálin fyrir brjósti, til þess að stöðva vínstrauminn. Óskandi væri, að stjórnin ljeti nú sjerfræðing sinn í áfengismálum, þann er að vísu kallaði sig dverg í landsmálum, draga af sjer slenið og tala hjer í dag um áfengi sem svikalyf. Ef rjett er það, sem hann heldur fram í ritlingi sínum, hvers vegna á þá að gera áfengi svo hátt undir höfði, að ekki megi gefa opinberar hagskýrslur um, hvað mikið læknar nota af þessu svikalyfi, og reyna að takmarka notkun þess?

Jeg legg mest upp úr atkvgr. um 4. lið; því þótt 2. liður yrði samþyktur, og hætt yrði að lána út áfengi, mundi mikið vera misbrúkað samt. En hver sá, er greiðir atkv. gegn 4. lið, sýnir með því, að hann er fylgjandi óleyfilegrar vínsölu og vill láta þá menn halda henni áfram, sem hafa misbrúkað það traust, sem þeim hefir verið sýnt með vínleyfinu, og vilja búa til skálkaskjól fyrir spilta menn, er svíkja trúnað við landið sjer til gróða.

Þá vildi jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. heilsumálarh. (MG) hvernig líði máli um tvo lækna á Ísafirði. Annar þessara lækna hafði orðið fyrir sjerstökum heiðri frá stjórninni, en samt var hafin rannsókn og málaferli á móti þeim í haust út af misnotkun víns. Báðir þessir læknar voru sýknaðir með hjeraðsdómi á Ísafirði, vegna þess, að þeir höfðu sett vellyktandidropa í áfengið, og yrði það því að teljast mengað. Líklega hafa þeir með því aðeins bætt áfengið fyrir drykkjuræflana. — Ætlar nú ekki stjórnin að áfrýja dómnum? — Hjer er tækifærið fyrir landsstjórnina að sýna, að það sje ekki aðeins fyrir kosningar, sem hún brennur í skinninu af áhuga til þess að halda áfengisbölinu í skefjum.