31.03.1927
Efri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í D-deild Alþingistíðinda. (3715)

91. mál, störf fiskifulltrúans á Spáni

Fyrirspyrjandi (Ingvar Pálmason):

Jeg get þakkað hæstv. stjórn fyrir svar hennar við fyrirspurn minni. Þó verð jeg að játa, að jeg varð fyrir vonbrigðum. Hæstv. atvrh. (MG) sagðist sem sje ekki geta bent með vissu á neinn árangur af starfi fulltrúans syðra. (Atvrh. MG: Sagði jeg nú það?). Hann sagði, að það væri erfitt. (Atvrh. MG: Já, viðvíkjandi nýjum mörkuðum). Nei, það var fyrra atriðið. Ef hæstv. ráðh. (MG) hefir yfirsjest, er sjálfsagt fyrir hann að bæta úr því. Hann sagðist ekki geta bent á neitt sjerstakt, nema skýrslurnar. Mjer skildist svo, að þessi skýrslugjöf væri mikilvægasta starfið, sem int væri af hendi fyrir þessar 38 þús. kr. En hver er hagurinn af þessum skýrslum? Jeg skal ekki bera á móti því, að í Reykjavík kunni þær að koma að nokkru gagni. En úti um land koma þær ekki að ýkjamiklum notum. Fyrst er það, að þær eru ekki birtar nema í mánaðarriti, sem Fiskifjelag Íslands gefur út. Fregnirnar geta því verið orðnar mánaðargamlar að minsta kosti, er þær birtast, og þar við bætist, að póstur kemur til Austurlands ekki nema á mánaðarfresti, og stundum kannske varla það.

Annað vil jeg líka benda á, til þess að sýna, hve tilgangslausar þessar skýrslur eru. Það er kunnugt, að í Noregi eru gefin út fiskimannarit, þar sem slíkar skýrslur sem þessar eru birtar. Og svo einkennilega vill til, að við Austfirðingar fáum þessi rit fyr en skýrslurnar, sem birtast í íslenska ritinu. Og þeim ber saman við „Ægi“, svo að þær eru okkur oft þarflitlar.

Auk þess veit jeg ekki betur en þessar skýrslur hafi komið áður gegnum danska ræðismanninn á Spáni, og veit ekki nema svo sje enn. Fyrir skýrslurnar, eins og þær koma nú að notum, er ekki gefandi 38 þús. kr. á ári. Það er auðvelt fyrir okkur, sem stundum sjávarútveg úti um land, að panta norsk fiskitímarit. Það kostar ekki stórfje.

Jeg gat ekki betur sjeð af svari hæstv. atvrh. (MG) en að hann viðurkendi, að hinn sýnilegi árangur af starfi erindrekans væri ekki stórvægilegur. Jú, alveg rjett. Hæstv. ráðh. (MG) benti á eitt tilfelli, er þessi embættismaður hefði orðið að svo miklu liði, að hann hefði í einum rykk unnið fyrir öllu þessu kaupi. Hann hefði sem sje jafnað misklíð út af íslensku fiskimati. Jeg veit ekki, hvernig á því getur staðið. Jeg álít, að matið hljóti annaðhvort að vera löglegt eða ekki löglegt og úrskurður þessa manns geti ekki haft neitt gildi, hvorki til nje frá. Hann getur gengið frá samningum, en um matið hefir hans úrskurður ekkert gildi. Við verðum að ganga út frá því, að matið sje jafnan tekið gilt og ekki þurfi með hverri fisksending nein aukavottorð. Það væri að æra óstöðugan að eltast við slíkt. Og því síður höfum við efni á að halda jafndýran mann og Spánarfulltrúann til þess að standa í því stímabraki. Nei, ef gallar eru á matinu, þá verðum við að ráða bót á þeim hjer heima á annan hátt.

Þótt hann hafi leyst af hendi samninga fyrir einhverja fiskseljendur, þá getur það ekki heimfærst undir hans eiginlega starf og ætlunarverk þar syðra. Hann er ekki ræðismaður, heldur fiskifulltrúi, er gæta skal hagsmuna fiskútflytjenda yfirleitt, og það getur verið, að hann hafi gert það. Auk þess var aðaláhersla lögð á það í fyrstu, að þótt hann væri búsettur á Spáni, ætti hann að vinna að fisksölu í öllum Miðjarðarhafslöndunum og útfærslu markaðs þar. En er hæstv. ráðh. (MG) kom að afrekum hans á því sviði, virtist ekki fara betur. Jeg gat ekki skilið orð hæstv. ráðh. á annan veg en svo, að sendimaðurinn hefði ekki ferðast nema um Spán, en komist í sambönd við firmu annarsstaðar með símskeytum og brjefum, en ekki vildi hann fullyrða neitt um árangurinn. Verður ekki annað sjeð en hann hafi verið að mestu aðgerðalaus í þessu efni.

Í þessu sambandi gat hæstv. ráðh. þess, að fleiri menn hefðu verið sendir utan, sjerstaklega í þeim erindum að útvega nýja markaði, og árangur ekki orðið betri af för þeirra. Þeir hafi gefið ýmsar bendingar, en um verulegan árangur sje ekki að ræða. Jeg skal ekki um það dæma. En það er áreiðanlegt, og því verður ekki mótmælt, að Pjetur A. Ólafsson hefir bent á leið, sem er fær, og það er ekki hans sök, þótt menn láti undir höfuð leggjast að notfæra sjer ráðleggingar hans.

En úr því minst er á sendiferðir aðrar en Spánarfulltrúans, vil jeg benda hæstv. stjórn á, að skrif þessa sendimanns á Spáni nú nýlega bera vott um alt annað en það, að honum sje sjerlega gefið um útvegun nýrra markaða utan Spánar. Hann er nú kominn í ritdeilur við annan sendimann út af nýrri markaðsleit. Skrif hans hafa meðal annars ýtt undir mig með að koma fram með þessa fyrirspurn. Í þessum skrifum hans kemur greinilega fram hans hreina trú, að við eigum ekki að vera að braska í að reyna að ná fótfestu um fisksölu í öðrum löndum en Spáni. Undir verndarvæng Spánverja eigum við að hreiðra okkur; þar sje okkur best borgið, og heimska að vera að brölta út úr því hreiðri.

Þegar þess er gætt, að hann var áður spánskur konsúll, er nú búsettur á Spáni og hefir því spánskar „interessur“ fult svo miklar sem íslenskar, þá er mótstaða hans í alla staði óframbærileg, og af manni í hans stöðu óviðeigandi að leggja á móti nýjum mörkuðum fyrir íslenskan saltfisk. Hann hefir ekki til brunns að bera neitt meiri þekking en erindreki sá, er sendur var til Suður-Ameríku og gefið hefir skýrslu um markaðshorfur þar.

Það er viðurkent, að við ýmsa annmarka er að stríða, en lítið verður okkur ágengt, ef við teljum ekki fært að koma fisksölunni í betra horf en nú er. Og sambandi okkar við Spán er svo varið, að ekki er heillavænlegt að eiga undir Spánverjum einum lífsskilyrði sjávarútvegsins. Hafa þeir gerst okkur allnærgöngulir, svo að jeg hjelt, að margir væru þess fyrir þær sakir fýsandi, að við gætum orðið dálítið óháðari Spánverjum en við erum nú um fisksöluna.

Jeg tel rjett að benda á, í framhaldi af áður sögðu, að jafnan hefir hallað á ógæfuhliðina með sölu þar syðra, síðan er fulltrúinn var sendur þangað. Kröfur Spánverja eru að verða banatilræði við íslenskan smábátaútveg. Jeg býst við, að það stafi af kröfum þeirra, að síðastliðið ár var ekki hægt að senda út og selja til Spánar fullþurkaðan þorsk minni en 20 þuml., sem altaf áður hefir gengið, þótt 18 þuml. væri, og eins það, að viss tala var tilsett í skippundið. Við því væri ekki mikið að segja, þótt Spánverjar krefðust þess, að stórfiskur væri flokkaður betur en gert hefir verið. Mundi jafnast upp verðmunurinn. En því er ekki til að dreifa. Því að allur fiskur 18–20 þuml. var því nær óseljanlegur síðastliðið sumar.

Ef nú þessi embættismaður þarna suður á Spáni hefði reynt að semja um þetta atriði og orðið eins vel ágengt og hæstv. atvrh. segir, er deilan reis út af matinu, þá hygg jeg, að hann mundi hafa unnið fyrir einhverju af launum sínum. Ekki var það síður samningsatriði heldur en fiskimatið íslenska. Þeim, sem til þekkja, er það kunnugt, að afli smærri útvegsins er aðallega þorskur af þessari stærð, 18–20 þuml. Með þessu fyrirkomulagi er útilokað, að hann sje í nokkru verði. Það var ekki einu sinni svo vel, að fyrir hann fengist tilsvarandi verð og Labradorfisk, sem þó var lágt. Hve margra tuga þúsunda tjóni þetta hefir valdið, verður ekki tölum talið, en svo mikið er víst, að það er mikið.

Ef hæstv. ráðh. hefði sagt, að fiskifulltrúinn á Spáni hefði ekki getað við spornað, en væri að reyna að kippa þessu í lag og væri von árangurs, hefði hann bent á nokkuð, sem hlustandi væri eftir. Getur verið, að hæstv. ráðh. eigi eftir að benda á þetta, og væri betur. En mjer finst hann hafa með svari sínu til þessa mjög staðfest þann grun útvegsmanna um land alt, að embætti þetta væri óhæfilega dýrt, samanborið við árangur þann, er af því fengist. Það er því fullkomlega rjettmætt íhugunarefni, hvort halda eigi áfram á sömu braut, hvort ekki sje rjett að breyta til, t. d. í það horf, er við minnihlutamenn í Ed. 1924 vildum fá framgengt, sem sje að erindrekinn væri ekki búsettur syðra, heldur sendimaður hjeðan að heiman. Væri happasælla, að við Íslendingar hefðum með daglegri umgengni áhrif á hann, heldur en Spánverjar.

Jeg minnist þess, að 1924, er þetta mál var til umræðu, hjelt jeg því fram á Alþingi, bæði af því, er sagt var og kom fram í umr. á þingi, og því, er jeg varð áskynja í sjútvn. og af viðtali við menn, að aðaláherslan væri á það lögð að stofna fast embætti og að sjerstökum manni væri ætlað það. Það kom fram í heyranda hljóði á þingfundi, og ráðh. neitaði, að nokkuð væri hæft í því, og kvað stöðuna mundu verða auglýsta opinberlega og þeim veitta, er hennar væri verðugastur og best til hæfur. En hvað kom á daginn? Að þessi maður einn kemur til greina við veitingu, fær stöðuna, og fæ jeg ekki betur sjeð en hæstv. atvrh. (MG) hafi með því staðfest það, er jeg hjelt fram þá.

Í Nd. var gerð alvarleg tilraun til þess, að þetta yrði ekki fast embætti, að sama fjárupphæð yrði að vísu veitt, eins og við líka studdum, minnihlutamenn í Ed., en ágreiningur var um það, hvort fulltrúinn skyldi vera búsettur á Spáni og hvort embættið skyldi vera fast. Brtt. kom fram um að slá því föstu, að það skyldi ekki veitt nema til 5 ára. Það var felt; um að gera að gera embættið sem tryggast og feitast, en minni áhersla lögð á árangurinn. Reynslan hefir sýnt, að við minni hl. höfðum rjett fyrir okkur.

Jeg vona, að jeg hafi nú glögglega sýnt fram á, að það, sem hæstv. atvrh. benti á sem árangur af starfi fiskifulltrúans, er nauða lítils virði, nema ef vera skyldi þetta um samningana, sem hæstv. ráðh. segir að hann hafi komið á milli seljanda og kaupanda út af mati. Jeg skal ekki neita því, að svo kunni að hafa verið; jeg þekki ekki til þess. En jeg slæ því föstu, að einhver ráð verðum við að hafa til þess að tryggja okkar mat, önnur heldur en það, að halda dýran mann þar syðra, þó að mikið af fiskinum fari til Spánar. Það er mikið í húfi að hafa ekki matið í því horfi, að því sje fullkomlega treyst. Ef það uppfyllir þau skilyrði, sem sett eru fyrir mati og meðferð allri að lögum hjer heima, eigum við ekki að líða neinum kaupanda að vefengja það. (Atvrh. MG: Megum við ekki líða það?). Nei, alls ekki líða það. Matið verður að standa; það má ekki vefengja. Ef kaupandi gefur ekkert fyrir matið, er það tilgangslaust og einskisvirði.

Jeg get nú látið hjer við sitja að sinni. Má vel vera, að hæstv. atvrh. eigi enn eftir eitthvað í fórum sínum af afreksverkum þessa embættismanns þar syðra. Ef svo skyldi vera, er það miður heppilegt að hafa geymt að draga þau fram í dagsins ljós, því að það hefir þá valdið misskilningi. Yfirleitt tel jeg varhugavert að taka vetlingatökum á þessu máli. Það er töluvert mikið í húfi, að embættisrekstur, annar eins og þessi, fari vel úr hendi.

Eitt tel jeg nauðsynlegt í þessu efni, og það er það, að þjóðin geti átt kost á að heyra og sjá viðkomanda sjálfan. Hún á svo mikið undir honum, að hún getur ekki sætt sig við að fá aðeins óljósar fregnir um afrek hans eða afglöp. Undir öllum kringumstæðum er tryggara, að umboðsmenska sje rekin af fullum áhuga, og það má ekki eiga sjer stað, að framkoma erindrekans gefi tilefni til þess að vefengja, að unt sje að afla fiskmarkaða utan Spánar sem víðast, og fisksalan dragist frá Spáni að einhverju leyti, en festist ekki öll þar.

En það er ástæða til að halda, út af skrifum þessa manns nú nýverið, að hann óski eftir, að við sjeum og verðum sem háðastir Spánverjum um fiskmarkaðinn.