31.03.1927
Efri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í D-deild Alþingistíðinda. (3721)

91. mál, störf fiskifulltrúans á Spáni

Fyrirspyrjandi (Ingvar Pálmason):

Jeg vildi aðeins mega segja nokkur orð út af þeim orðum hæstv. ráðh., er hann sagði, að jeg gerði sjer upp orð, sem hann hann hefði aldrei sagt. Jeg sagði aðeins, að hæstv. ráðh. hefði lýst yfir því, að hann væri mótfallinn því, að markaður vor á Spáni minkaði. Þessi orð mælti hæstv. ráðh., og þýðir ekkert fyrir hann að mótmæla því, því jeg ritaði þau niður hjá mjer um leið og þau fjellu.

Hæstv. ráðh. sagði, að við hefðum hingað til grætt á því, að laun fulltrúans á Spáni hafa verið greidd í pundum. Jeg hefi hjer fyrir mjer landsreikningana, og af þeim er dálítið annað að sjá. Þar stendur það skýrum stöfum að laun fulltrúans hafi árið 1925 verið að 1/3 12600 kr., í stað 10 þús. kr., vitanlega, eftir því sem hæstv. atvrh. upplýsti, vegna gengismismunar. Og þó að launin hafi ekki orðið meiri en 7300 kr. árið 1926, sem þau hafa þó vitanlega orðið, þá sje jeg ekki, að það geri mikið meira en vinna upp mismuninn 1925, svo að lítið verður þá úr gróðanum, sem hæstv. ráðh. talaði um.

Hæstv. ráðh. vísaði mjer til Fiskifjelags Íslands um skýrslur fulltrúans og sagði, að því bæri að birta þær umboðsmönnum sínum. Það má vel vera að svo hafi um samist með stjórn Fiskifjelagsins og hæstv. landsstjórn. en mjer finst ekki fje það, sem Fiskifjelagið fær úr ríkissjóði, svo ríflega úti látið, að þess vegna hafi þurft að ákveða, að það tæki að sjer framkvæmdir, sem ríkisstjórninni sem slíkri eðlilega ber að hafa með höndum.