23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í D-deild Alþingistíðinda. (3642)

54. mál, milliþinganefnd um hag bátaútvegsins

Sveinn Ólafsson:

Það hafa komið fram mótmæli gegn þessari þáltill. á þskj. 74 frá hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), og jeg verð að segja, að mjer kom það næsta mjög á óvart. Að vísu hreyfði þessi sami hv. þm. nokkrum athugasemdum við þetta mál hjer við fyrri umræðu þess, en jeg skildi þær þá svo, að með þeim vildi hann gefa leiðbeiningar fyrir sjútvn. til frekari meðferðar málsins. Nú skilst mjer á honum, að hann leggi eindregið á móti skipun milliþinganefndar þeirrar, sem hjer er lagt til að skipuð verði. Hann hjelt því sem sje fram, að þetta verkefni, sem í till. er ætlað milliþinganefnd, væri hægt að leysa eins vel af hendi af Fiskifjelagi Íslands. Hv. meðflm. minn (ÁÁ) hefir svarað þessu og sýnt ljóslega fram á, að þess verður ekki vænst, að Fiskifjelag Íslands geti unnið að þessu verki svo vel sje. En hinsvegar ætti nefndin með fulltingi fjelagsins að standa vel að vígi að geta komið einhverju gagnlegu til leiðar og hafa góð skilyrði til þess að undirbúa þetta mál sem best fyrir næsta þing.

Af því að engin önnur rödd hefir látið til sín heyra gegn till., ætla jeg, að hún hafi mikil og almenn ítök í hugum hv. þdm. Fyrir þá skuld þarf jeg ekki að gera einstakar aðfinslur hv. 3. þm. Reykv. að umtalsefni. Hjá honum kendi og nokkurs misskilnings. Aðeins 1 töluliður af 5 í till. virtist honum eiga rjett á sjer, sem sje 4. liður: að leitað verði ráða til þess að útvega bátaútveginum ódýrt rekstrarfje með hagkvæmara móti en nú er. Þó mundi vera hægt að leysa það vandamál án nefndar, hjelt hann. Í því sambandi benti hann á það, sem mig furðaði mjög á, að ýmsir opinberir starfsmenn hefðu svo lítið að gera, að þeim væri ekki ofætlun að geta gert tillögur um þetta.

Af því virtist mega ráða, að hann teldi hvern opinberan starfsmann til verksins fallinn og fróðan um alt, sem að útvegi lýtur, eða stjórnina sjerfróða um þau mál. Líklega hefir hún þó verið valin með hliðsjón af öðrum eiginleikum. Og því fanst mjer þetta hjá hv. 3. þm. Reykv. algerlega utan við efnið. Yfirleitt þótti mjer lítið koma til athugasemda hans, og flaug mjer í hug, að hann hefði misskilið hlutverk sitt hjer sem útgerðarmaður, og með því að hann væri íhaldsmaður, teldi hann sjer skylt að toga aftan í hvert framfaramál, að sama skapi sem hann hefir togað aftan í annað mál, sem hjer var rætt á undan, bygging strandferðaskips.

Eitt var það, sem benti átakanlega á, að hann væri ekki fyllilega með á nótunum, sem sje það, að hann átaldi sjútvn. fyrir að hafa knúið fram till. um 8 þús. kr. fjárveitingu til markaðsleitar á Spáni. Jeg hlýt að minna hann á það, að þessi till. fjell og er alls ekki í fjárlagafrv. nú. Till. var heldur ekki bundin við markaðsleit á Spáni, eins og hann sagði, heldur var hún til komin vegna þarfar á markaðsleit yfirleitt, hvar sem tiltækilegt þætti og vegna hvers kyns afurðasölu.

Hv. meðflm. minn (ÁÁ) átaldi það hjá sjútvn., að hún hefir fækkað mönnum í milliþinganefndinni úr 5 niður í 3. Jeg kannast fyllilega við, að það sje rjett, að 5 manna nefnd hafi betri skilyrði til þess að leysa af hendi þetta verkefni með góðum árangri, og að æskilegt væri, að þeir væru jafnvel fleiri. En með tilliti til þess, að vænta má góðrar samvinnu við Fiskifjelag Íslands, og í öðru lagi af því, að meðnefndarmenn mínir lögðu talsverða áherslu á að færa tölu nefndarmanna niður og draga þannig úr væntanlegum kostnaði, vildi jeg ekki etja kappi um þetta, með því líka að jeg get fallist á, að hægt sje að ná fyrirhuguðu takmarki, ef vel tekst um skipun nefndarinnar, þótt talan hafi verið færð niður.

Þá fann hann einnig að því, að sjútvn. hefði bent á vinnutíma fyrir milliþinganefndina og einskorðað hann mjög mikið. Það er rjett, að á þetta er drepið á nál. sjútvn., en ekki er kveðið ríkara að orði en svo, að nefndin búist við, að milliþinganefndin muni geta lokið störfum á 2–3 mánuðum. Slíkt bindur ekki, en má skoðast sem bending til væntanlegrar nefndar að hraða störfum sínum. Einnig þetta var samningsatriði í sjútvn. Varð til samkomulags að vinna nokkuð.

Eftir öllu, sem fram er komið í sjútvn. og hv. deild, þykist jeg mega vænta þess, að málið fái góða afgreiðslu hjeðan úr deildinni og jafnframt góðar undirtektir í hv. Ed. Mjer finst, en það er nú ef til vill af því að jeg er flm., að hjer sje um svo þarft og sjálfsagt mál að ræða, að það væri átakanlegt glapræði, ef ekki yrði frekar að gert í því en komið er. Og að lokum vil jeg taka undir það, sem hv. meðflm. minn sagði, að við verðum að feta, þótt hægt fari, fram á þær nýju leiðir, sem eru að opnast til þess að gera sjávarútveginn arðvænlegri en hann var og er, þær nýju brautir, sem við höfum enn ekki lokið upp augunum fyrir, en framundan liggja og benda til fjölbreyttari hagnýtingar sjávarafurða en tíðkast hefir.