07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (3578)

192. mál, umboðsmaður sáttasemjara á Austurfjörðum

Flm. (Jón Baldvinsson):

Mjer kemur þetta dálítið undarlega fyrir, sem hæstv. forsrh. (JÞ) hafði nú eftir hæstv. atvrh. (MG). Mjer hafði fyllilega skilist á honum, að hann hefði ekkert við þetta að athuga, nema að einhvern kostnað mundi af leiða; annað var það ekki, sem hann ljet í ljós við mig. Hann hafði ekkert á móti till. En þetta var „privat“-samtal, og skal jeg ekki fara lengra út í þetta. Jeg verð þá að taka þessa opinberu yfirlýsingu stjórnarinnar sem afstöðu hennar í málinu, og þar með, að hæstv. atvrh. sje algerlega andvígur till. Mjer fanst hæstv. forsrh. tala af svo miklum þjósti gegn till., eins og hún yrði afskaplega hættulegt atriði í löggjöfinni, eða hættuleg þáltill., af því að hún kæmi frá mjer. Það er naumast, að hæstv. ráðh. er varfærinn og hræddur. Jeg veit, að það er ekki margt af því, sem jeg ber fram, sem hann leggur lið, en svona hræddur hjelt jeg hann væri ekki. Hæstv. ráðh. (JÞ) má vel sjá það, að það getur engin áhrif haft um framkvæmdir í málinu, frá hverjum till. kemur. Hæstv. ráðh. gat þá eins sagt, að það hefði verið ákaflega óheppilegt, að 5. landsk., sem þá var 2. þm. Reykv., var framsögumaður í málinu um sáttasemjara á þinginu 1925.

Það á þá að vera svo hættulegt að flytja till. um að skora á atvrh. að hlutast til um við sáttasemjara, að hann setji umboðsmann, bara af því, að till. kemur frá manni, sem hæstv. ráðh. telur að geti verið fyrirsvarsmaður annars þeirra aðilja, sem eiga að búa við þennan umboðsmann sáttasemjara.

Það má vera, að það hefði átt að bera þetta undir sáttasemjara ríkisins, jeg skal ekki þrátta um það; en mjer finst till. svo meinlaus, og ekki nema eðlilegt, að stjórnin leitaðist fyrir að koma þessu fyrir, til hægðarauka, og átti jeg því síst von á, að till. fengi þessar viðtökur.

Nú vill hæstv. ráðh. (JÞ) gera sjálfur till. um að vísa málinu til stjórnarinnar. Það er að minsta kosti alveg eins óeðlilegt, að hann geri till. um að vísa málinu til stjórnarinnar — til sjálfs sín — eins og þótt jeg beri fram till. til þál. um að vinna að framkvæmdum á lögum, sem löngu eru komin í gildi og til framkvæmda. En hvað á þetta að gera til stjórnarinnar? Ætlar hún að framkvæma till., eins og hún er, eða bara sofa á henni til næsta þings? Væri nógu fróðlegt að vita, hvað vakir fyrir hæstv. stjórn. Tvent getur það verið. Það getur verið milt form á því að fella till.; í öðru lagi, að stjórnin taki málið til rannsóknar og athugunar. En mjer þykir það ákaflega undarlegt fyrirbrigði, er stjórnin tekur svo óliðlega í þetta mál, því að jeg hefi sannast að segja haldið, að þetta væri eðlileg framkvæmd á lögum um sáttasemjara; því að það stendur svo sjerstaklega á um þennan landshluta, og óskir hafa komið frá verkamannafjelögum um það, að sáttasemjari hefði þar fastan umboðsmann. Jeg gat því síst af öllu búist við, að hæstv. stjórn mundi svona hastarlega leggjast á móti þessari áskorun til hennar.