21.03.1927
Efri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

68. mál, sýsluvegasjóður

Frsm. (Jónas Kristjánsson):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, hefir tekið nokkrum breytingum í nefnd, aðallega til þess að gera það dálítið skýrara. En þar að auki er lítil efnisviðbót. Nefndinni hefir komið saman um þessar breytingar og þær miða að því að gera frv. sjálfstæðara sem lög, í stað þess að vitna aðeins í þau heimildarlög um samþyktir um sýsluvegasjóði, sem það er viðbót við. Fyrsta brtt. gengur út á að fella burt fyrstu málsgrein 1. gr. l öðru lagi skal fyrsti málsliður 2. gr. orðast svo:

„Skatt þann til sýsluvegasjóðs, er 3. gr. laga nr. 10, 20. júní 1923, ræðir um, er hreppsfjelagi heimilt að greiða úr sveitarsjóði, sje það samþykt með meiri hluta atkvæða á lögmætum sveitarfundi, og sje tilkynning þar um komin til sýslumanns fyrir 1. apríl“.

Breytingin er þarna sú, að í staðinn fyrir „2/3 hluta atkvæða“ komi „meiri hluta“. Er það til að gera ljettara fyrir, að það sje gert að fastri reglu að greiða skattinn úr sveitarsjóði. — Í þriðja lagi kemur á eftir orðunum: „Nú á einhver fasteign í hreppi eða kauptúni“ í þriðju málsgrein: „aðra en jörð í fastri ábúð eða jarðarhluta“. Þetta er til þess að koma í veg fyrir, að hægt sje að leggja á eina fasteign tvisvar.

Jeg held það sje ekki að efa, að þessar viðbætur eru til bóta og gera frv. skýrara, svo að taki af allan efa, hvernig á að leggja á skattinn.

Svo er önnur brtt., að á eftir 1. gr. komi ný 2. gr., svo hljóðandi:

„Nú er lagt fje til akvega samkv. síðari málsgrein 5. gr., og greiðist þá framlag úr ríkissjóði móts við þá upphæð í sama hlutfalli og ákveðið er móts við vegaskattinn“.

Þessar viðbætur við frv. eru gerðar vegna þess, að stundum taka sig saman nokkrir hreppar eða partur úr sýslu og leggja mikið á sig til þess að koma á nauðsynlegum vegabótum, og er því rjettlátt að styrkja þá í sama hlutfalli og heila sýslu. Slíkan styrk fá þeir ekki að öðrum kosti, ef sýslan hefir ekki undirgengist að standa fyrir þessum samtökum. Þetta tel jeg nauðsynlegan viðauka.

Að lokum verður 2. gr. 3. gr.

Þetta eru allar þær breytingar, sem gerðar eru á frv.; og mjer finst frv. vera komið í alveg æskilegt horf. Vonast jeg eftir þeirri velvild frá hv. deild, að hún samþykki það eins og það er.