07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í D-deild Alþingistíðinda. (3521)

57. mál, sandgræðslugirðingar í Gunnarsholti

Jón Baldvinsson:

Jeg ætla ekki að auka eldana hjer, en vil lýsa yfir því, að jeg tel sjálfsagt að samþ. þessa till. og finst alveg ástæðulaust að vera að hafa á móti því, þó að nokkuð margt sje talið upp í tillögunni, vegna þess, að hjer er aðeins um algenga rannsókn að tala. Það, sem mjer skilst að liggi hjer til grundvallar, er það, að landið hefir eignast stóra jörð, þar sem hægt er að heyja upp undir 2000 hesta. Og hvernig á svo að nota þetta? Það er það, sem till. fer fram á að sje athugað, og mjer skilst, að þó að margt sje talið þar upp, þá sje það alls ekki meiningin að reyna að framkvæma það alt, heldur aðeins að athuga, hvort sje hyggilegra, að reyna að framkvæma þetta eða hitt, og jeg verð að segja, að mjer finst, að þær aðfinningar, sem hjer hafa komið fram, hafi ekki við sjerlega mikil rök að styðjast. Það vill nefnilega oft svo til, að hv. þm. hafa ekki mikinn tíma til að leggja það niður fyrir sjer, hvaða setningu þeir eigi að velja, ef um fleiri atriði er að tala, svo að það getur oft komið fyrir, að alt, sem frá þeim kemur, sje ekki svo nákvæmlega samið, að ekkert megi að því finna. Jeg hefi t. d. orðið fyrir því í dag, að jeg hefi verið beðinn um skýringu á orðalagi á einni grein í frv. frá mjer, sem mjer finst fullgreinilegt. Jeg álít fyrst og fremst, að það eigi ekki við, svona við 1. umr. málsins, þótt það sje ekki annað en þáltill., að vera að slíkri leit. Það á að reyna að finna kjarna málsins, því að ef formið er eitthvað gallað, þá er hægt að laga slíkt í nefnd. Annars hefir mjer fundist það um hv. Framsóknarmenn, að það liggi eitthvað illa á þeim í dag, því að þeir setja sig á móti því, sem virðist horfa til ræktunar landsins.

Hv. 1. landsk. (JJ) talaði grimt á móti þessari till., af því að hún væri þjóðnýting, og í dag hafa Framsóknarmenn lagt á móti frv., sem jeg ber fram, af því, að því er mjer hefir skilist, að það miðar til ræktunar landsins. Jeg vil líka lýsa yfir því, að jeg á engan þátt í þessari till. hv. 2. þm. Rang. (EJ), því að hv. 1. landsk. (JJ) var eitthvað að gefa í skyn um, að það væri eitthvert samband okkar í milli um þessa till. Jeg álít, að þetta mál sje mikilsvert, og ríkisstjórnin hefir nóga ráðunauta, sem hún getur beitt fyrir sig; hún getur látið Búnaðarfjelagsráðunautana athuga þetta, og hún hefir auk þess fjöldann allan af starfsmönnum, sem jeg hygg að geri ekki annað þarfara en að athuga það, sem komið getur til álita um framkvæmdir með þessa jörð.

Þá vildi jeg segja það, út af þeim orðahnippingum, sem hjer hafa orðið um þjóðnýtingu yfirleitt, að jeg held, að það sje meira í nösunum, sem hv. þm. og einstakir flokkar eru að reyna að gera það orð að grýlu, því að meira eða minna vilja þeir allir hafa þjóðnýtingu, en þegar kemur að sjálfum atvinnuvegunum eða atvinnustefnunum, þá fara þeir að greinast í sundur, og þó að sett yrði upp þannig lagað kúabú, eins og hjer hefir verið minst á, þá er það alls enginn „sócíalismi“, en jeg álít, að það ætti nú ríkið að reyna. Það gæti gert ýmsar tilraunir með það, hvernig þetta yrði best rekið, og jeg fæ ekki sjeð, að því yrði betur fyrir komið en að gera það á einhverri góðri jörð, sem ríkissjóður hefir eignast. En í augum þeirra manna, sem líta í greinargerð þá, sem till. fylgir, þá eru þetta í afarmiklar eignir, sem hjer er um að ræða, og fyrir þá menn, sem hafa trú á uppgræðslu í sandahjeruðum landsins, eru framtíðarvonir bundnar við í þetta, og máske verður þetta einhver mesta framtíðarjörð, ef vonirnar rætast.

Jeg vona, að þessi till. fái að ganga til nefndar, og að þingið samþ., að þetta verði rannsakað vandlega, jafnvel þó að einhverjir geti fundið út úr því, að þarna sje stefnt að einhverri lítilsháttar þjóðnýtingu.