05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í D-deild Alþingistíðinda. (3559)

118. mál, yfirsíldarmatsmaður á Seyðisfirði

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Í greinargerð fyrir till. á þskj. 347 er flest það tekið fram, sem máli skiftir og þarf til skýringar því, að till. er borin fram. Aðeins fám orðum skal við bætt til frekari skýringar. Með lögum um skoðun á síld, frá 1919, er svo ákveðið, að yfirsíldarmatsmenn skuli vera fjórir á landinu, sem sje á Ísafirði, Siglufirði, Akureyri og Seyðisfirði. Jafnframt var landinu skift í umdæmi fyrir þessa fjóra yfirmatsmenn, og er umdæmi yfirmatsmannsins á Seyðisfirði einna stærst og erfiðast, því að það nær frá Reykjanesi sunnan og austan að Langanesi. Á nokkrum hluta þessa svæðis er þó lítil þörf á matsmanni, því að þar er síldarútvegur nær enginn. En á hinum eiginlegu Austfjörðum, frá Langanesi að Austurhorni, er oft fengsælt, þegar síld gengur að landi. Jeg ætla, að það hafi verið fyrst 1920, að skipaðir voru þessir fjórir yfirsíldar matsmenn.

Sá, sem skipaður var á Seyðisfirði var maður aldraður og heilsubilaður, og þótt hann gegndi starfinu fram til síðasta árs, þá varð, heilsubilunar hans vegna, annar maður að annast störf hans, að minsta kosti 2 síðustu árin.

Eins og kunnugt er, andaðist þessi yfirmatsmaður næstliðið vor, og var þá enginn skipaður í hans stað. Sá, sem gegnt hafði störfum yfirmatsmanns, sótti um starfið, en var hvorki settur nje skipaður. Í þess stað var yfirsíldarmatsmaðurinn á Akureyri settur til þess að líta eftir þessu svæði. Hann kom einu sinni í fyrrasumar austur og átti tal við nokkra menn, leit eitthvað eftir, en gaf víst fáar fyrirsagnir. En sumstaðar þar, sem veiðivon var mest, kom hann ekki. Undirmatsmenn voru þó, að jeg ætla, á 3 fjörðum eða 4, annarsstaðar engir.

Yfirmatsmaðurinn hvarf fljótlega á burtu og sást ekki til hans eða heyrðist í ágúst og september, meðan síldveiðin stóð yfir. Afleiðingin varð sú, að síldarmatið fór í handaskolum, þar sem ýmist vantaði matsmenn, eða lítt vanir menn áttu að sinna því.

Veiðin var í fyrstu talsvert ör, en vandhæfi á að selja síldina, því að fáir höfðu tök á að salta, enda bættist það ofan á, að sumstaðar fekst ekki mat á síldinni nýveiddri, svo sem 1. gr. nefndra laga mælir fyrir, og var ekki hægt að fylgja því ákvæði, en það aftraði enn frekar sölunni.

Á Mjóafirði, sem er einhver fengsælasti staðurinn, þegar um síld er að ræða, var enginn matsmaður. Þar fór því sem víðar, að síldarmat og síldarsala fór út um þúfur. Veiðin var í byrjun ör, og stöku menn tóku að salta fyrirsagnarlaust og ómetið, en sala til annara staða mistókst, meðfram vegna þess, að alt var ómetið. Aðkomumenn leituðu þangað til veiða, er leið á veiðitímann, jafnvel norðan af Eyjafirði, og urðu allir að verka síldina án fyrirsagnar. Einn aðalgallinn á þessari verkun reyndist síðar sá, að síldin var ekki flokkuð eftir stærð, og feldi það hana mjög í verði við söluna, enda er nokkuð af henni óselt enn, eftir því sem jeg veit best.

Á Reyðarfirði var matsmaður vanur starfinu, og þaðan tókst salan líka vel. Aðeins þar og á Seyðisfirði munu hæfir og vanir menn hafa metið.

Tjónið, sem af þessu skipulagsleysi leiddi, get jeg ekki tilgreint; veit aðeins, að það var geysimikið, bæði vegna þess, að það dró úr veiðinni og eyðilagði að nokkru leyti söluna, einmitt þegar síldin var þó að stíga í verði, í septembermánuði.

Jeg vil nú geta góðs til og ætla, að hv. stjórn hafi ætlað sjer að spara fje með því að skipa ekki yfirmatsmann eystra, en setja í starfið yfirmatsmanninn af Akureyri. Mjer er ekki kunnugt, hve mikið honum hefir verið greitt af þeim föstu launum yfirmatsmanns, en ferðakostnað hans hefir þó orðið að greiða, og hann öllu meiri en þurft hefði, ef maðurinn hefði verið búsettur á Seyðisfirði. Jeg hygg þess vegna, að sparnaður hafi lítill orðið að þessu fyrir ríkissjóð, og hitt veit jeg með vissu, að þessi ráðabreytni bakaði síldveiðamönnum eystra mikið tjón. Það var því fráleitara að setja síldaryfirmatsmann frá Akureyri til þessa starfs, sem hann var bundinn við síldarmat nyrðra yfir veiðitímann og auk þess háður öðrum störfum í þarfir Fiskifjelags Íslands. Setning hans var því hreint og beint málamyndaverk.

Jeg verð að telja það skýlaust brot á lögum um skoðun á síld, frá 1919, að kippa þannig yfirmatsmanninum burtu og setja mann til starfsins aðeins að nafni til, sem háður var öðru starfi og að engu liði varð. Um þetta hefði þó líklega ekki verið kvartað, ef ekki hefði viljað svo til, að veiði varð eystra með meira móti og stórtjón leiddi af fjarvera mannsins, þegar mest lá við. Tjónið kom auðvitað mest niður á veiðimönnunum, en einnig á ríkissjóði, sem fær á aðra krónu í útflutningsgjald af hverri tunnu. Útflutningur síldar hefði sem sje orðið miklu meiri, ef þessi handvömm hefði eigi valdið.

Tillaga þessi er nú fram komin til þess að reyna að koma í veg fyrir það, að öðru sinni verði sama óhappið þarna. Ástæðan til þess að setja þarna eystra eða skipa yfirmatsmann er nú því meiri en áður, að nú hafa margir búið sig undir síldveiði, aflað sjer veiðarfæra og annara tækja, sem ýmsa skorti næstliðið sumar, af því að síldveiði hafði þá verið treg árum saman og tækin gengið úr sjer. Margir hafa búið sig undir veiði á þessu ári með því að kaupa net eða herpinætur og önnur þau gögn, er með þarf.

Það virðist með öllu óforsvaranlegt að framlengja þetta ástand og láta yfirmatsmanninn vanta á þessu víðlenda svæði, þar sem altaf getur að höndum borið stórfelda veiði, líkt og áður hefir komið fyrir. Jeg get ekki sjeð, að það spari eyri fyrir landssjóð, því að þótt minna kunni að vera goldið í kaup til hins setta matsmanns frá Akureyri, þá tapar ríkissjóður beinlínis á því, ef eins fer öðru sinni og næstliðið sumar, að síldin verði ekki flutt úr landi eða reynist óseljanleg, vegna illrar flokkunar. Hjer er um einfalt sanngirnismál að ræða, og jeg vil ekki ætla, að nokkur leggi á móti því, að þessar hrapallegu misfellur vegna vöntunar yfirmatsmannsins verði lagfærðar og þannig afstýrt nýju óhappi.

Jeg álít svo, að ekki þurfi fleiri orðum að eyða að þessu máli, nema nýtt tilefni gefist, og læt því bíða þess, er verða vill við atkvæðagreiðslu.