13.05.1927
Sameinað þing: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í D-deild Alþingistíðinda. (3695)

52. mál, byggingar- og landnámssjóður

Halldór Stefánsson:

Þessi till., sem hjer liggur fyrir, hnígur, að efni til, nokkuð að því sama og frv., sem jeg flutti í hv. Nd. og afgr. var þaðan með þeim hætti, að því var vísað til stjórnarinnar, til þess að það yrði athugað af væntanlegri milliþinganefnd í landbúnaðarmálum. Tilgangurinn með þessari till. er að mestu sá sami, en munurinn kemur fram aðallega í fyrirkomulagsatriðum.

Fyrsti og aðalmunurinn kemur fram í fyrsta lið till., þar sem eru ákvæði um það, hvernig afla skuli þess fjár, sem væntanlegar framkvæmdir krefjast. Hjer er gert ráð fyrir, að þess sje aflað með ákveðnum skatti, en í frv. var ekki gert ráð fyrir, að tekna yrði aflað á sjerstakan hátt, heldur á sama hátt og annara tekna ríkissjóðs, og þá auðvitað gegnum almenna tolla- og skattalöggjöf.

Jeg hygg, að einmitt þessi munur sje ástæðan til þess, hve misjafnlega þessu máli hefir verið tekið fyr og nú af hálfu þingsins. — Jeg verð nú að líta svo á, að það sje eðlilegast, að tekna, sem verja á til útgjalda ríkissjóðs, sje jafnan aflað á einn og sama hátt, með tollum og sköttum.

Eftir því sem hæstv. forsrh. (JÞ) talaði, má álíta, að hann sje á móti frv., vegna þess að þar er ekki gert ráð fyrir sjerstökum tekjuauka. Hann ljet í ljós, að slíkri till. sem þeirri, er hjer liggur fyrir, þyrfti að fylgja sjerstök tekjuáætlun. Að vísu get jeg viðurkent það, að þegar litið er á þarfir ríkissjóðs, eru tekjurnar litlar, miðað við þarfirnar. En þessar 200 þús. kr., sem gert er ráð fyrir í frv., að ríkissjóður leggi árlega í þennan sjóð, nema þó ekki meiru en ca. 2% af tekjum ríkisins öllum, eins og þær hafa verið undanfarin ár. Auk þess má benda á það til samanburðar, að reynslan hefir orðið sú, að tekjurnar hafa að jafnaði farið 20–30% fram úr áætlun. Það er því auðsætt, að ekki þyrfti að spara mikið í fjárlögum til þess að ná þessari upphæð.

Þá er að athuga, hvort útgjöld í þessu skyni eru óþarfari en önnur. — Viðvíkjandi 2. lið till. gat hv. flm. (JJ) þess, að samkvæmt þeim till., sem fyrir liggja í frv., mætti vera, að kjörin væru samt of þung. Í frv. er gert ráð fyrir tvennskonar kjörum, einum fyrir þá, sem vilja reisa nýbýli, og öðrum fyrir þá, sem endurreisa hús á bygðum býlum. Til byggingar nýbýla á ríkissjóður að leggja stofnfje, með lágum vöxtum, sem ekki þarf að leysa inn, nema viðkomandi sjálfur óski þess. Það fer því algerlega eftir sjálfsvali og eigin mati viðkomandi manns á efnahag sínum, hvort hann telur sjer það fært.

Aftur á móti til að endurreisa hús á bygðum býlum er gert ráð fyrir vaxtalágum lánum til 42 ára.

Það má vera, að sumum finnist þetta nú samt of erfiður baggi, en þeim vildi jeg benda á það, að allur fjöldinn af búendum þessa lands verður að byggja upp býli sín án nokkurra slíkra vildarkjara, sem hjer eru boðin.

Á 2. lið till. og frv. er því enginn höfuðmunur, nema hvað flm. till. fanst ekki ákvæði frv. nógu hagkvæm. Þetta getur verið álitamál. Jeg fyrir mitt leyti tel þetta mjög sæmileg kjör, en vitanlega væri það gott, ef hægt væri að hafa þau betri.

Um 3. lið till. skal jeg taka það fram, að þar er enginn höfuðmunur í samanburði við frv. Bæði till. og frv. gera ráð fyrir nógu framboði af landi til ræktunar, og að ekki muni þurfa að taka það eignarnámi. Ennfremur er bæði í till. og frv. ætlast til að setja skorður við óeðlilegri verðhækkun, í till. með fasteignamati, en í frv. með mati skattanefndar. Fasteignamat fer fram aðeins tíunda hvert ár, en skattamatið fer fram árlega, og kemur þannig betur fram sú eðlilega verðhækkun, sem stafar af framkvæmdum þeim, sem gerðar hafa verið á býlinu, og eiga þær að sjálfsögðu að fá að njóta sín.

Jeg hefi nú leitast við að rekja og skýra þann mun, sem er á frv. og till., og þó að hann sje nokkur í einstökum fyrirkomulagsatriðum, þá sje jeg ekki annað en að það sje eðlilegt, að einmitt þessi atriði sjeu tekin til athugunar og samanburðar af þeirri nefnd, sem skipa á í þessum málum, og getur nefndin þá valið á milli þeirra leiða, sem bent er á í frv. og í till. Þess vegna get jeg, þó að jeg hafi stungið upp á annari leið en gert er í till., greitt henni atkv. mitt.