06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í D-deild Alþingistíðinda. (3746)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er eins og það sje erfitt að koma því inn í höfuðið á hv. 5. landsk. (JBald), að það sje annað að setja mann til að gegna einhverju starfi og að leggja það niður, en hv. þm. (JBald) veit það vel, að það er algengt, að menn sjeu settir til að gegna embættum jafnframt sínu, og það er það, sem gert er hjer. Og jeg mun hvergi standa bleikur nje rauður fyrir það, að hafa reynt að spara fje á þennan hátt, nje heldur með því að setja ekki menn í nokkur önnur embætti, sem hægt hefir verið að komast hjá. Jeg get sýnt, að það hafa verið sparaðar 20 þúsund krónur í ár á þennan hátt, og ætla jeg að standa óskelfdur fyrir hv. 5. landsk. (JBald) og hv. 2. þm. S.-M. (IP) fyrir þau verk mín.