07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í D-deild Alþingistíðinda. (3520)

57. mál, sandgræðslugirðingar í Gunnarsholti

Flm. (Einar Jónsson):

Jeg ætla ekki lengi að elta ólar við fjarstæður hv. 1. landsk. (JJ); honum tekst ekki að gera mig hlægilegan, þó að hv. þm. leggi fram alla krafta sína til þess, nje heldur þó að stagast sje á þessari fyrirsögn till., sem jeg viðurkenni, að hefði mátt orða öðruvísi, enda held jeg, að hv. þm. myndi ekki græða mikið á þeim tilraun sinni, ef jeg færi að leita uppi alt óþinglegt, sem komið hefir fyrir hjá hv. þm. (JJ). Það myndi þá að minsta kosti eitthvað fallast í faðma, þegar ekki er um stærra atriði að ræða. En það gerir heldur ekkert til um fyrirsögn till., því að fyrirsögnin ein skiftir ekki svo miklu máli, en hvað það snertir hjá hv. þm., að þetta sje einhver sterkasta þjóðnýting, sem fundin verði, þá held jeg, að það sje ekki rjett. Þetta eru aðeins þau algengu „slagorð“, sem hv. þm. er svo tamt að nota. Það keyrir satt að segja fram úr hófi, að hv. þm. skuli minnast á mig sem rógbera, því að ekkert er fjær mjer en slíkt, en það er eins og hv. þm. (JJ) sje tamast að bregða öðrum um það, sem hann er mest ásakaður um sjálfur, og skal jeg þá benda hv. þm. á eitt dæmi, þegar hann skrifaði í Samvinnufjelagsritið um tvo mestu merkismenn þar í sýslunni 1924, sem hann lýsir því yfir um, að þeir sje ljelega mentaðir og lítið greindir embættismenn. Annar þeirra prestur, en hinn sýslumaður, og svo var hv. þm. að tala um, að út frá þessum mönnum væri svo talsvert stór hópur af frábærlega bjánalegu bændaliði, sem alveg ljeti stjórnast af þeirra vilja. En mjer dettur ekki í hug að blikna nje blána, þótt mjer sje borið á brýn, að jeg sje ómenni og heimskingi, sem ekkert viti um það, hvað helst eigi að gera. Jeg stend alveg jafnrjettur fyrir því, þegar það kemur úr þessari átt, svo að slík orð þýðir hv. þm. (JJ) þess vegna ekkert að setja inn í þingtíðindin. Annars skal jeg alveg hlaupa yfir þetta, aðeins benda hv. þm. (JJ) á, að slíkan áburð sem þennan get jeg ekki tekið að mjer, en jeg vil tala rólega um þessa till. og sýna fram á, að það er ekki ástæða til að vera að semja miklar áætlanir um þetta mál, eins og það er nú, heldur aðeins að athuga, hverjar leiðir sjeu færar til þess að geta notað þetta sandgræðslusvæði sem best með tímanum, og það mundi ekki kosta ríkissjóð neitt stórfje, þó að það yrði gert, að maður, sem til þess er álitinn fær, væri sendur þarna austur á Rangárvöllu til þess að athuga þetta. Það gæti verið sandgræðslumaður í samráði við hann, sem hann gæti fengið sjerstakar leiðbeiningar hjá. Og jeg get ekki skilið það, að hv. 1. landsk. finni svo mjög að því, að eitthvað af grasinu komi að notum, þótt það verði kannske ekki alt, því að það er þó betra að geta notað eitthvað af því, þó að það verði aldrei alveg 2000 hestar.

Það, sem hv. þm. (JJ) mintist á, að bændur á sauðjörðum þar í grend gætu notað sjer heyið, þá er því að svara, að jeg býst ekki við, að þeir láti hv. 1. landsk. skipa sjer fyrir verkum; jeg býst við, að þeir noti það eitt, sem þeim þykir sjer best henta, en það er satt, að það horfir svo við, að það er hægt að nota nokkuð af slægjum á þann hátt, en helst ekki nema í grasleysisárum. Tilfellið er því, að á þessu grasgefna svæði fúnar grasið sjálft niður, og verður því heldur til þess að skemma grasvöxtinn heldur en hitt.