11.03.1927
Efri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

85. mál, friðun hreindýra

Flm. (Einar Árnason):

Það þarf ekki langrar framsögu við fyrir svo litlu frv. — Eftir því sem jeg hefi komist næst, voru hreindýr fyrst friðuð árið 1882, og þá árstímann frá 1. jan. til 1. ág. Þessi friðun stóð svo um 20 ár. En næst voru þau alfriðuð frá 1. jan. 1902 um næstu 10 ár, eða til 1. jan. 1912. Þessi friðunarlög eru síðan framlengd á þingi 1911 um 6 ár, eða til 1. jan. 1918. Enn eru þau framlengd á þingi 1917 til ársloka 1925. Síðan hafa hreindýr ekki verið friðuð.

Með friðunarlögunum frá 1901 er fyrst numin úr gildi tilskipun frá 1849, er segir svo: „Hreini má veiða og elta hvar sem er.“ Stefnubreyting verður um þetta efni 1882, er nauðsyn þykir á að friða hreindýr nokkurn hluta ársins. Og situr við það fram yfir aldamót, að friðunartíminn er takmarkaður. En það reynist ekki nægilegt, heldur líst ráðlegt til að sporna við eyðing þeirra að alfriða þau um víst árabil. Eins og jeg hefi þegar tekið fram, hefir jafnan þótt nauðsyn á að framlengja friðunarlögin, er tíminn var útrunninn. En af einhverjum orsökum fórst fyrir, að svo yrði enn gert á Alþingi 1925, en jeg geri ekki ráð fyrir, að það hafi stafað af því, að ekki þætti nauðsyn á að friða þessi dýr lengur. Annað mál er það, hvort óhjákvæmilegt sje að friða þau alt árið. Jeg skal játa, að jeg er ekki nægilega kunnugur á þeim slóðum, er hreindýr hafast við, til að geta sagt um, hvað líður fjölgun þeirra. En af afspurn er mjer óhætt að segja það, að fjölgunin fari mjög hægt. Og fljótt mundu þau líða undir lok, ef veidd væru alt árið um kring. En jeg er sannfærður um, að þess óskar enginn. Þess vegna er það, að jeg flyt þetta frv. ásamt hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), til þess að hv. deild gefist kostur á að láta í ljós álit sitt um málið.

Jeg tel rjett, ef hv. deild vill sinna þessu máli, að frv. gangi til nefndar, því að rjett er að athuga, hvort ófriða megi nokkurn hluta ársins eða ekki. Á það atriði legg jeg ekkert kapp.

Þá er og álitamál um sektir, hversu háar þær skuli vera. Í lögunum frá 1901 er sektin fyrir hvert dýr ákveðin 50 kr. Það virtist okkur of lágt og hækkuðum hana því upp í 100 kr.

Þá vil jeg geta þess í sambandi við 2. gr. frv., að skýrara þætti ef til vill, að á eftir orðunum „fyrir hvert dýr“ komi: „sem drepið er.“

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta.