28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

85. mál, friðun hreindýra

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg þarf ekki að tala mikið um till. meiri hl. í þessu máli. Eins og sjá má á nál. á þskj. 410, leggjum við til, að frv. verði samþ. óbreytt. Þá ætla jeg heldur ekki að fjölyrða um till. minni hl. fyr en hann hefir gert grein fyrir skoðun sinni á málinu. Jeg held, að ef menn vilja tryggja það, að hreindýrin verði ekki upprætt, þá sje nauðsynlegt að alfriða þau, og ætti ekki að koma til mála að veita heimild til þess að drepa þau. Þeim hefir fjölgað seint síðan þau voru friðuð, og jeg vil benda á það, að þau munu alveg verða upprætt, ef farið verður að leyfa að veiða þau. — Annars sje jeg ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Málið er afar einfalt, og er því engin ástæða til þess að vera að karpa um það.