06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í D-deild Alþingistíðinda. (3740)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ef hv. 4. landsk. (MK) hefði heyrt hvað jeg sagði, þá hefði hann vitað, að það er ekki meiningin að leggja starfið niður, og hv. þm. (MK) veit líka vel, að það mál, sem var hjer til meðferðar á þinginu fyrir nokkrum árum, var um það, að leggja starfið niður. Hjer er um ekkert annað að ræða en að leggja starfið niður um tíma og bíða og sjá, hvort síldveiðin við Austurland eykst, og verð jeg að segja það, út af orðum hv. þm. (MK) um matið, að jeg veit, að það hefir oft ekki þótt gott, þótt frá þeim stöðum væri, þar sem yfirmatsmaður hefir verið búsettur, og eftir því sem yfirmatsmaðurinn á Akureyri hefir sagt mjer, þá voru skipaðir matsmenn á öllum útflutningsstöðum, sem áður höfðu verið, nema á Vopnafirði. Þar veiddust einar 15 tunnur, og þær mat yfirsíldarmatsmaðurinn sjálfur. Á einum stað varð þó að skifta um matsmenn, af því að sá maður, sem áður hafði verið, gat ekki verið það lengur. Jeg get ekki sjeð, hvað við það er að athuga, þótt reynt sje að spara þessi yfirmatsmannslaun, á meðan útflutningurinn er ekki meiri en verið hefir. Jeg skal fúslega viðurkenna það, að síðastliðið ár var útflutningurinn miklu meiri heldur en hvert af átta árunum á undan, og meira að segja meiri en öll hin árin samtals, en jeg vil aðeins sjá, hvort þessu heldur áfram.