25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

85. mál, friðun hreindýra

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hv 6. landsk. (JKr) gerði mikið úr því, hve harðindi yrðu mörgum hreindýrum að bana, en yfirleitt væru þau lítið skotin. Jeg held, að hann hafi þar rangt fyrir sjer, því að það mun þurfa geysimikil harðindi til þess að fella hreindýr. Annars var það hvað upp á móti öðru, sem þessi hv. þm. hjelt fram, því að hann var líka að tala um, að hreindýrin fyltu afrjetti. (JKr: Jeg sagði, að þau gætu fylt afrjetti). Ekki ef þeim fjölgar ekki neitt, þótt þau sjeu friðuð. Jæja, en jeg skil ekki, að neinum geti verið í nöp við þessi dýr, þó fyrir gæti komið, að þau fyltu afrjetti, ef þau, eins og hv. 6. landsk. heldur fram, geta ekki lifað á grasi, en slíkt er vitanlega alveg gagnstætt því rjetta. Mjer finst sjálfsagt að byrja á því að friða hreindýrin, ef mönnum er ekki alveg sama, þó að þeim verði útrýmt. Það er nóg að setja einhverjar reglur um dráp þeirra, þegar einhver dýr eru til. Þó að þessi friðunarlög verði kannske ekki bókstaflega haldin, fremur en önnur friðunarlög, þá hljóta þau að verða til mikillar varnar. En þó að leyft væri að skjóta eitthvað af karldýrum, yrði víst örðugt að hafa eftirlit með því, að kvendýrunum væri hlíft, eins og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) tók fram.

Jeg er hræddur um, að það sje eitthvað bogið við það hjá hv. 6. landsk., að hreindýrin geti ekki lifað á grasi. Jeg man ekki betur en að Helgi Valtýsson, sem er þessu manna kunnugastur hjer, segi í blaðagrein, að hreindýrin lifi eingöngu á grasi á sumrin, svo að það getur varla verið rjett, að þau drepist af því hjer. Enda skil jeg ekki, hvernig dýrin gætu lifað hjer, ef þau þyrftu nær því eingöngu að nærast á kræðu eða hreindýramosa. Kræða vex aðallega í lautum, og fer því grasa fyrst í kaf þegar snjóar.