19.05.1927
Neðri deild: 82. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í D-deild Alþingistíðinda. (3546)

59. mál, kaup á húseigninni nr. 16 við Hafnarstræti

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þó að það sje freistandi að fara frekar út í vald skipulagsnefndar í framhaldi af umr. um lögin, sem sett voru um hana á síðasta þingi og jeg barðist fast á móti, þá ætla jeg þó að stilla mig um það nú. En nefnd þessi hefir fult vald til þess að ákveða, að þarna skuli þessi opinbera bygging standa og þarna hin.

Jeg ætla annars að minnast ofurlítið á fjárhagshlið þessa máls. Jeg er sannfærður um það, að niðurstaða fjhn. er mjög fjárhagslega röng. Uppástunga hennar felur í sjer, að það eigi sem fyrst að byrja á að byggja pósthús, sem samsvarar kröfum framtíðarinnar, og hefir nefndin bent á lóð, sem hægt er að fá fyrir 140 þús. kr. Nú geri jeg ráð fyrir, að ekki þýði að nefna minni upphæð en 600 þús. kr. til þess að koma upp hinu nýja húsi, og mætti jafnvel hugsa sjer hana hærri, t. d. 700–750 þús. kr. Nú er spurningin, hve fljótt ber þetta að, ef hafnað verður kaupunum á lóðinni í Hafnarstræti, og hve fljótt ber það að, ef landssíminn kaupir eignina. Um það verður nú ekki beinlínis sagt, en svo mikið er víst, að landssíminn er kominn í það öngþveiti, hvað húsrúm snertir, að hann verður á næstu árum að fá húsrúm í pósthúsinu, ef hann fær ekki að kaupa Hafnarstrætislóðina. En bygging nýs pósthúss tekur tíma, um 2–3 ár, og á næsta þingi yrði að fara að veita fje til þess. Jeg sje ekki, að ríkissjóði sje fært að leggja fram 200–300 þús. kr. í 2–3 ár til pósthússbyggingar, meðan bæði landsspítalinn og aðrar þær byggingar, sem nú eru í smíðum, hvíla á herðum hans. Það sýnist því vera nokkuð loftkastalalegt að ætla sjer þetta. Spurningin er nú aðeins, hve lengi við getum beðið með að byggja pósthús, ef landssíminn þarf ekki að fá húsrúm í núverandi pósthúsi.

Jeg er nú svo bjartsýnn, að jeg held, að komist verði af með gamla pósthúsið í ein 10 ár enn, ef ekki þarf að taka af því undir landssímann. En líka er þess að gæta, að það er rúm á efri hæðinni, sem lítið er notað, og þó að það sje að mörgu leyti óþægilegt að þurfa að sækja upp stiga, þá hygg jeg samt, að það megi nota það rúm, sem þar er uppi, í þarfir pósthússins.

Jeg vil nú athuga vaxtamuninn á því, að byggja 600 þús. kr. hús nú á næstunni, eða ekki fyr en eftir 7 ár. 7 ára vextir af 600 þús. kr. vega fyllilega upp á móti kaupverðinu á húseigninni í Hafnarstræti 16. Jeg er hræddur um, að ef slept verður því tækifæri, sem nú gefst, til þess að fá viðbót við húsrúm landssímans, þá verði fjárveitingavaldið að leggja stærri upphæð á ríkissjóðinn á næstu árum en hann getur risið undir. Mjer þykir mjög leitt, ef neitað verður um þá úrlausn málsins, er stjórnin hefir stungið hjer upp á.

Ef ofan á verður, af ástæðum, sem jeg nú ekki kem auga á, að nota ekki húsið Hafnarstræti 16 fyrir landssímann, þá er ekkert í hættu, þótt það sje nú keypt. Eignin rentar sig vel fyrir þeirri upphæð, sem hún á að kaupast fyrir. Það sýnist því áhættulítið að veita þessa heimild til að kaupa umrætt hús, þó að menn trúi því, að á næstu árum þurfi að byggja nýtt pósthús, en láta landssímann fá gamla pósthúsið. Frá hvaða sjónarmiði sem litið er á málið sýnist mjer fjhn. hafa komist að fjárhagslega rangri niðurstöðu.