23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í D-deild Alþingistíðinda. (3638)

54. mál, milliþinganefnd um hag bátaútvegsins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg hefi sáralitlu við það að bæta, sem stendur í nál. á þskj. 368. Nefndin hefir orðið sammála um að mæla með þessari till., þó með lítilsháttar breytingu. Ástæðurnar fyrir því, að till. þessi er fram borin, eru greinilega teknar fram í greinargerð þeirri, sem till. fylgir. Ennfremur gerði hv. aðalflm. hennar allítarlega grein fyrir almennum ástæðum í þessu máli, þegar till. var hjer til fyrri umr. Hefir nefndin fallist á þær ástæður, og nægir að vísa til þess, sem þá var sagt, að því er snertir málið alment. Nefndinni er ljóst, að af skipun þessarar milliþinganefndar hlýtur að leiða ofurlítinn kostnað. En hún lítur svo á, að í það sje ekki horfandi, ef ske kynni, að starf hennar yrði til hagsbóta fyrir þennan atvinnuveg, sem fjöldi manna í landinu á svo mikið undir.

Nefndin hefir orðið ásátt um að bera fram 2 brtt. við þessa till. Sú fyrri fer fram á, að í stað 5 manna verði aðeins 3 skipaðir í nefndina. Þetta er eingöngu fram borið af sparnaðarástæðum, en hinsvegar lítum við svo á, að ef þessir 3 menn eru vel vaxnir starfi sínu, þá sje þessi tala nefndarmanna nægileg. Þegar finna skal heppilegar lausnir vandamála, er lítið komið undir höfðatölu þeirra, sem þau ráð leggja til. Hjer ætti því starf þriggja manna að bera eins góðan árangur, en sparnaðurinn við fækkunina auðsær. Seinni brtt. er aðeins orðabreyting og þarf ekki frekari skýringar. Jeg skal taka það fram, að einn nefndarmanna (HjV) hefir sjerstöðu að því leyti, að hann vill hafa verksvið milliþinganefndarinnar víðtækara en till. gerir ráð fyrir, og vill hann láta það ná til sjávarútvegsins í heild. Hann flytur brtt. í þessa átt og mun sjálfur gera grein fyrir henni. En um brtt. nefndarinnar er hann samferða og mælir með að þáltill. verði samþ., þó að hans brtt. verði feld.