26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

68. mál, sýsluvegasjóður

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vildi aðeins leiða athygli hv. þdm. að því, að jeg held, að í 2. gr. frv. sje prentvilla eða misgáningsvilla. Þar stendur „sýslusjóður“, en á að vera „sýsluvegasjóður“. Þetta er nauðsynlegt að leiðrjetta.

Þá vil jeg ennfremur taka það fram, að jeg lít svo á, að þegar um er að ræða, hve mikið ríkissjóður eigi að leggja fram, þá eigi fyrst að koma framlag sýslusjóðs og hreppssjóðs, áður en tillag ríkissjóðs er ákveðið, því að auðvitað á ríkissjóður ekki að leggja á móti sínu eigin framlagi.

Jeg vænti, að hv. deild hafi ekkert á móti þessum skilningi mínum og telji hann sjálfsagðan.