18.02.1927
Neðri deild: 9. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

31. mál, varnir gegn sýkingu nytjajurta

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg þarf ekki að fylgja þessu frv. úr hlaði með mörgum orðum. Þess er getið í greinargerðinni, og er líka kunnugt af blaðaskrifum, að í nágrannalöndunum gengur mjög skæð kartöflusýki, svo nefnd „vörtupest.“ Það hefir verið leitað álits sjerfræðinga um þetta mál, og Búnaðarþingið hefir borið fram þá ósk, að Alþingi setti lög um varnir gegn þessari sýki. Stjórn Búnaðarfjelagsins hefir beðið garðyrkjustjóra ríkisins að semja uppkast að lögum um þetta efni, og er frv., sem hjer liggur fyrir, frá honum. Nauðsyn þess að gera ráðstafanir í þessu efni liggur í augum uppi. Aðeins gat það orkað tvímælis, hvort rjettara væri að miða lögin við þessa sýki eingöngu, eða fleira af sama tægi. Garðyrkjustjóri hefir valið síðari kostinn og farið þar að dæmi nágrannaþjóðanna. Jeg vil aðeins beina því til nefndarinnar, sem fær málið til meðferðar, að athuga, hvor leiðin kynni að þykja ráðlegri.

Jeg leyfi mjer að leggja til, að málinu verði vísað til landbn.