31.03.1927
Efri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í D-deild Alþingistíðinda. (3714)

91. mál, störf fiskifulltrúans á Spáni

Jónas Jónsson:

Jeg vil nota tækifærið, meðan þessi gamli kunningi er hjer í deildinni, til þess að fá nánari vitneskju hjá hæstv. ráðh. (MG) um það, hvers vegna kostnaður við þetta embætti hefir farið svo mikið fram úr því, sem gert var ráð fyrir. Það lítur út fyrir, að það muni hjer um bil 10 þús., sem embættið á þessum tíma hefir orðið dýrara en gert var ráð fyrir. Eins og hv. þdm. mun í fersku minni, sannaðist það við meðferð málsins, að stjórnin ætlaði þessum sendimanni sem næst helmingi meira en t. d. ræðismaður Norðmanna í einni helstu borg á Suður-Frakklandi hafði um það leyti. Jeg hafði nú búist við því, að þar sem svona miklu meira fje er varið til þessa sendimanns heldur en sambærilegir menn fá hjá frændþjóð okkar í álíka stöðu, þá væri það bygt á því, að hann færi ferðir til ýmissa landa, þar sem von væri að auka fiskmarkaðinn. En af skýrslum þeim, sem hjer hafa verið gefnar, lítur út fyrir, að hann hafi ekki mikið farið. Hæstv. atvrh. talaði um brjefaskifti við Portúgal, en hann hefir ekki einu sinni farið þangað.

Jeg vildi feginn fá að vita, hvað því veldur, að kostnaður hefir farið svo langt fram úr áætlun, og hvort hæstv. atvrh. búist við, að embættið verði hjer um bil 10 þús. kr. dýrara en áætlað var. — Ennfremur væri mjög fróðlegt að vita, hvernig samninga hæstv. ráðh. (MG) hefir gert við þennan sendimann. Það er ólíklegt, að hann hafi samið til margra ára; en ef svo væri, vona jeg, að hann skýri ástæður fyrir því. En ef þessu skyldi vera þannig varið, að engir samningar standi gagnvart þessum sendimanni, þá vildi jeg gjarnan heyra álit hæstv. ráðh. á því, hvernig færi, ef Alþingi vildi ekki borga meira í þetta embætti en ræðismenn Norðurlandaþjóðanna hafa á sömu stöðum, eða hvort hann hafi gert þær ráðstafanir, að embætti þetta hljóti að verða dýrara en ræðismannaembætti í Suðurlöndum?