05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í D-deild Alþingistíðinda. (3560)

118. mál, yfirsíldarmatsmaður á Seyðisfirði

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mig minnir, að það væri 26. júní, sem síldarmatsmaðurinn dó síðastliðið sumar.

Hann hafði á sinn kostnað og ábyrgð sett mann í sinn stað til þess að gegna þessum störfum í forföllum sínum, og gegndi sá maður þeim störfum, þangað til mikið var liðið á júlímánuð. Fór hinn setti maður ferð um Austfirði í fyrrasumar, til þess að gefa leiðbeiningar um mat. (SvÓ: Áður en hinn dó?). Nei, eftir það. (SvÓ: Jeg neita því). Jeg hefi reikninga fyrir því, sem sýna, að hann kom ekki úr þeirri ferð fyr en eftir að hinn var dáinn, og vilji hv. þm. neita því, óska jeg þess, að hæstv. forseti taki málið út af dagskrá, svo að jeg geti fært sönnur á mál mitt. Hann gegndi þessu starfi til þess 24. júlí, ef jeg man rjett, og hafði gert allan undirbúning fyrir síldartímann, sem í hönd fór. Þegar hann kom heim, óskaði hann eftir að verða settur eða skipaður á eigin ábyrgð, en þá tók stjórnin það ráð, að skifta starfinu á milli yfirsíldarmatsmannanna á Akureyri og Ísafirði. Það var þó mjög lítið svæði, sem matsmaðurinn vestra tók að sjer að líta eftir, sem sje Eyrarbakki og kaflinn vestan Lónsheiðar, eða rjettara sagt aðeins Eyrarbakki og Stokkseyri, sem komið gat til mála, að síld væri flutt út frá. Hv. flm. leit svo á, að þetta væri gert í sparnaðarskyni hjá stjórninni, og er það rjett athugað, en hinsvegar áleit hann það engan sparnað. Jeg vil því upplýsa, að þeir, sem settir voru til að gegna þessum störfum, hafa gert það fyrir ekki neitt, en að sjálfsögðu greiðir ríkissjóður ferðakostnað þeirra. Hann hefir verið mjög lítill, og því hefir sparast talsvert á þessari ráðstöfun.

Til þess að gefa yfirlit um það, hve mikið hefir veiðst af síld á Austfjörðum síðastliðin 10 ár, hefi jeg aflað mjer upplýsinga um það. Get jeg lesið upp skýrslu um það til fróðleiks hv. þm., en jafnframt tilgreini jeg útflutning frá öllu landinu, þó ekki með meiri nákvæmni en 1000 tn.

Útflutt var úr Austurlandsumdæmi:

Árið

Útflutt alls

1917

658 tunnur .... 90 þús. tn.

1918

423 — .... 15 þús. —

1919

486 — .... 208 þús. —

1920

0,5 — .... 183 þús. —

1921

11422 — .... 129 þús. —

1922

470 — .... 243 þús. —

1923

321 — .... 248 þús. —

1924

364 — .... 137 þús. —

1925

1404 — .... 246 þús. —

1926

9684 — .... 153 þús. —

Af

þessari skýrslu er bert, að svo

lítil

síld hefir veiðst á Austfjörðum

undanfarin 10 ár, að það er ekki nema lítill brothluti af því, sem veiðst hefir á öllu landinu, þó út yfir taki árið 1920, er ein einasta hálftunna er söltuð þar og metin til útflutnings. En það er líka sú dýrasta síldartunna, sem hjer hefir verið framleidd og flutt út, því að matið á henni kostaði hvorki meira nje minna en um hálft fjórða þús. kr. En þegar svo stendur á, að kostnaðurinn er mun meiri en tollur af útfluttri síld, er ekki nema eðlilegt, að stjórnin athugi, hvort ekki sje hægt að komast af án matsmanns, sem hefir 1600 kr. laun, auk dýrtíðaruppbótar. Það er blátt áfram hlægilegt að hafa fullgildan og dýran mann yfir svo litlu síldarmagni. Alt öðru máli er að gegna, ef síldveiðin þar eystra tekur að glæðast. Síðastliðið sumar var hún mun meiri en áður, og haldi það áfram, býst jeg ekki við, að neinn verði á móti að hafa þar yfirsíldarmatsmann. En síðastliðið sumar, er ekki lá annað fyrir stjórninni um síldveiðar eystra en skýrsla, er sýndi, að aflinn hafði undanfarin 10 ár verið ½–1422 tn. árlega, held jeg stjórnin verði ekki ásökuð, þótt hún skipaði ekki mann í þessa stöðu.

Jeg mótmæli þeim orðum hv. flm. (SvÓ), er hann viðhafði í ræðu sinni, og einnig standa í greinargerð till., að hjer hafi verið um vanrækslu að ræða af hálfu stjórnarinnar. Það var gert af ásettu ráði að skipa ekki mann í þessa stöðu, samkv. margyfirlýstum vilja þingsins, að stjórninni beri að sameina þau störf, sem verður við komið, og afnema öll óþörf embætti. En eins og jeg þegar hefi sýnt fram á, var ekki annað sýnna en þetta embætti væri með öllu óþarft. Enda sje jeg ekki betur en störfum þess hafi verið forsvaranlega ráðstafað, þar sem maður sá, er þau hafði annast, var búinn að fara eina eftirlitsferð áður en sýslanin var lögð niður. Og yfirsíldarmatsmaðurinn á Akureyri fór aðra ferð um umdæmið, til þess að líta enn eftir. Ef litið er á stærð umdæmanna — yfirsíldarmatsmaðurinn á Ísafirði hefir t. d. eftirlit með síldarsöltun frá Horni að Reykjanesi — þá sjer maður, að það er ómögulegt að ætlast til, að yfirsíldarmatsmaður sje við í hvert skifti sem síld er söltuð. Enda er það svo, að þeir gefa undirmatsmönnunum umboð til þess að gefa vottorð í sínu nafni, og það var gert hjer alveg eins og í öðrum umdæmum. Yfirsíldarmatsmaðurinn á Akureyri skipaði undirmatsmenn alstaðar þar, sem þörf var á í þessu umdæmi, að svo miklu leyti sem þeir voru ekki skipaðir áður. Það er næsta undarlegt, ef matsmenn hefir vantað, eins og hv. flm. (SvÓ) segir, að sumstaðar hafi verið, að þeir skyldu þá ekki settir í ferð hins mannsins, áður en síldveiðin byrjaði fyrir alvöru. Jeg hygg það ekki rjett hjá hv. flm. (SvÓ), að vantað hafi síldarmatsmenn nokkursstaðar þar, sem mátti búast við einhverri síldveiði, enda fer það í bág við það, sem yfirsíldarmatsmaður inn á Akureyri hefir tjáð mjer.

Annars er rjett eins og hv. flm. (SvÓ) búist við, að standa skuli yfirsíldarmatsmaður á landi, hvar sem menn leggja að og síld er veidd, reiðubúinn til þess að meta síldina strax, áður en hún er söltuð. En það er ekki svo eftir lögunum, að fyrirskipað sje að meta alla síld strax þegar hún kemur á land. Það er líka löglegt, þegar um tiltölulega litla veiði er að ræða, enda venjulegasta aðferðin, að salta hana fyrst og fá hana síðan skoðaða og metna, er hún hefir legið vissan tíma. Hitt væri ókleift þar, sem veitt er á mjög mörgum stöðum, eins og t. d. á Austfjörðum, og jafnvel einstakir bæir veiða dálítið hver fyrir sig. En ekki er við því að búast, að síldarmatsmaður sje á hverjum bæ.

Þá var hv. flm. (SvÓ) eitthvað að tala um, að blandað hefði verið saman stærri og smærri síld. Mjer þætti gaman, ef hann vildi benda á, hvar það er fyrirskipað að aðskilja stóra og smáa síld. Mjer vitanlega er það hvergi fyrirskipað. En síldarmatsmennirnir geta gert það eftir beiðni hlutaðeigenda. Það er ekkert ólöglegt, þótt síldin sje ekki flokkuð eftir stærð, enda er matið framkvæmt þannig um alt land.

Hv. flm. (SvÓ) vildi halda því fram, að það væri brot á síldarmatslögunum að hafa ekki jafnan skipaða 4 yfirsíldarmatsmenn á landinu. En það er hin mesta fjarstæða. Það getur verið og er jafnan svo í hverri embættisgrein, að færri menn skipa stöður en lög mæla fyrir, sumpart af því, að stöður eru lausar í bili, sumpart af því, að þeim gegna menn, sem aðeins eru settir um stundarsakir, hvort sem þeir nú hafa öðrum störfum að gegna jafnframt eða ekki. Það væri þá t. d. líka ólöglegt, að kennari við kennaraskólann er settur fræðslumálastjóri og kensla í grísku hjer við háskólann er falin sjerstökum manni, sem gegnir henni fyrir þóknun, sem nemur ¼ embættislaunum, ef skipaður væri maður í það. Jeg vil spyrja: Hvernig stendur á því, að þingið er að brýna fyrir stjórninni að steypa saman embættum, ef það er svo ólöglegt alt saman.

Öll ræða hv. flm. (SvÓ) virtist benda til, að hann álíti yfirsíldarmatsmennina hafa miklu meira með síldarmatið að gera en þeir hafa í raun og veru. Í einu umdæminu eru fluttar út á 2. hundrað þús. tunnur síldar, og getur hver maður sjeð í hendi sjer, að einn maður kemst ekki yfir að hafa eftirlit með svo miklu. Hann á að kenna undirmatsmönnunum, gefa þeim umboð fyrir sína hönd og hafa yfireftirlit með því, að matsreglum sje fylgt. Sú aðferð held jeg ætti líka að geta gengið á Austfjörðum, eins og annarsstaðar, ekki síst þegar tekið er tillit til þess, að síðastliðin 10 ár hefir verið flutt út þaðan að jafnaði langt undir 1000 tunnum síldar árlega. En haldi áfram að veiðast eins mikið og síðastliðið sumar, eða fari afli jafnvel vaxandi, skal jeg fyrir mitt leyti ekki vera á móti, að skipaður verði yfirmatsmaður þar, en jeg vil fyrst sjá til lengur en eitt ár, hvort síldveiðin er virkilega að glæðast. Jeg veit, að hv. þdm. sjá, að það er engin meining að hafa mann með á 3. þús. kr. launum til þess að meta nokkur hundruð tunnur á ári. Að minsta kosti sje jeg ekki annað en það hafi verið sjálfsagt að spara launagreiðslur á þessu sviði á tímabilinu frá því síðasta síldveiðitíma lauk og þar til næsti byrjar, því að á því tímabili hafa yfirsíldarmatsmenn því nær ekkert að gera. Það er lítil hagsýni í því að kosta sjerstakan mann til að sjá um mat á ½–1422 tn. á ári. Árið 1926 veiddist að vísu á 10. þús. tunnur síldar. En það ár kemur hjer ekki til greina, þar eð ákvörðun um þetta var tekin á miðju ári, áður en veiðimagnið væri kunnugt orðið.