09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (3595)

128. mál, sparnaðarnefndir

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla aðeins að benda á, að hæstv. forsrh. játar, að hvorki hafi hann nje stjórn hans komið með neinar till. í þessa átt, að minka útgjöld ríkissjóðs með skipulagsbreytingum eða á annan hátt. Jeg hefi áður bent á, að af till. hæstv. stjórnar um stofnun nýrra embætta í tugatali verði ekki ráðið, að fyrir henni vaki neinn spámaður á embættasviðinu. Þar fær alt að sitja með kyrrum kjörum, nema ef við er bætt. Er ástæða til þess að halda, að það stafi af því, að megnið af starfs- og embættismönnum landsins eru stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar, og vilji hún því ekki herða að kostum þeirra með embættasamfærslu.

Hæstv. ráðh. (JÞ) taldi verið að færa saman og spara á skólum með samskólafrv. En jeg sje ekki neinn sparnað við það að byggja stórhýsi í þessu skyni á stærð við landsspítalann og fjölga starfsmönnum þess opinbera, þ. e. kennaralið þessa fyrirhugaða skóla, eftir því sem þörfin útheimtir, eins og sagt er í frv. Þar að auki leiðir af þessari breytingu kröfur um samskonar skipulag á skólum úti um land, sífjölgandi föst embætti, launuð af ríkissjóði. Það er ekki vafi, að hæstv. forsrh. fer þar með rangt mál, er hann sagði, að ekki væri dýrara að reka slíkar stofnanir á ríkiskostnað beinlínis heldur en með opinberum styrk. Jeg bendi á kvennaskólann og mentaskólann sem dæmi til samanburðar. Nú er mentaskólinn að vísu stærri og þar af leiðandi fjárfrekari. En er maður athugar kostnað ríkissjóðs af hvorum þessara skóla og ber saman við nemendafjölda hvors um sig, kemur í ljós, að einmitt þetta skipulag á kvennaskólanum, að þar er ekki mikið um föst embætti, gerir það að verkum, að stofnunin verður hlutfallslega langtum ódýrari í rekstri. En föstu embættin gera ríkisskóla alt að helmingi dýrari en annað skipulag.

Jeg býst við, að það sje misráðið að hæstv. forsrh. og stuðningsmönnum hans að eyðileggja þetta mál núna, rjett fyrir kosningar. Því að vísa máli til stjórnar er, eftir minni reynslu, sem fengin er í þeim efnum, sama sem að koma því fyrir kattarnef. Kem jeg að því síðar.

Hæstv. ráðh. (JÞ) vildi ekki ganga inn á, að til nýs embættis væri stofnað með fyrirhuguðum heimavistum við mentaskólann. Í frv., sem nú er á döfinni um þetta efni, er gert ráð fyrir íbúð handa umsjónarmanni, og vitanlega er það ekki rektor, sem þar er átt við, því að hann hefir íbúð í skólahúsinu sjálfu. Rektor átti tal við nefndina og kvað ekki koma til mála, að skólastjóri hefði umsjón með heimavistunum. En ef kennari væri umsjónarmaður, gæti það gengið með því móti, að hann hefði þá ekki nema tiltölulega litla kenslu á hendi. Svona er nú því varið. Hinsvegar var hæstv. ráðh. að tala um stofnun fasts embættis með fjárveiting til fyrirlestrastarfsemi farandkennimanna. En það er öðru nær en þar sje um föst embætti að ræða, heldur á að verja því fje, sem sparast við það, að eitt eða fleiri prestaköll á landinu eru laus, til þess að láta duglega kennimenn ferðast um og messa yfir söfnuðum úti um land. Verður það því frekar kallað fyrirlestrastarfsemi en embætti. Má í henni sjá vísi til skipulagsbreytingar á prestastjett landsins. Hæstv. ráðh. skildi það ekki, en aðrir skilja það sennilega. Þegar svo er komið, að bestu prestar geta náð til fleiri safnaða en sinna eigin — og mun í framtíðinni útvarpið að því stuðla mikið — þá kemur til greina skipulagsbreyting og sparnaður, sem leiðir af fækkun ónauðsynlegra manna í þeirri stjett.

Þá hefir hv. þm. Vestm. (JJós) talað fyrir og borið fram rökstudda dagskrá um að vísa þessu máli til hæstv. stjórnar. Áður en jeg minnist á það tiltæki hans, verð jeg að leiðrjetta missagnir í ræðu hans.

Hv. þm. (JJós) fór rangt með orð mín um Norðfjörð og Önundarfjörð. Jeg tók dæmi, að í allri Rangárvallasýslu væri ekki nema einn læknir. Jeg vildi mega biðja hv. þm. Vestm. að hafa í huga, að jeg tók dæmið til þess að sýna þörfina á að hafa opin augu fyrir því, hvar megi draga saman seglseglin, þar sem svo víða hjá okkur Íslendingum verður að hafa sjerstaka embættismenn, þrátt fyrir fámenni í einstökum sveitum. (JJós: Norðfjörður er fjölment kauptún). Þótt eitt þús. manna sje á Norðfirði, þá eru þó enn fleiri í Rangárvallasýslu. En dæmið er aðeins tekið til þess að sýna fram á, hve mikil þörf er á auga á hverjum fingri, þar sem svo stendur á, að sumstaðar nægir einn læknir fyrir þann mannfjölda, sem marga þarf til að gegna annarsstaðar.

Þá kem jeg að till. hv. þm. Vestm. Eins og jeg gat um áðan, er slík till. sem þessi vænlegust allra aðferða til þess að drepa mál, sem menn vilja gjarnan losna við. Það er nú einu sinni svo, að stjórnir verða nokkurskonar líkkistur þeirra mála, er til þeirra er vísað.

Má sjá þess glöggan vott af gangi eins máls, er var vísað til hæstv. núverandi landsstjórnar. Hún er nú búin að sitja að völdum síðan 1924 og hefir ekki enn getað lagt niður einn alóþarfan brennivínsseljandi lækni. Hin nýkjörna ríkisstjórn vildi sýna, hvað hún gæti, er krafist var niðurfellingar á embætti þessa manns. En raunin varð sú, að hæstv. stjórn eyðilagði málið, ljet vísa því til sín, valdi þá bestu menn, sem hún gat, til þess að athuga það, en niðurstaðan varð sú, að ekkert hafðist upp úr öllu saman. Reynslan sýnir, að það er með öllu vonlaust um árangur með því að fara þessa leið. Hæstv. stjórn hefir haft tækifæri til þess að sýna getu sína í slíkum efnum, en ekkert orðið úr til gagns.

Hv. þm. Vestm. kvaðst vonast til, að hæstv. stjórn mundi vinna að þessum sparnaðarundirbúningi með þekking og alúð. Ætli það yrði ekki sönnu nær að gera ráð fyrir, að þekking hennar og alúð beindist að því að stinga málinu svefnþorn, eins og þá er till. var flutt um að gera mögulegt að breyta ellegar leggja niður með öllu eitthvert aldýrasta og um leið óþarfasta embætti á öllu landinu. En 18 þús. kr. handa óvöldum, dönskum lyfsala þótti ekki of mikið þá, og þykir víst ekki enn, og hæstv. forsrh. leiddi hjá sjer að verja það. En jeg held einmitt, að þetta bendi til þess, að þekking og alúð hæstv. stjórnar sje ekki nægileg til þess að sjá um sparnað á þeim liðum, er hv. þm. (JJós) nefndi. Þegar hún heldur í sinni þjónustu manni, sem ekki er hótinu starfshæfari en fjöldinn allur af hjeraðslæknum landsins, sem hafa þó ekki nema hálf laun á við hann, en gætu sem best annast embættið. Þrátt fyrir þetta tek jeg viljann fyrir verkið hjá hv. þm. Jeg hafði ástæðu til að halda, af því, hve hæstv. stjórn hefir verið aðgerðalítil í þessum efnum, að henni væri ekki um, að þingið tæki málið í sínar hendur. Nú vill hv. þm. afhenda það stjórn sem búið er að reyna að láta gera eitthvað, en gerir ekki neitt.

Ef stjórnarflokkurinn samþ. þessa till., fæ jeg ekki skilið það á annan veg en þann, að hann vilji, eins og jeg líka óttaðist fyrirfram, eyðileggja þetta mál og sporna við, að nokkuð sje gert í því. En það er sjálfsagt að vona hið besta, þótt reynslan sje ekki góð. Jeg hlakka til að sjá framan í hv. þm. Vestm. á næsta þingi, er hæstv. stjórn, er við skulum gera ráð fyrir að lafi þá enn við völd, kemur með sína vönduðu útreikninga og áætlanir um sparnaðarráðstafanir við stofnanir ríkisins. Þá kemur í ljós árangurinn af „þekking og alúð“ hæstv. stjórnar.