08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í D-deild Alþingistíðinda. (3669)

105. mál, uppbót til starfsmanna ríkisins

Flm. (Magnús Jónsson):

Það hefir orðið að samkomulagi milli okkar flutningsmanna þessarar þáltill. að leggja til, að umr. verði frestað að þessu sinni og málinu vísað til hv. fjhn. Ástæðan til þessa er sú, að við viljum ekki knýja fram atkvgr., hvorki um aðaltill. nje varatill., án þess að málið hafi fyrst verið athugað í nefnd. Vona jeg, að hv. þdm. fallist á það. Við viljum vísa málinu til fjhn. vegna þess, að fleiri slíkum málum hefir verið vísað þangað, en hv. fjvn., sem málið heyrir þó aðallega undir, hefir haft öll skjöl þess og skilríki til athugunar frá þingbyrjun og á þess vegna auðvelt með að láta í ljós álit sitt, þótt málinu sje ekki vísað til hennar.

Það væri gott, ef ekki yrðu miklar umr. um málið nú og ekki fyr en nefnd hefir athugað það. En jeg get fullvissað hv. þdm. um það, að kjör opinberra starfsmanna eru erfið nú. Þau voru erfið s. l. ár, en uppbótin á þó nú að lækka um 34%. Í raun og veru er hjer ekki farið fram á annað en rjetta framkvæmd laganna um dýrtíðaruppbót. Það var í upphafi litið svo á, að uppbótin ætti að reiknast af öllum launum hinna opinberu starfsmanna, eins og hún þá átti að reiknast. En svo var fundið upp á því, að taka mætti nokkrar vörutegundir, sem voru í háu verði, og reikna út uppbótina eftir verði þeirra. Var þetta gert til hægðarauka. En einmitt þessar vörutegundir, sem valdar voru, hafa lækkað mest í verði síðan, og þetta hefir gert það að verkum, að dýrtíðaruppbótin hefir orðið lægri heldur en þingið 1919 ætlaðist til.