07.04.1927
Efri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í D-deild Alþingistíðinda. (3736)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg sje ekki, að jeg þurfi að segja nema fá orð til andsvara, en einkum vil jeg leiðrjetta þann misskilning hjá hv. 2. þm. S.-M. (IP), að þessi staða hafi verið lögð niður. Það hefir alls ekki verið gert, heldur hefir maður verið settur í hana um óákveðinn tíma. Það er ekki ótítt, að menn gegni tveim embættum í einu, enda er það aldrei svo, að ekki sjeu nokkur embætti í landinu, sem menn gegna auk sinna eiginlegu starfa, en fyrir það dettur engum í hug, að þau embætti sjeu lögð niður. Eða heldur hv. 2. þm. S.-M. t. d., að fræðslumálastjóraembættið hafi verið lagt niður, þótt sá maður, sem öðru embætti gegnir, hafi verið settur til að þjóna því? Eins og hv. 2. þm. S.-M. veit, er það algengt, að t. d. læknar gegni um tíma því hjeraði, sem næst er þeirra eigin hjeraði, enda þótt svo sje ákveðið, að læknir skuli búsettur innan þess hjeraðs, sem hann gegnir.

Hv. þm. sagði, að rjettara væri að breyta lögunum. Hann um það, hvort hann vill flytja frv. þess efnis. Jeg vil aðeins benda hv. þm. á, að engin ákvörðun hefir verið tekin af hálfu stjórnarinnar um það, hvort þetta síldarmatsmannsembætti verður lagt niður eða ekki. En þegar ekkert hefir verið að gera þarna í 10 ár, var sjálfsagt að veita ekki öðrum manni stöðuna strax. Það segir sig sjálft, að lítill búhnykkur er að því að hafa mann til þess að meta síldina, þegar það kostar verð síldarinnar að meta hana. Fari svo, að síldveiðin aukist þar austur frá, verður málið að sjálfsögðu tekið upp aftur, og þá býst jeg við, að væri heppilegra fyrir hv. þm. (IP) að vera ekki búinn að breyta lögunum.

Ummælum hv. þm. um, að jeg hafi ekki heimild til að leggja niður stöðuna, þarf jeg ekki að svara. Hv. þm. áleit, að matsmaðurinn gæti ferðast um vikulega, en það er misskilningur, þegar þess er gætt, að hv. þm. upplýsti, að síld væri söltuð svo að segja á hverjum bæ. Orð hv. þm. um, að stjórnin hafi virt að vettugi lögin, hafa við ekkert að styðjast. Hv. þm. hótaði að fara aðra leið en fyrirspurnarleiðina, til þess að ná rjetti sínum. Hann má fara hvaða leið sem hann vill. Jeg skal altaf óhræddur verja það, hvar sem er, að jeg hefi sett mann til að meta nokkur hundruð tunnur af síld.