05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (3571)

118. mál, yfirsíldarmatsmaður á Seyðisfirði

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Ef það verður ofan á að bera málið undir atkv. til úrslita nú þegar, þá vildi jeg þó fá tækifæri til að segja fyrst nokkur orð. Jeg get leitt hjá mjer að mestu athugasemdir hv. þm. Ak. (BL). Hann sagði, að það mundi ekki hafa dregið úr söltun síldar á Austfjörðum, að matsmaður var ekki við höndina. En það var nú samt svo, að menn vissu ekki, hvert þeir áttu að snúa sjer til þess að fá mat á síldinni samkv. fyrirmælum laganna, en þegar þeir buðu síldina til sölu, þá fundu kaupendur að henni eða höfnuðu kaupum, en matsmenn vantaði til að skera úr ágreiningi. Stundum þótti síldin of gömul, og urðu þá veiðimenn af sölunni. Það var því beinlínis vöntun á matsmanni, sem olli því, að þeim varð stundum lítið eða ekkert úr síldinni.

Jeg leiði alveg hjá mjer það, sem hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) sagði, því að mjer fanst það fara að mestu leyti fyrir ofan garð og neðan.

Hæstv. atvrh. (MG) kvaðst fús til þess að setja mann til þessa starfs næsta sumar, ef líkur yrðu fyrir síldveiði á Austfjörðum. En það er ómögulegt að benda á þær líkur fyr en veiði byrjar, og þá er orðið of seint að setja mann; hann fær þá eigi tíma til ferða og fyrirsagna, og sama sleifarlagið endurtekst. Hitt kannast jeg við, að rjett sje að veita ekki slíkt embætti sem þetta, en setja heldur mann til bráðabirgða. En það er jafnsjálfsagt að hafa þarna settan mann, til þess að ekki komi fyrir sama óhapp og síðasta sumar.

Jeg þarf ekki að svara hv. þm. Borgf. (PO). Hann tjáði sig á móti málinu, af því að til stæði að endurskoða þessa löggjöf um skoðun á síld og kosin væri til þess milliþinganefnd. Þessa milliþinganefnd þekki jeg ekki eða kosningu hennar. Skilst mjer, að atvrh. hafi sett einhverja stjórnarráðunauta til að rannsaka málið, og er jafnsjálfsagt fyrir því að setja yfirmatsmann eystra um sinn. Yfirlýsing hv. þm. (PO) um, að útflutningur síldar sje meiri úr Strandasýslu en frá Austfjörðum, veit jeg ekki, hvort er rjett. Getur átt við um einstök ár. En síldveiði hefir verið mikil við Austfirði og var hvergi meiri en þar á árunum frá 1880–1890. Hið sama getur vel komið fyrir aftur, og tel jeg því mjög óvarlegt að láta reka á reiðanum í þessu efni.

Jeg skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Jeg teldi langæskilegast, að sjútvn. fengi að fjalla um málið, og það mundi hafa þótt sjálfsagt um hvert slíkt mál annað.