19.05.1927
Neðri deild: 82. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í D-deild Alþingistíðinda. (3547)

59. mál, kaup á húseigninni nr. 16 við Hafnarstræti

Jakob Möller:

Jeg neita því ekki, að það er oft gaman að hlusta á hæstv. forsrh. (JÞ), þegar hann er að tala um fjárhaginn. En það er vafasamt gaman að hlusta á aðra eins ræðu og hann hjelt nú áðan. Jeg þekki það, að þegar hæstv. ráðh. (JÞ) er að leita að rökum, þá grípur hann oft til þeirra, sem síst skyldi, og verða þá rök hans að rökvillum. Og eins fór nú, er hann sagði, að till. fjhn. í þessu máli væri ríkissjóði fjárhagslega óhagstæð. Það er mjer hulin ráðgáta, hvernig hann getur farið út í allar þessar bollaleggingar án þess að reka sig á, að það er alt saman hrófatildur, sem ekki þarf annað en snerta með litla fingri til þess að það falli saman.

Hæstv. forsrh. (JÞ) talaði um, að það mundi kosta um 600 þús. kr. að byggja nýtt pósthús, en hann talaði ekki um, hvað sú bygging yrði dýr, er svaraði til eignarinnar í Hafnarstræti 16. En hvers vegna er verið að kaupa þessa lóð? Af því að það vantar húsnæði. En er þá ekki alveg eins hægt að nota húsið í Pósthússtræti eins og gamla húsið í Hafnarstræti? Auk þess er meira húsnæði í Pósthússtræti en á hinum staðnum. Jeg geri ráð fyrir því, að það sjeu engir aðrir en hæstv. ráðh. (JÞ), sem gera greinarmun á þessu, og jeg efast um, að þeir geti sannfært nokkurn mann um, að það sje rjett.

Spurningin er þá þessi: Á að byggja byggingu í Hafnarstræti 16 fyrir landssímann, eða í Pósthússtræti 11 fyrir pósthús? Það er að mörgu leyti hentugra að flytja póstafgreiðsluna í Pósthússtræti 11 en að flytja símann í Hafnarstræti 16. Það hefir enga þýðingu í sjálfu sjer, hvenær þarf að byggja. Fjárútlát ríkissjóðs verða væntanlega hin sömu, en þegar til lengdar lætur verða þau meiri, ef kaupa á húseignina í Hafnarstræti 16. Hún er dýr, en ekki nógu stór, og getur því ekki fullnægt framtíðarinnar þörfum. Það er líka játað, að flytja þurfi pósthúsið eða stækka það eigi að síður, þó að þessi húseign verði keypt.

Það er óþarfi að vera að nefna nokkra handahófstölu, en eins og hæstv. forsrh. nefndi 600 þús. kr., þá gæti jeg fult svo vel nefnt 1 milj. Svo dýr verður sú leið, sem stjórnin hefir bent á. Till. nefndarinnar aftur á móti er engin úrslitatill. Það má vel vera, að hægt sje að finna einhverja ódýrari leið.

Það var eitt atriði, sem hæstv. forsrh. tók upp og hæstv. atvrh. (MG) hafði drepið á, og það var verðmæti hússins í Hafnarstræti, að það mundi renta sig vel og borga upp kaupverðið. Þetta gæti nú staðist, ef ekki þyrfti að leggja stórfje í að gera við húsið. Það er vitanlegt, að því hefir lítið verið gert til góða nú um langan tíma, og er varla hugsanlegt, að opinberar skrifstofur geti verið þar nema gert sje rækilega við. Nú gefur húseignin af sjer um 10 % af hinu tiltekna kaupverði, en það er engin von um það, að húsaleigan geti haldist til lengdar, sem nú er. Auk þess hækkar verð hússins, ef gert er við það. Þar við bætast svo vextir og gjöld til bæjarins, og hvað verður þá eftir upp í afborganir af kaupverðinu? Þetta stendur óhrakið, því að þótt gera mætti ráð fyrir, að eitthvað hefðist upp úr húsinu, ef það væri rifið, þá er það ekkert upp í hið geipilega verð, sem sett er á eignina.