06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í D-deild Alþingistíðinda. (3738)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. fyrirspyrjandi er altaf að tala um, að jeg hafi brotið lögin. Jeg skora þá á hann að kæra mig fyrir landsdómi. Hann segir, að síldarmatsmenn sjeu fyrirskipaðir 4, en sjeu ekki nema 3. Vill hann þá ekki kæra mig fyrir að hafa sett fræðslumálastjóra og fyrir að hafa ekki sett neinn í embætti Bjarna heitins frá Vogi? Og vill ekki hv. þm. yfirleitt kæra mig fyrir allan þann sparnað á embættiskostnaði, sem jeg hefi verið valdur að?

Það er eins og hv. þm. haldi, að yfirsíldarmatsmennimir meti alla síld og líti á hverja tunnu. Jeg skil ekki, að hv. þm. sje svo fáfróður. Hann hlýtur að vita, að undirmatsmennirnir meta hjer um bil alla síld. Hvernig heldur hann t. d., að yfirsíldarmatsmaðurinn á Seyðisfirði geti gefið vottorð um síld, sem veidd er á Eyrarbakka, sem þó er í hans umdæmi? (IP: Hverjir gefa þá vottorðin?) Það gera undirmatsmennirnir í umboði yfirmatsmannanna, og ætti hv. þm. að vita þetta.

Hv. þm. áleit, að ferðakostnaðurinn næmi laununum. Eitthvað er þá ferðast, þó að engin síld sje metin!! Eða heldur hv. þm., að yfirmatsmaðurinn á Akureyri taki peninga fyrir, þó að hann komi ekki á staðinn? Annars get jeg upplýst, að ferðakostnaðurinn í þessu umdæmi var lítill síðastl. ár.

Jeg finn enga ástæðu til að tala meira um þetta mál að svo stöddu. Það verður að bíða, þangað til hv. þm. flytur þáltill. sína.