21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í D-deild Alþingistíðinda. (3635)

54. mál, milliþinganefnd um hag bátaútvegsins

Jón Ólafsson:

Um leið og jeg tek undir þann góða tilgang, sem vakir fyrir hv. flm. þessarar till., verð jeg að fara nokkrum orðum um hina einstöku liði hennar. Jeg skal strax taka það fram, að jeg er algerlega á móti því, að skipuð verði milliþinganefnd í þetta mál, og er það af þeim ástæðum, að jeg tel ekki, að hún geti leyst það starf betur en þeir kraftar, sem landið á í Fiskifjelaginu og ráðunautum þess. Og jeg held, að sú rannsókn mundi fara best í höndum þeirra manna, sem mest hafa hugsað um hag þessa útvegs. Annað, sem kemur mjer til þess að vera á móti skipun milliþinganefnda yfirleitt, er það, að mjer finst við ekki hafa fengið neinar verðmætar leiðbeiningar frá slíkum nefndum í þeim málum, sem þær hafa verið skipaðar til að vinna að. Jeg skal að vísu ekki segja um, hvort þær hafa látið eitthvert verðmæti eftir sig liggja fyrir söguna, en jeg hefi ekki getað fundið, í einum fimm nefndarálitum, segi og skrifa fimm, nokkuð verulegt til gagns fyrir þau mál, sem þær hafa átt að athuga, nema ef til vill aðeins til þess að samræma lög og lagabálka, t. d. milliþinganefnd til þess að rannsaka löggjöf landbúnaðarins í heild sinni.

Jeg ætla þá að snúa mjer að hinum einstöku liðum till., og skal jeg þá byrja á 1. liðnum. Það er eins og allir vita, að hver einasti maður, sem fæst við slíkan atvinnurekstur sem þennan, byrjar fyrst á því að athuga, hvað og hvar hann geti sparað og hvernig hann best geti farið að því að láta þann atvinnuveg bera sig, sem hann hefir með höndum. Þetta gerir hann með ýmsu móti, þar á meðal með því að gjalda minna kaup og láta menn sína taka hlutdeild í aflanum, og jeg held, að þetta atriði sje það, sem mest er barist um. Jeg hefi ekki trú á því, að menn nje stofnanir geti sett neinar betri reglur um það en einmitt þeir, sem fara með þessa útgerð, og álít því 1. lið till. tilgangslítinn.

Þá er 2. liður till.: Hverjar breyttar eða bættar veiðiaðferðir megi honum að liði verða. Það er nú svo, að þetta mál hefir verið fyrir fiskiþinginu um þrjú undanfarin ár; það hefir verið skipuð nefnd í málið þar, og meðal annars yfirfarið, hvaða veiðiaðferðir okkur vantaði kringum landið, sem annars eigi við og notaðar eru í nálægum löndum við sama fisk og hjer er, og niðurstaðan hefir orðið sú, að okkur vantaði ekki neitt af viðeigandi veiðiaðferðum. Það hefir því ekki þótt ástæða til að gera neitt frekara í því efni. Hinsvegar hefir það komið til orða, að Austfirðingar væru á eftir með netaútgerð, og það hefir komið til orða að veita þeim einhvern styrk til þess að reyna að veiða þorsk í net, en auðvitað er það verk Fiskifjelagsins og fiskiþingsins að gera það, ef Austfirðingar hafa ekki þá manndáð í sjer að reyna sjálfir. Og jeg held, að milliþinganefnd geti ekkert skipað fyrir um þetta, eða að minsta kosti ekki betur en starfskraftar þeir, sem Fiskifjelagið hefir á að skipa. Þetta er leiðbeiningastarfsemi, sem Fiskifjelagið er fúst og skyldugt til að inna af hendi og mundi gera það, engu síður en milliþinganefnd.

Þá er 4. liður þessarar till., sem í raun og veru er sá liðurinn, sem mestu varðar og mest verður að byggja á, en það er í rauninni ekki heldur milliþinganefnd, sem getur gert neitt verulegt í þessu, og ekkert frekar en stjórn Fiskifjelagsins gæti gert í samráði við landsstjórnina. Jeg get ekki sjeð, að nefnd, sem eins og hv. flm. (SvÓ) tók fram, ætti að vera komin víðsvegar að af landinu, mundi koma fram með neinar þær tillögur, sem gætu verið betri en þær, sem Fiskifjelagið og ráðunautar þess geta gert, með þekkingu sinni á öllu því, sem gerist um land alt í þessu máli. En það er, eins og jeg tók fram, 4. liðurinn, sem er aðalefnið í þessu máli, og það er alveg rjett, að það er lítið gert fyrir þennan útveg, og vitanlega þyrfti að gera miklu meira fyrir hann. En það er allfróðlegt í þessu sambandi að líta yfir þetta atriði málsins síðan 1905, að fiskiveiðasjóðurinn var stofnaður með 100 þús. kr. framlagi úr ríkissjóði. Árlegar tekjur hans skyldu vera 6000 kr., sem ríkissjóður legði til, og 1/3 sekta og 1/3 seldra veiðarfæra þeirra skipa, er tekin væru í landhelgi við ólöglegar veiðar. Árið 1907 fær sjóðurinn enn sem tekjur 10% af útflutningsgjaldi af síld, en 1919 er svo þessi tekjuliður tekinn af sjóðnum, og 1920 eru allar sektir fyrir ólöglega veiði í landhelgi látnar renna í landhelgissjóð og þar með teknar af fiskiveiðasjóði.

Upphaflega lánaði sjóðurinn með 3% vöxtum og afborgunarlaust í 3–4 ár. Lánsupphæðin — hámark — var á 5—16 smál. bát kr. 2000,00, á 16–30 smál. bát kr. 5000,00 og gufuskip kr. 15000,00. Hámark lána hefir síðar verið hækkað, þannig:

úr 15 þús. kr. upp í 30 þús.

— 5 — — — - 10 —

— 2 — — — - 5 —

Sömuleiðis hafa vextir verið hækkaðir úr 3% upp í 6%, en ekki er mjer kunn ástæðan fyrir vaxtahækkuninni.

Við það að líta yfir starfsemi sjóðsins sjest, að hann hefir á fyrstu 9 árunum, þ. e. til 1914, lánað til báta og vergagna kr. 220 þús., og er þá meiri hluti sjóðsins í útlánum. Upp frá þessu fer eftirspurnin, eða útlánin, minkandi, svo að við árslok 1924 eru aðeins 70 þús. kr. úti í lánum til báta. Aftur á móti eru þá nýlega lánuð stórlán úr sjóðnum til hafnarbóta; þá fær Reykjavíkurhöfn 250 þús. kr. lán, og í sjóði nú á seinni tímum eru 200 þús. kr. og þar yfir, sem ónotað er samkvæmt tilgangi sjóðsins.

Eftirtektarvert er það, að lánin til báta fara þverrandi frá 1914. En það ár eru sett lög um sjóveðrjett í bátum og skipum, sem gera öll önnur veð mjög óábyggileg. Og víst er það, að mjög standa lög þessi í vegi fyrir veðhæfi báta og smærri skipa fyrir lánum við allar lánsstofnanir.

Það er alveg rjett, sem hv. flm. (SvÓ) sagði, að sjóðurinn hefir meira beinst að því að lána fje til hafnargerða, og þó jeg álíti, að þessi sjóður eigi frekar að vera til hjálpar smábátaútveginum heldur en stórum hafnargerðum, þá verð jeg þó að segja það, að það er ekki hægt á neinn hátt að hjálpa sjávarútvegi betur en með því að sjá um, að hann fái góðar hafnir; því að enginn útvegur getur átt sjer stað, nema þar sem hafnir eru góðar og það hefir sýnt sig t. d. á Akranesi, að þar er nú komin töluverð útgerð, einmitt fyrir þá lendingarbót, sem gerð var á bátahöfninni þar. En það er auðsætt, að í þessu máli er það aðalverkefnið að finna einhver ráð til þess að efla fiskiveiðasjóðinn og gera hann aðgengilegri fyrir þennan útveg en verið hefir. Því að jeg er sannfærður um það og samþykkur hv. flm. (SvÓ) um, að það er aðallega það, sem kreppir að bátaútveginum, að hann er orðinn skuldugur og á lítils úrkosta um hagkvæm lán. Það verður að leita einhverra ráða til úrlausnar, en það þarf ekki neina milliþinganefnd til þess. Það er hægt að fá nægar skýrslur um erfiðleika þá, sem útgerðin á við að stríða. Víst er það, að sjávarútgerð öll er illa stödd fjárhagslega nú sem stendur, og þarf því fyrst og fremst að finna einhver ráð til þess að bæta skilyrði hennar til hagkvæmra lána, og get jeg þá ekki sjeð annað ráð heppilegra en að efla þann sjóð, sem helst á að vera þessum atvinnuvegi til styrktar, en það er fiskiveiðasjóðurinn, sem jeg hygg að hafi nú í sjóði eitthvað um 200000 kr. En sjóðurinn allur mun vera eitthvað yfir ½ miljón kr., og mundu vextir af honum nægja nokkuð til áframhaldandi hjálpsemi. En þetta finst mjer alveg eins hægt að framkvæma með aðstoð stjórnarráðsins og þeim upplýsingum, sem Fiskifjelagið getur veitt um þessi efni.

Ýms atriði í ræðu hv. aðalflm. (SvÓ) voru smáskemtileg, og væri ástæða til að fara nokkrum orðum um þau, svo sem mótvægi stórútgerðarinnar, verndun menningar þjóðarinnar samanborið við stórútgerðina, mölina o. fl., en út í það skal ekki farið. Það er alls engin þörf á sjerstakri rannsókn á stórútgerðina, eins og hv. 4. þm. Reykv. (HjV) var að tala um. Menn geta fengið allar upplýsingar um útgerðina hjá þeim mönnum, sem hana reka. Og ef þeir sitja inni með einhvern vísdóm eða eitthvert ráð, ættu þeir heldur að segja það einhverjum útgerðarmanninum og láta gera tilraunir.

Það er altaf akur fyrir slíkar tillögur, sem hjer er um ræða, þegar illa gengur. Þá lifna menn við og vilja gera umbætur, sem eru helst fólgnar í því að skipa nefnd og aftur nefnd. En víst er það, að nefndirnar geta ekki lagfært og komið þar fram umbótum, er einstaklingarnir eru frá gengnir.