07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í D-deild Alþingistíðinda. (3585)

192. mál, umboðsmaður sáttasemjara á Austurfjörðum

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það var með vilja gert að snúa sjer ekki til sáttasemjara. Vinnudeilur eru viðkvæmt mál. Ef Alþýðusambandið eða verkalýðssambandið á Austurlandi hefði snúið sjer til sáttasemjara og hann sett umboðsmann þar samkvæmt beiðni þess, hefði það þá ekki gefið tilefni til tortrygni, fyrir þá sök, að farið væri eftir einhliða ósk annars aðilja? Til þess að forðast slíkt ásteytingarefni var sú leið valin, er jeg tel þá rjettu boðleið, að fara til þingsins og þingið feli stjórninni að hlutast til um þetta við sáttasemjara. Hafa þá hvorki verkamenn nje atvinnurekendur ástæðu til að væna málsaðilja um hlutdrægni.

Jeg ætla ekki að svara hæstv. forsrh. (JÞ), en legg aðeins undir dóm hv. þdm. ummæli hæstv. atvrh. (MG), þau er hann nú viðhafði hjer, og hinsvegar þau ummæli, sem hæstv. forsrh. bar hingað í deildina. Jeg ætla að biðja hv. þm. að bera þau saman og gera upp, hvor muni hafa haft rjettara fyrir sjer um afstöðu hæstv. atvrh. (MG), jeg eða hæstv. forsrh. (JÞ). Það, sem hæstv. atvrh. sagði, var á alt aðra lund og með alt öðrum blæ heldur en það, sem hæstv. forsrh. (JÞ) bar fram hjer í deildinni.

Jeg vil mega benda á, ef mönnum þykir vafi leika á, að sáttasemjari megi setja mann fyrir sig, að í umr. um þetta mál á þingi 1925 er það skýrt tekið fram, að sáttasemjari geti sett umboðsmenn fyrir sig úti um land. Með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp fáein orð:

„En ekki virðist óeðlilegt, að hann gæti látið annan mann koma fram fyrir sig á öðrum stöðum á landinu, og mætti tiltaka það í erindisbrjefi hans“. Þetta er frá frsm. í málinu. Og er meðal annars bygt á þessum ummælum, að sú leið er farin, sem í till. felst, að skora á stjórnina að hlutast til um að koma þessu þannig fyrir og gera breytingar á erindisbrjefi sáttasemjara í samræmi við það.