25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

85. mál, friðun hreindýra

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg skildi ekkert í háttv. þm. (JKr), að reyna að fara að mæla á móti frv. Gat jeg þó ekki fengið annað út úr ræðu hans en rjett væri að friða hreindýrin, og hann tók það fram, að væri ekkert átt við þau, fækkaði þeim hvorki nje fjölgaði. Ef svo væri, mundi þeim fljótt verða útrýmt, ef leyft væri að skjóta þau. En þetta er dálítið annað en jeg hefi lesið. — Hreindýr eru fyrst flutt til landsins að jeg ætla 1776, þó aðeins fá, 20–30 dýr. En á fáum árum fjölgaði þeim svo, að menn höfðu sjeð stórhópa, 200–400 dýr. Það, sem jeg býst við, að hafi vakað fyrir hv. 6. landsk. (JKr), er því fremur það, hve friðunarlögin eru illa haldin heldur en það, að hreindýrin gerfalli í hörðum vetrum.

Alt, sem jeg veit og hefi sjeð og heyrt um hreindýr, virðist mjer benda í þá átt, að afrjettir okkar sjeu ekki illa fallnir til hreindýraræktar og að sjaldan komi fyrir, að þau falli. Hitt kann að vera satt, að menn liggi í þeim jafnt fyrir friðunarlögin. Ef aldrei koma fram kærur, bendir það annað tveggja á löghlýðni manna austur þar eða sameiginlega yfirhylming. Þótt vörður væri settur, býst jeg við, að líkt gæti farið, að hann sæi í gegnum fingur við þá, er brotlegir gerðust.

Einkennilegt er í þessu sambandi að minnast þess, að nú, er farið er að tala um að rækta og temja hreindýr og umsóknir þess efnis liggja fyrir þinginu, þá skuli aðrir vilja eyða þeim dýrum, sem nú eru hjer til. Finst mjer því ráðlegra að vernda þann stofn, sem til er og talinn er góður. Gæti orðið að því styrkur síðar, ef einhverjir rjeðust í að taka þau til ræktunar.

Jeg býst ekki við og skil ekki, að komi til mála, að hv. deild sjái ástæðu til þess að fara að afnema friðunarlögin í hagsmunaskyni fyrir hreindýrin. Svo var helst að skilja á hv. 6. landsk., að dýravörður kæmi í stað friðunarlaga. En ætli ekki mætti takast sæmilega að ganga á snið við slíkan vörð og fara í kringum leyfi hans, ef ekki væri um friðunarlög að ræða?