07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í D-deild Alþingistíðinda. (3517)

57. mál, sandgræðslugirðingar í Gunnarsholti

Jónas Jónsson:

Hv. 2. þm. Rang. (EJ) hefir komið hjer með undarlegt mál, og sáust undarlegheit þess best, þegar fara átti að vísa því til nefndar, því þá gat það eftir efninu heyrt undir þrjár nefndir. Sem sandgræðslumál heyrði það undir allshn., sem þingsályktun um stofnun kúabús heyrði það undir landbn., og sem skólamál heyrði það undir mentmn. Eftir efninu hefði till. þessi frekar átt að heita till. til þál. um stofnun kúabús eða barnahælis.

Það mun mjög óvanalegt, að innihald till. eða frv. sje dulið svo í fyrirsögn sem hjer. Væri því ekki úr vegi fyrir háttv. flm. að athuga þetta til 2. umr. og breyta þá fyrirsögn tillögunnar í samræmi við innihaldið. Gæti till. þá komið til með að heita: Till. til þál um stofnun kúabús, barnahælis og barnaskóla í Gunnarsholti.

Hv. flm. talar ekkert um kostnaðarhlið þessa máls. Hann gerir ráð fyrir, að þarna megi heyja árlega 1500–2000 hesta, alt kúgæft hey. Yrði því um töluverðan rekstur að ræða þarna, ef nota á allan þennan heyafla, auk þess sem hann myndi aukast árlega við notkun áburðar undan stóru kúabúi. Til slíks rekstrar þarf því áreiðanlega mikið fje. Jeg vil nú biðja hv. flm. að skýra frá, hvort hann ætlist til, að landssjóður byggi þarna hlöður og gripahús tilsvarandi þeim heyafla, sem hann telur, að þarna megi fá. Jafnframt væri gott, að hann upplýsti, hversu margar kýr myndi þurfa til þess að jeta alt þetta hey.

Það mun nú sjaldgæft, að kennarar sjeu líka bústjórar fyrir stórum búum; að minsta kosti fer það illa saman, þegar kennarinn er kvenmaður. Jeg vil því ennfremur spyrja hv. flm., hvort hann hafi hugsað sjer að hafa þarna sjerstakan bústjóra, og þá hvort hann eigi að vera launaður af því opinbera eða hreppnum.

Þetta eru þá spurningar viðvíkjandi kúabúinu. Þá er barnahælið. Hv. flm. lýsti þeim erfiðleikum, sem þarna væru með barnafræðsluna. Jeg get vel trúað, að þeir sjeu miklir, og því vel skilið, að hans stóri hreppur vilji þiggja hjálp frá hinu opinbera, til þess að koma upp fastaskóla. En væri ekki gefið helst til mikið fordæmi með því að láta hrepp þennan fyrst fá girðingar fyrir fullar 20 þús. kr. og byggja svo á eftir yfir öll skólabörn hans og nokkra tugi nautgripa. Gætu þá ekki aðrir hreppar komið á eftir og beðið um annaðhvort, og jafnvel hvorttveggja. Mjer finst það liggja beint við.

Hefir nú hv. flm. gert sjer grein fyrir, að hjer er um þjóðnýtingu að ræða, og hana í stórum stíl? Jeg býst við því. En það virðist því undarlegt tákn tímanna, að hið fyrsta, sem hann flytur í þinginu, skuli vera um þjóðnýtingu, sje það satt, sem sagt hefir verið, að hann hafi eingöngu verið sendur á þing til þess að vera á móti öllu slíku. Smalar hans munu hafa haft á orði, að með kosningu hans ætti að tryggja, að hangikjötið í eldhúsrótinni hjá bændum í kjördæmi hans yrði ekki „þjóðnýtt“ handa einhverjum öðrum fátæklingum. — Hjer er sem sje um þrefaldan ríkisrekstur að ræða. Hv. flm. er því kominn þrefaldur í mótsögn við það, sem hann var kosinn til.

Vill nú hv. flm. upplýsa, hve mikið hann hefir hugsað sjer, að hreppurinn legði af mörkum í þetta þjóðnýtingarfyrirtæki, og hversu mikinn þátt hreppurinn eigi að taka í þeim tekjuhalla, sem hugsanlegt er, að verði á rekstri þess?

Þá kem jeg að því, sem hv. flm. hefði átt að minnast á, en það er sandfokið. Eins og till. ber með sjer, er þarna mikið sandfok, og hefir mjer verið sagt af bændum eystra, að börnin gæti hæglega fent þar á sumrin í sandsköflunum.

Jeg efast ekki um, að þessi uppástunga um þrefalda þjóðnýtingu á Gunnarsholti hafi verið gerð í góðri meiningu. En það virðist ógerningur að senda börnin úr rykinu hjeðan í hið mesta sandfok og ryk, sem fáanlegt er á landinu. Er því ekki hægt að búast við, að þeir fylgi þessu máli, sem börnin eiga, því að öllu athuguðu er ekki hægt að fá öllu óheppilegri stað á landinu fyrir barnahæli.

Þar sem hv. flm. ætlast til, að till. þessi verði samþ., þá hvílir á honum sönnunarskylda á því, að þetta sje gott og gagnlegt mál. Vil jeg því fastlega vænta þess, að hann svari skýrt og skorinort þeim fyrirspurnum, sem jeg hefi beint til hans viðvíkjandi því.

Og að síðustu vil jeg benda honum á, að hann er alveg kominn á móti umbjóðendum sínum með því að flytja þessa þjóðnýtingartill., því það væri líkast, að hún væri flutt af hv. 5. landsk. (JBald). En vel má vera, að þar sem þeir sitja allnærri hvor öðrum, þá hafi átt sjer stað hugsanaflutningur á núlli þeirra og að af því stafi tillagan.