09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í D-deild Alþingistíðinda. (3597)

128. mál, sparnaðarnefndir

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) gerir sjer miklar vonir um starf þessarar nefndar eins og hún er hugsuð samkvæmt till., (GÓ: Það er nú fært í stílinn.) — og þótti viðtökurnar ekki sem bestar hjá mjer. En jeg get sagt honum og hv. 1. landsk. (JJ) það, að mjer er eins vel að skapi og þeim, að sparað sje fje ríkissjóðs. En jeg er ekki eins fíkinn og þeir í að gera þetta mál að kosninga-„númeri“. Að hv. 1. landsk. (JJ) sje það efst í huga, kom berlega í ljós af því, að hann ljet svo um mælt, að íhaldsflokkurinn ynni sjer í óhag með því að vísa till. um þetta mál til stjórnarinnar, svona rjett fyrir kosningar. Það er svo sem auðheyrt kosningahljóðið í strokknum þeim. Hv. 1. landsk. (JJ) fanst ekki sem best eiga við, að jeg talaði um, að vinna þyrfti að sparnaðarráðstöfunum með alúð og þekkingu. Ef ekki er unnið af alúð og heldur ekki af þekkingu, þá þykir mjer ekki vænlegt um árangur.

Jeg lagði til, að málinu yrði vísað til stjórnarinnar, með þeim forsendum, að hún beitti sjer af alvöru fyrir endurskoðun á rekstrartilhögun ríkisstofnana og till. í sparnaðarátt. Það er ekki rjett skilið hjá hv. 1. landsk. (JJ) og samflokksmanni hans, hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), að till. mín miði til þess að drepa allar sparnaðartilraunir. Till. mín er fram borin til þess að víkja á bug þeirri þokukendu og lopalegu nefndarskipun, sem þáltill. fer fram á. Verður ekki sjeð, að sú nefnd hefði neina aðstöðu til þess að verða málinu að nokkra liði. Hv. 1. landsk. (JJ) er einstaklega óheppinn í vali á dæmum, máli sínu til stuðnings. Nú teflir hann fram því dæmi, og brýnir mig mjög í því, að einhverntíma hafi jeg verið mótfallinn breytingu á tilhögun vín- og steinolíuverslana ríkisins. Færði hann söguna í þann búning, að við, sem ekki vildum fallast á samsteypu þessara verslana hvað forstöðu snerti, hefðum gert það vegna einhvers dálætis á Mogensen lyfsala. En sá maður hefir haft forstöðu lyfjasölu og áfengisverslunar ríkisins og hefir til þess öll þau skilyrði, sem lög ætlast til. Hv. 1. landsk. (JJ) vildi láta forstöðu þessa falla saman við forstöðu landsverslunarinnar, sem þá seldi olíu og tóbak. Það gátum við ekki samþykt, þar eð vitanlegt var, að sá maður, er veitti landsversluninni forstöðu og stendur að vísu vel í stöðu sinni þar, hafði ekki þá þekkingu, er lögin krefjast á hinu sviðinu. Þótt sú sameining hefði komist á, er ekki líklegt, að neitt hefði við það sparast, því lyfjaversluninni verður vel mentaður sjerfræðingur að veita forstöðu. Hver hefði svo árangurinn orðið? Það getur verið, að skeytið, sem beint var að Mogensen, hefði hitt, ef till. hv. 1. landsk. (JJ) hefði þá verið samþ., en á embættisrekstrarkostnaðinum hefði enginn sparnaður orðið. Þá má líka minna á póstprestinn, sem átti að spara prestahald. Hv. þm. gleymdi því þá, að til væru önnur prestverk en prjedikunarstarfsemin. Jeg þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Jeg hefi bent á, hvað hægt væri að gera í þessu máli með öruggri vissu um sparnað á ýmsum sviðum, ef mín till. verður samþykt.