07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

66. mál, varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma

Flm. (Jónas Kristjánsson):

Lögin um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma eru orðin gömul, um 20 ára, og sýnilega úrelt að sumu leyti, því að þekking manna á smitunarhættu ýmissa sjúkdóma hefir aukist mjög á síðustu árum. Þess vegna hefir komið í ljós, að nauðsynlegt er, að lögum þessum sje breytt.

Á síðari árum hefir það komið í ljós, að ýmsir menn hafa fengið næma sjúkdóma án þess að veikjast, en hafa gengið með sýklana og smitað frá sjer fjölda manna. Svo er t. d. um taugaveiki. Frv. þetta er fram komið til þess að fyrirbyggja sýkingu á þennan hátt. Frv. fer fram á, að taka megi grunaða sýkilbera og rannsaka þá, og að þeir sjeu skyldir til þess að láta rannsaka sig. Eins og að líkindum lætur, er ótti manna við það að vera sýkilberar mjög mikill, og vilja menn ógjarnan gefa sig undir rannsókn. En líklega er það eina ráðið til þess að hefta útbreiðslu næmra sjúkdóma, að gera þetta, sem frv. fer fram á.

Við vitum það, að veikindafaraldur hefir komið upp í mörgum kaupstöðum síðari árin. Oft hefir smitunin orsakast af því, að sýklar hafa komist í volga mjólk og miljónfaldast þar á stuttum tíma. Smitunarhættan af þessu er mest í kaupstöðum, sem þurfa að fá mikla mjólk að, sem svo dreifist milli fjölda heimila. Þar getur fjöldi manna sýkst á mjög stuttum tíma.

Frv. þetta er samið í samráði við landlækni, sem telur það nauðsynlegt vegna hættu þeirrar, er vofir yfir kaupstöðum þeim, sem verða að flytja að sjer mikla mjólk. Það getur og ef til vill í framtíðinni fyrirbygt útbreiðslu fleiri sjúkdóma en taugaveiki, þótt jeg hafi hana aðallega í huga, svo sem barnaveiki og máske mænusóttar.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta að sinni, því að jeg vona, að frv. sje öllum hv. þdm. ofur skiljanlegt. Legg jeg til, að því verði vísað til allshn., að þessari umr. lokinni.