22.02.1927
Neðri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í D-deild Alþingistíðinda. (3610)

30. mál, vaxtalækkun

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Mjer þykir sem hv. flm. (MT) hafi ekki haft neitt að athuga við þá meðferð málsins, sem jeg stakk upp á, að vísa því til fjhn., svo að jeg þarf ekki að fjölyrða um það, og í raun og veru kom ekkert nýtt fram í ræðu hv. flm., sem snertir þetta mál. Jeg verð þó að leiðrjetta það hjá hv. flm., þar sem hann sagði, að stjórnin hefði vald til að ráða vöxtum í landinu. Jeg benti þvert á móti á, að stjórnin hefði ekki vald til að gera það, en benti á, að þessir vextir verða yfir höfuð nokkuð mikið að fylgja viðskiftalögmálum, sem enginn getur rofið án þess að hitta sjálfan sig fyrir. Þá vildi hv. flm. hafa það eftir mjer, að jeg hefði sagt, að bankarnir væru handbendi stjórnarinnar. Jeg held, að jeg hafi ekki sagt það, heldur löggjafarvaldsins; meinti jeg þar með, að löggjafarvaldið hefir meiri afskifti af þeim en annarsstaðar er tíðkanlegt, og er ekkert merkilegt við það, því að annar þeirra er að nokkru leyti fyrverandi seðlabanki, og er það enn, en hinn er að nokkru leyti að byrja að taka við.

Hv. flm. sagði, að það hefði verið snjallræði að lækka vextina árið 1925, en hækka ekki krónuna. Jeg er ekki þeirrar skoðunar. Jeg hygg heldur, að snjallast hafi verið að gera hvorttveggja, eins og gert var. Ekki held jeg, að það lýsi nægum kunnugleika á högum bankanna hjá okkur, að hv. þm. (MT) heldur, að sjálfseign þeirra hafi verið meiri árið 1923 heldur en hún er nú. Það lýsir fremur ókunnugleika. Þegar jeg talaði um það, að bankarnir ættu á hættu að missa viðskiftamenn, ef þeir færðu vextina um of niður, þá átti jeg vitanlega ekki við lántakendur; það firtist enginn lántakandi af því, þótt þeir færi vextina niður, en hinu má búast við, að einhverju leyti, ef innlánsvextir eru færðir meira niður en hæfilegt þykir í hlutfalli við það, sem lántakendur bjóða í þessa peninga, að eitthvað hverfi úr bönkum af innlánsfje. Það er undir venjulegum kringumstæðum ekkert ólán, þótt eitthvert innlánsfje sje á vöxtum utan banka, en bankarnir verða að fara sjerstaklega varlega á þeim tíma, sem erfitt er fyrir atvinnuvegina að borga nokkuð verulega af lánum. Ef innstæðumenn taka sitt fje út úr bönkunum, af því að þeir þykjast ekki fá nægilega háa vexti, þá verða bankarnir að heimta sömu fjárfúlgu jafnharðan frá skuldunautum sínum, atvinnurekendunum. Þetta er ástæða, sem jeg hygg að hv. flm. hafi fullkomlega komið auga á.

Hv. flm. benti rjettilega á það, að það er ekki búið að fella niður alla skatta- og tollahækkun frá árinu 1924, en jeg held það líka ákaflega hæpinn mælikvarða að gera sjer vonir um það, að við getum felt burtu allar þessar hækkanir. Og jeg vil minna á það, að næstu árin á undan 1924, áður en þessi hækkun kom til, var búskapur ríkissjóðs rekinn með árlegum tekjuhalla, sem svarar frá 2 og upp í 3½ milj. kr. Og að ástandinu svona ekki mikið breyttu, þá get jeg ekki sjeð, að það muni verða hægt að setja tekjur ríkissjóðs aftur í það sama far og þær voru í þessi tekjuhallaár.

Um vexti í Englandi er það að segja, að jeg hafði ekki svo mjög hugsað mjer vexti Englandsbanka, því að það er ekki óvenjulegt um hann, eins og aðra þjóðbanka og seðlabanka, að þeir gefi litla vexti af innlánsfje. Jeg átti þar við hina stærri viðskiftabanka, sem mest ber á í Englandi. Þeir borga ákaflega litla vexti af innlánsfje. Að nefna enska lánið frá 1921 kom ekkert við þessu máli, af því að þetta enska lán frá 1921 er alls ekki bankalán. Það er handhafaskuldabrjefalán, og ef erfið kjör á því láni ættu að sanna nokkuð hjer um, þá sannaði það náttúrlega mitt mál, að mismunur á þeim útlánsvöxtum, ef menn vilja kalla það útlán, og innlánsvöxtum banka í Englandi, er miklu hærri en hjer. En sá samanburður er ekki rjettur, af því að þetta var alls ekki bankalán.

Þá held jeg, að jeg verði að vera hv. flm. alveg ósammála um það, að vaxtalækkun sje ráð til að forðast lækkun gjaldeyris. Mjer skildist virkilega hv. flm. segja þetta. Hitt vita allir, sem nokkuð hafa kynt sjer þetta mál, að að því leyti sem mismunandi vöxtum er beitt til þess að hækka gjaldeyri, þá er það vaxtahækkun og háir vextir, sem „þjena“ til þess, ef svo má segja, að halda honum uppi eða hækka hann. Að það sje hægt að halda uppi eða hækka gengi gjaldeyris með vaxtalækkun, lýsir svo mikilli vanþekkingu á þessu efni, að slíkt má ekki heyrast í þingsal. En þótt jeg sje hækkunarmaður, þá vil jeg gjarnan bíða, því að jeg get mjög vel unnað atvinnuvegunum þeirrar hjálpar, sem hægt er, með lágum vöxtum, þótt jeg hyggi, að fræðimennirnir hafi rjett fyrir sjer í því, að það muni ekki verða til þess að hækka gjaldeyrinn.