31.03.1927
Efri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í D-deild Alþingistíðinda. (3719)

91. mál, störf fiskifulltrúans á Spáni

Fyrirspyrjandi (Ingvar Pálmason):

Það gleður mig, að nú virðist svo, sem við hv. þm. Vestm. (JJós) sjeum að færast saman í þessu máli. Við höfum þá aðstöðu atvinnulega, að þetta er líka mjög eðlilegt. Jeg þarf ekki heldur miklu að svara af því, sem sá hv. þm. sagði. — Nú viðurkendi hann, að það væri mjög gott, að fiskifulltrúinn kæmi til Íslands við og við. Jeg hefi frá upphafi bent á, að hann mætti ekki sitja eins og assa suður á Spáni, og lagt áherslu á, að hann kæmi hjer öðru hverju til að kynna sjer, hversu hjer væri högum háttað, og til þess að gefa mönnum kost á að fylgjast með á Spáni. En sje hann altaf kyr á Spáni, er hætt við, að spánskar „interessur“ eða hagsmunir verði fullofarlega hjá honum. — En þótt við hv. þm. Vestm. höfum nú nálgast þetta, ber þó enn margt á milli. Hann sagði, að eðlilegt væri, að ekki tækist að benda á stór stökk, sem leitt hefði af starfsemi fulltrúans. Hitt væri áreiðanlegt, að hann hefði mikið liðkað til um ýms ágreiningsatriði milli manna hjer og á Spáni. Jeg ber nú enganveginn á móti þessu, en álít það vera algert aukaatriði. Hitt er aðalatriðið, að gera markaðinn betri og tryggari.

Þá sagði hv. þm. Vestm., að við hefðum engan rjett til að ásaka fulltrúann fyrir það, sem aflaga færi, ef hlutaðeigendur hefðu ekki snúið sjer til hans um þessar misfellur. Mjer finst nú, að við verðum að gera þær kröfur til fulltrúans, að hann fylgist með, hvers virði það er fyrir sjávarútveginn, er Spánverjar gerbreyta alveg skilyrðunum fyrir sölu fiskjar, eins og í fyrra. Jeg álít það því beint nauðsyn, að fulltrúinn komi heim við og við, ef Íslendingar eiga að hafa not af honum. Hitt er mjer ekki kunnugt — og kemur ekki til hugar — að hann hafi neitað nokkrum manni um aðstoð, sem til hans hefir leitað, og vera má, að hann hafi með ráðleggingum unnið einhverjum fiskútflytjendum gagn. En það er líka hið eina gagn, sem hann hefir gert, ef marka má svar hæstv. atvrh.

Síðan kom hv. þm. Vestm. að því, að jeg gerði lítið úr fiskmarkaðinum á Spáni. Þetta er nú ekki alveg rjett með farið, en hitt er mjer fullkomlega ljóst, að við erum á rangri leið, ef við bindum okkur eingöngu við markaðinn á Spáni, og það er óheillavænlegt, ef fiskifulltrúinn gerir það líka. (JJós: Var ekki upplýst, að hann hefði útvegað markaði á Ítalíu og Portúgal?). Eitthvað var verið að tala um það, að með símskeytum hefði hann komist í samband við kaupmenn á þeim slóðum, en það var víst mjög lítið, og enginn markaður opnaður. — En í sambandi við Spán vil jeg geta þess, að markaðurinn þar er orðinn svo erfiður á ýmsan hátt, að óhugsandi er, að íslenskur útvegur þrífist, ef hann á ekki annað athvarf með markað fyrir fiskinn. Við verðum að athuga, að við Íslendingar framleiðum einungis matvöru, og hingað til höfum við selt hana aðeins í söltuðu ástandi. En söltuð vara, hvort heldur er kjöt eða fiskur, getur aldrei talist til 1. flokks. Eftir því sem kröfurnar um nýmeti aukast í heiminum, verðum við að beygja okkur fyrir þeim. Kjötútflytjendur hafa fengið augun opin fyrir þessu. Sama verða fiskútflytjendur að gera. Annars hlýtur að reka að því, að útvegurinn getur ekki borið sig vegna samkepni. Við verðum þá að kannast við, að það er misskilningur, hve mjög við bindum okkur við Spán. Markaðurinn þar er orðinn úreltur fyrir Íslendinga. Við verðum að koma markaðinum þaðan, ekki aðeins vegna þeirra taka, sem Spánverjar nú hafa á okkur og löggjöf okkar, heldur sakir þess, að það er eina ráðið til að fá sæmilegt verð fyrir fiskinn. Við megum ekki stara blint á Spán, eins og hv. þm. Vestm. virðist gera.

Jeg held, að það sje mjög vanráðið, meðan við höfum ekki nema einn fiskifulltrúa erlendis, að hann vinnur ekki að því meira en hann gerir að útbreiða markaðinn fyrir utan Spán. Enda kom það greinilega fram hjá hv. þm. Vestm., að hann er mjög óánægður með, að fulltrúinn ferðast ekki um. Er jeg honum þakklátur fyrir, að hann ætlast til þess af hæstv. landsstjórn, að hún breyti til um þetta. Það sýnir, að þessum hv. þm. er það ljóst, að fleira þarf að gera en að hafa dýran embættismann á Spáni.

Hv. þm. hneykslaðist mjög á því, að jeg taldi hætt við, að fulltrúinn hefði augun eins mikið á hagsmunum Spánverja og Íslendinga. Jeg hefi bent á, að hættan liggur í því, að hann situr altaf á Spáni, kemur aldrei heim og kynnist þannig betur spönskum en íslenskum hagsmunum. Þá virðist mjög eðlilegt, að svo geti farið, að hann fari að horfa meira á það, hvað Spánverjum kemur vel, en Íslendingum.

Hv. þm. sagði, að það væri æskilegt, ef fjárhagurinn leyfði okkur að hafa fleiri sendimenn erlendis. Jeg er þessu öldungis sammála, en því litla fje, sem við höfum yfir að ráða til þessara hluta, þarf að verja rjettilega. Mjer líst þunglega á, að við getum fjölgað þeim mikið í fyrirsjáanlegri framtíð, ef hver þarf að kosta eins mikið og þessi og eftirtekjan verður ekki meiri. Hitt verðum við að gera okkur ljóst, að ástandið hjá íslenska sjávarútveginum er orðið þannig, að það þolir enga bið, að bót sje ráðin á því. Því verður að nota þetta fje, sem við höfum yfir að ráða, sem allra best.

Jeg vona, að þessi fyrirspurn og till. okkar hv. þm. Vestm. beri þann árangur, að hæstv. landsstjórn — hvort sem hún situr nú lengur eða skemur — geri ráðstafanir til þess, að fulltrúinn sitji ekki eins og assa á Spáni, heldur vinni að því að útvega nýja markaði. (Atvrh. MG: Ekki á Spáni!!!). Nei, alls ekki á Spáni; þar má kallast „fullnumið land“ í því efni.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um ræðu hv. þm. Vestm.

Hv. 4. landsk. (MK) sagði, að ekki mætti fárast út af þeim fjárupphæðum, sem fari í markaðsleitir. Það er svo langt frá því, að mjer vaxi í augum fjárhæðin; jeg vil heldur auka hana en minka. En hún er þó svo há, að sanngjarnt má teljast að fá eitthvað í aðra hönd fyrir hana.

Jeg þarf ekki að gera aths. við margt í ræðu hæstv. atvrh. (MG). Jeg hafði búist við fleiri skýrslum um afrek fulltrúans heldur en komu í ljós. Að vísu gaf hæstv. ráðh. í skyn, að uppi í stjórnarráðshúsi lægju einhverjar mikilsverðar skýrslur, en efni þeirra kæmi mjer og þessháttar fólki lítið við. Jeg get nú ekki dæmt um árangurinn af starfi fulltrúans eftir þeim skýrslum, sem jeg fæ ekki að sjá og veit ekki, hvers efnis eru. Það má nú vera, að ekki sje hentugt að birta þessar skýrslur opinberlega, en hæstv. atvrh. ætti þó að mega upplýsa þingheim um aðalefni þeirra, eða a. m. k. hvers eðlis þær eru og hvers virði. Annars neyðist jeg fyrir mitt leyti til að álíta, að þær sjeu lítils virði.

Hæstv. atvrh. upplýsti, að laun fulltrúans hefðu verið ákveðin í sterlingspundum. Þetta var víst öllum ókunnugt áður, því að ekki er gert ráð fyrir því í lögunum. Og það sjá allir, að sjeu launin ákveðin í sterlingspundum, er aldrei hægt að segja fyrirfram, hve mikil þau eru í íslenskum krónum; það fer alveg eftir genginu á hverjum tíma. Þó að hæstv. ráðh. (MG) hafi upplýst, að nú samsvari launin nálægt 30 þús. á ári, þá erum við þarna komnir á hála braut, því að enginn veit, hve lengi gengið stendur í stað. Það má teljast ávinningur af fyrirspurninni, að þetta hefir komið fyrir dagsins ljós. Jeg skal ekki leggja dóm á ráðstöfunina, en jeg tel hana þó mjög hæpna.

Það gladdi mig, að hæstv. ráðh. sagðist hafa tekið svo mikið tillit til krafna þeirra, er fram komu í hv. Nd. 1924, að hann hefði ekki ráðið fulltrúann til lengri tíma en 5 ára. Þetta hefir hæstv. ráðh. leyst sæmilega vel af hendi. (Atvrh. MG: Sei, sei!). En það er líka það eina, sem talist getur vel af hendi leyst í þessu máli.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri eðlilegt, að skýrslurnar væru birtar á annan hátt en jeg gat um, þegar enginn óskaði þess. En það er nú dálítið erfitt fyrir okkur, sem á útkjálkum búum, að þurfa altaf að snúa okkur til stjórnarráðsins og biðja um að fá nú að vita þetta og nú hitt o. s. frv. Ef skýrslumar eiga að birtast á annað borð, þarf að birta þær þannig, að það komi að notum. Þótt hæstv. ráðh. tæki því fjarri að síma út skýrslurnar, finst mjer það vel geta komið til athugunar. Auðvitað ætti ekki að síma þær til mín eða annara einstakra útgerðarmanna úti um landið, heldur t. d. til erindreka Fiskifjelagsins, og til þeirra gætu svo útgerðarmenn snúið sjer. Mjer finst það einfalt mál, sem hver stjórn á að geta sjeð, að skýrslurnar verða að birtast svo tímanlega, að þær sjeu ekki orðnar 6–8 vikna, þegar þær berast til þeirra, sem eiga að nota þær.

Jeg vona, að nú hafi jeg gert skyldu mína um að benda hæstv. stjórn á, hvernig hún getur birt skýrslumar öðruvísi en í „Ægi“.

Hæstv. atvrh. taldi það ofur eðlilegt, að ekki væri hægt að benda á mikinn beinan árangur af starfi fulltrúans, og tók þar þingmenn til samanburðar Jeg verð nú að segja, að ætti almenningur eins greiðan aðgang að því að kynnast starfi þessa fulltrúa eins og starfi þingmanna, þá væri ekki ástæða til að kvarta.

Hæstv. ráðh. sagði, að mjer hefði þótt undarlegt, að fulltrúinn hefði getað jafnað ýms ágreiningsatriði milli manna hjer og á Spáni. Jeg furðaði mig aldrei á þessu, heldur hinu, að hann gæti skorið úr, hvort fiskimat hjer væri gilt eða ekki. (Atvrh. MG: Það hefi jeg aldrei sagt). Þar hjelt jeg að matið yrði að skera úr. (Atvrh. MG: Hvers vegna er hv. þm. að bera á móti því, sem jeg hefi aldrei sagt?). Jeg er alls ekki að því. Þá sagði hæstv. ráðh. að ástandið á Spáni væri slæmt; kaupmenn fyndu upp á hinu og þessu til að gera söluna ógilda. Það getur verið, að svo sje, en mjer virðist, að við höfum þá okkur til varnar fiskimatið hjer heima og afgerða samninga. Jeg sje ekki, að hjer sje fyrir hendi sú hætta, sem hæstv. ráðh. vildi vera láta, ef matið er í lagi.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann gæti ekki sjeð, að ritdeilur Pjeturs Ólafssonar og fiskifulltrúans kæmu þessu máli við. Þar er jeg á alt öðru máli en hæstv. ráðh. Fulltrúinn heldur því fram, að fiskimarkaður vor sje og eigi að vera á Spáni, en jeg lít svo á, að okkur sje það lífsnauðsyn að útvega okkur markað utan Spánar, ekki einungis fyrir saltfisk, heldur og fyrir nýjan fisk. Jeg lít því svo á, að þessi ritdeila, sem fiskifulltrúinn á Spáni hefir átt í, komi mikið málinu við, því að hún sýni, að hann er ekki svo víðsýnn, að hann hafi hug á því, að leitað sje nýrra markaða fyrir fiskiafurðir landsins, og tel jeg það illa farið um mann í hans stöðu og að hann þess vegna sje ólíklegur til að vinna því máli gagn. Hæstv. ráðh. spurði, hvernig jeg hjeldi að fara mundi, ef Spánarmarkaðurinn legðist niður. Jeg get sagt hæstv. ráðh. það, að jeg þrái ekkert frekar í þessu máli en að við Íslendingar þyrftum ekkert að flytja út af fiski til Spánar. Svo ósanngjarnar hafa kröfur Spánverja verið um viðskifti okkar við þá, eins og hv. þm. Vestm. einnig játaði. Eins og nú standa sakir, er nauðsynlegt fyrir okkur að halda markaðinum á Spáni öruggum, en við eigum og hljótum að vinna að því öllum árum að fá markað fyrir fiskinn annarsstaðar en á Spáni; fyr er þetta mikilsverða mál ekki komið í gott horf. En þetta verður ekki gert fyr en við fáum atvrh., sem skilur nauðsyn málsins og fylgir því fram með festu og áhuga.

Hæstv. ráðh. mintist á það, að jeg hefði drepið á það, að ákveðnum manni hefði fyrirfram verið ætluð þessi fulltrúastaða á Spáni. Það er rjett, og jeg verð að játa, að jeg hefi enn þá ekki fengið neinar þær upplýsingar, er breytt hafi skoðun minni í því efni. Hann, hæstv. ráðh., gat þess, að staðan hefði verið auglýst, eins og venja er um aðrar opinberar stöður, og hann spurði mig, hvort jeg vissi nokkuð um það, hverjir hefðu sótt um hana. Nei, jeg veit það ekki, enda er jeg ekki með nefið niðri í öllu því, sem gerist í stjórnarráðinu. En hæstv. ráðh. nefndi annan mann, Þórarin Þórarinsson, og spurði mig, hvort jeg hefði heldur viljað, að hann hefði fengið stöðuna. Jeg geri ekki ráð fyrir, að verra hefði verið, þó annar hefði fengið stöðuna en sá, sem nú er í henni, og jeg geri einnig ráð fyrir því, að Þórarinn hefði ekki komist lengra en núverandi fulltrúi í því að gera ekki neitt.

Þá klykti hæstv. ráðh. út með því að lýsa yfir, að hann væri mótfallinn því, að markaðurinn á Spáni minkaði. En jeg óska honum þess — og óska þess af einlægni — að hann megi bera gæfu til þess að breyta þessari skoðun sinni, því jeg tel það sama og dauðadóm yfir íslenskum sjávarútvegi, ef æðstu menn atvinnumálanna hafa þá skoðun, að íslenskur fiskimarkaður á Spáni megi ekki minka. Jeg held, að hæstv. ráðh. verði ekki meiri greiði gerður en að honum verði óskað þess af heilum hug, að sjóndeildarhringur hans megi víkka í þessu efni. Og þess óska jeg einlæglega.