31.03.1927
Efri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í D-deild Alþingistíðinda. (3717)

91. mál, störf fiskifulltrúans á Spáni

Magnús Kristjánsson:

Jeg áleit, að umræðurnar um þessa fyrirspurn mundu aðallega verða milli hv. fyrirspyrjanda og hæstv. atvrh. En úr því fleiri hafa fundið hvöt hjá sjer til að taka til máls, vildi jeg líka mega leggja orð í belg.

Jeg skal strax taka það fram, að jeg tel ekki ástæðu til að fárast mjög um kostnaðinn, sem þetta starf hefir í för með sjer. Frá mínu sjónarmiði er sá kostnaður, sem ríkið innir af hendi til þess að efla markað úti um heim fyrir íslenskar vörur, hverfandi lítill, jafnvel smánarlega lítill. En hinsvegar álít jeg, að vel megi til sanns vegar færa, að erfitt sje að gera sjer grein fyrir árangrinum af starfi þess fulltrúa, sem hjer hefir verið rætt um. Við því er heldur tæplega að búast. Jeg held, að menn hafi ekki enn gert sjer ljóst, á hvern hátt þarf að vinna að útbreiðslu markaðs. Jeg álít hjer um bil tilgangslaust að senda menn snöggva ferð, menn sem þjóta með hraðlestum borg úr borg, bjóða mönnum í veislur og þessháttar. Hinsvegar held jeg, að okkur væri mikil þörf á að hafa einskonar trúboða — ef svo mætti að orði komast — hjer og þar, menn sem hefðu góða þekkingu hver í sinni grein og líklegir væru til þess að starfa með árangri. Jeg álít kannske einna minsta nauðsyn á að hafa fast embætti á Spáni. Ekki þó svo að skilja, að jeg leggi til, að þetta starf sje lagt niður, heldur breytt í það horf, sem að meira gagni mætti verða. Því er nú svo varið með útflutning og sölu þessarar vöru, að meginhlutinn er seldur hjer á landi. Þess vegna held jeg, að sú starfsemi þessa fulltrúa, að vera sáttasemjari á Spáni, sje þýðingarlítill, því að jeg held, að til slíks þurfi sjaldan að taka.

Eins og tekið hefir verið fram, er síst þörf fyrir fiskifulltrúa á Spáni. Aftur á móti er miklu meiri þörf fyrir hann á Ítalíu og í Portúgal, að jeg ekki tali um í Suður-Ameríku, því að þar er mikið verkefni fyrir slíkan mann. Viðskifti okkar á Spáni eru þegar komin í það horf, að þeirra vegna þurfum við síður fulltrúa þar. Kaupin eru oftast gerð hjer á landi, áður en vörurnar eru sendar hjeðan. En væri um það að ræða að bæta fiskmarkaðinn á Spáni, þá væri það helst með því, að þessi fulltrúi ræki þar nokkurskonar heildsölustarf, kæmi á þar í landi viðskiftum við þá menn, sem einhverra orsaka vegna kynnu að vera óánægðir með að skifta við þá, sem hingað til hafa keypt fiskinn af okkur. Þannig lagaðri starfsemi þyrfti að koma á fót sem fyrst, því að hún gæti haft bætandi áhrif á markaðinn. Hitt, að setja mann á Spáni, einungis til þess að ræða við þá fiskikaupmenn, sem þar eru fyrir, hefir að minni hyggju litla þýðingu. Með þessu er jeg alls ekki að gera lítið úr fiskifulltrúa þeim, sem nú er á Spáni, að hann sje ekki starfinu vaxinn, heldur hitt, að lítill árangur hafi orðið af starfi hans, vegna þess að starfssvið hans hafi ekki verið rjettilega ákveðið í upphafi. Við þurfum að hafa verslunarfulltrúa erlendis, sem hafa þá aðstöðu, að geta stofnað nokkurskonar miðstöð á þeim stöðum, sem líkur eru fyrir, að markaður geti myndast. Þessa útbreiðslustarfsemi þyrftum við að hafa fyrir fleiri vörutegundir en þorskinn, og má þar t. d. nefna síldina o. fl.

Jeg ætla ekki að fara langt út í að ræða um fiskimatið og fiskimatslögin. Það er alls ekki af því, að fiskimatið sje ekki nógu gott, að óánægja hefir orðið um það, heldur stafar hún af því, að stundum hefir um of verið tekið tillit til ýmsra tilmæla, sem komið hafa frá ýmsum kaupendum um margskonar breytingar, sem ekki hafa reynst heppilegar, þegar frá leið. En matið á að framkvæma eftir föstum, ófrávíkjanlegum reglum; að innleiða slíkt hringl, sem verið hefir, getur verið stórhættulegt. Annars skal jeg ekki fara frekar inn á þetta nú, því að það liggur ekki fyrir.

Hvað snertir kostnaðinn við erindreksturinn á Spáni, skal jeg taka það fram, að mjer blöskrar hann ekkert, enda þótt hann fari dálítið fram úr þeim 10 þús., sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum; það kemur okkur ekki á vonarvöl. Hitt er meira vert, að breidd sje út þekking á vörum okkar. Það má segja, að það sje nærri því hlægilegt að veita einar 5 þús. kr. til markaðsleitar erlendis, auk kostnaðarins við Spánarfulltrúann, eins og gert hefir verið að undanförnu, þar sem okkur vantar svo að segja markað fyrir nær því allar framleiðsluvörur okkar. Það hefir dálítið verið rætt um það undanfarið að bæta síldarmarkaðinn, og má þar til nefna tillögur, sem fiskiþingið sendi til fjárveitinganefndar neðri deildar. En þær fengu þar heldur kaldar viðtökur, en slíkar undirtektir tel jeg merki þess, að hlutaðeigendur misskilji sitt rjetta hlutverk. Annars skil jeg ekki, hvernig stendur á því, að þeir menn, sem hafa aðstöðu til að bæta úr þessu, skuli skella við því skolleyrunum, og það því fremur, sem hjer á í hlut sá atvinnuvegur, sem á við hvað mesta erfiðleika að stríða og ber hærri tolla en hann með góðu móti getur undir risið, og það jafnt, hvort .sem hann gengur vel eða illa. Mjer fyndist því sjálfsagt að gera eitthvað til þess að efla síldarsöluna, og það mundi áreiðanlega vera búhnykkur, því að ekki þyrfti að seljast meira en svo sem 10 þús. tunnur vegna aukins markaðs, til þess að greiða kostnaðinn að fullu. Skal jeg svo ekki fara frekar út í þetta nú, en jeg get ekki sjeð, að ótímabært sje að minnast á þetta hjer, úr því að rætt er um störf verslunarerindreka. Og að endingu skal jeg taka það fram, að jeg er viss um, að það fje, sem veitt yrði í þessum tilgangi, mundi bera margfaldan ávöxt, og það verður mönnum að vera ljóst, að ef þeir vilja uppskera mikið, þá verða þeir líka að sá einhverju. Eins er um það fje, sem lagt er fram til þess að bæta markaðinn fyrir framleiðsluvörur okkar; það kemur margfalt aftur. Get jeg því ekki annað en hneykslast á þessari 5 þús. kr. fjárveitingu, sem stendur í fjárlögunum í þessu skyni.