09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í D-deild Alþingistíðinda. (3596)

128. mál, sparnaðarnefndir

Guðmundur Ólafsson:

*) Jeg bjóst ekki við, að neinn hv. þingdm. og síst hæstv. ráðh. (JÞ) mundi finna ástæðu til að mótmæla því, sem farið er fram á í till. þessari. Því að jeg sje ekki annað en þetta sje saklaus tilraun, þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum kostnaði. Enda var líka fyrsta ræða hæstv. forsrh. vinsamleg, og kvaðst hann jafnvel mundu geta greitt till. atkv. sitt. En er fram í sótti, kom upp þessi venjulegi nágrannakrytur milli hans og hv. 1. landsk. (JJ), og mátti þá frekar skilja, að hann vildi snúast öndverður gegn till. Eru þessar ýfingar með þeim hv. 1. landsk. og hæstv. ráðh. (JÞ) ekki svo óalgengar, að ástæða sje til að endurtaka þann leik á hverjum einasta fundi, sem þeir tala á.

En mig furðar á undirtektunum hjá hv. þm. Vestm., sem ber fram dagskrá um að vísa till. til hæstv. stjórnar til athugunar og rannsóknar. Verð jeg að taka undir með hv. 1. landsk., að það sje sama sem að eyða málinu. Allir játa, að þörf sje á að spara á opinberri starfrækslu, en þá skilur á um leiðir. Hv. þm. Vestm. segist trúa hæstv. stjórn best til þess að ráðgera og koma í kring þeim sparnaði. En það eru ekki allir, sem treysta henni eins vel, og margir hafa fallið um minna en það, að hæstv. stjórn, eftir eigin orðum, hafi getað gert eitthvað í þessa átt, en látið það ógert. Það var á þingi 1924 eða 1925, að hv. þm. V.- Húnv. (ÞórJ) bar fram till. til þál. um fjölgun vinnustunda á stjórnarskrifstofunum. Var hún samþykt og kom til framkvæmda í fyrra, að því er mjer er sagt. En í sambandi við frv. Jóns heitins Magnússonar, fyrv. forsrh., um fjölgun kenslustunda við landsskólana, ljet hann þess getið hjer í deildinni, að hann mundi kippa að sjer hendinni um lenging vinnutímans á stjórnarskrifstofunum, ef frv. yrði felt. Hann kvaðst ekki þurfa að spyrja þingið um leyfi, hann hefði vald til þess sjálfur. Fór svo frv. frá þessari deild, en mun hafa verið drepið í hv. Nd. Hafi þessi fyrirrennari haft eins góðan skilning á lögum og hæstv. núverandi forsrh. (JÞ) — og það verð jeg að álíta — þá er það ekki rjett hjá hæstv. ráðh. (JÞ), að ríkisstjórnin geti ekki sparað við landsskólana og á sínum eigin skrifstofum, án þess að spyrja þingið leyfis, og nú væri ekki hægt að koma við sparnaði á þessu sviði, af því að þingið setti sig á móti. En mjer finst samt hægt að fella sök á hæstv. landsstjórn, ef hún sparar ekki við ríkisskólana og skrifstofur sínar, því að þess háttar þarf ekki til þingsins að koma, að áliti hins látna forsrh.

till. geti gert ógagn, fæ jeg ekki skilið, úr því að þessi sparnaðarnefnd á að vera launalaus. Jeg býst að minsta kosti við ekki minni árangri af starfi þessarar nefndar og að ekki færri af sparnaðartill. hennar nái að komast í framkvæmd, heldur en þegar hæstv. stjórn fór hjer um árið að koma með sínar sparnaðartill., sem aðallega beindust í þá átt að fækka sýslumönnum, og engin þeirra, svo jeg viti til, hefir orðið að gagni.

Mjer þykir það kynlegt af mönnum, sem viðurkenna þörf á sparnaði, að vera á móti því að gera tilraun, sem ekkert kostar, til þess að komast að heppilegri niðurstöðu um, hvernig spara skuli. Ef hjer væri um fjölmenna og launaða nefnd að ræða, skal jeg ekki bera á móti því, að jeg mundi vera mjög á báðum áttum, hvort greiða skyldi atkvæði með skipun slíkrar nefndar. En mjer finst ekki til of mikils ætlast, að hægt sje að fá 3 menn hjer í bænum, sem álitu þetta slíkt nauðsynjamál, að þeir vildu á sig leggja að starfa að því án launa milli þinga.

*) Ræðuhandr. óyfirlesið.