13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

87. mál, sala þjóðjarðarinnar Sauðár

Frsm. (Jónas Kristjánsson):

Þetta frv. hefir gengið í gegnum háttv. Nd. breytingalaust og kemur nú frá landbn. þessarar hv. deildar, sem hefir fallist á, að hjer sje um nauðsynjamál að ræða fyrir viðkomandi sveitarfjelag.

Sauðárkrókur er bygður úr landi jarðarinnar Sauðár, og hefir frá því að hann stækkaði til muna verið algerlega kominn upp á aðra um beit og slægjur fyrir skepnur sínar. Nú eru þorpsbúar orðnir hátt á 7. hundrað, og atvinna þeirra daglaunavinna, sem til fellur, og sjósókn, sem ekki byrjar þó fyr en kemur langt fram á vor og stendur vanalega lítið fram eftir haustinu. Leggja þorpsbúar því stund á landbúnað, svo að þarna er eiginlega um þorp að ræða, þar sem menn fleyta fram lífinu með því að hafa nokkurn búpening, svo sem kýr, sauðfje og hross. En þorpsbúar eiga erfitt með að sjá skepnum sínum farborða og hafa orðið að sæta afarkostum bæði um beit og slægjur. Margir hafa viljað nota þann tíma, sem ekki verður á sjó farið, til þess að rækta túnbletti, en þess hefir ekki verið kostur, svo neinu nemi, vegna þess, að þeir hafa ekkert land til að rækta.

Nú hafa þorpsbúar unnið það til að kaupa upp ábúandann á Sauðá, sem hefir þar lífstíðarábúð, og hann fallist á að afsala sjer jörðinni vegna þeirrar nauðsynjar, sem hann sjer, að þorpsbúum er á því að eignast jörðina.

Af þessum ástæðum er frv. fram komið, og þykist jeg ekkert þurfa frekar um það að segja. Landbn. hefir fallist á nauðsyn þessa máls og leggur til, að frv. nái fram að ganga. Vænti jeg því, að hv. deild viðurkenni þessar sanngirnis- og rjettlætiskröfur þorpsbúanna á Sauðárkróki, með því að samþykkja frv., og læt jeg þá lokið máli mínu að sinni.