28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

85. mál, friðun hreindýra

Sveinn Ólafsson:

Mjer virðist, eftir því, sem fram hefir komið hjá háttv. frsm. nefndarhlutanna (JörB og ÁJ), að ekki beri eins lítið á milli og látið er í veðri vaka. Jeg verð að líta svo á, að mikið beri einmitt á milli, þar sem annar nefndarhlutinn vill fullkomna friðun, en hinn aftur á móti vill ófriða hreindýrin, eða leyfa að veiða þau. Jeg veit ekki, á hvern hátt ágreiningurinn ætti að vera róttækari. Jeg get þó hvorugum nefndarhlutanna óskorað fylgt. Að vísu er jeg sammála hv. meiri hl., sem vill alfriða, en jeg lít þó svo á, að það eigi að gera þá undantekningu frá alfriðun, sem jeg hefi lagt til með brtt. á þskj. 287, að handsama megi dýr til eldis. Meiri hl. virðist standa mjög nærri brtt. minni um þetta, en hann óttast, að af þessari undanþágu geti stafað hætta á því, að frv. dagi uppi. Jeg get ekki sjeð þá hættu. Þó að brtt. yrði samþykt, þá væri ekki nema augnabliksverk að taka málið á dagskrá í Ed., enda er jeg viss um, að hv. Ed. muni ekki vera á móti brtt. minni. Hún spillir alls ekki þeim tilgangi, sem Ed. hafði með að samþykkja þetta frv.

Það er eitt í áliti meiri hl., sem mjer kom á óvart og jeg hygg, að stafa muni af misskilningi. Hann er að vara við tjóni, sem leitt geti af eldi hreindýra. Hverskonar tjón ætti svo sem að geta leitt af eldi dýranna? Jeg get ekki skilið, að það valdi nokkrum skaða, þótt tilraun verði gerð um eldi nokkurra dýra. Og úr því að farið er að tala um að veita fje úr ríkissjóði til þess að hefja hreindýrarækt, eins og hjer hefir áður verið gert, þá ætti eins að mega gera tilraunina í þessum efnum með innlendum dýrum. Það er óskiljanlegt, að nokkurt tjón geti af því leitt, þótt handsömuð væru fáein dýr til tilrauna. En vitanlega er alveg óvíst, hvort nokkur vill gera þessa tilraun.

Aðalástæðan, sem minni hl. hefir fært fyrir því, að leyfa beri að veiða hreindýrin, er sú, eftir því sem háttv. frsm. minni hl. (ÁJ) sagði, að dýrin mundu ella engum að liði verða. Hann sagði, að dýrin fjellu vanalega í hörðum vetrum og því væri friðunin eiginlega tilgangslaus. En þetta er ekki rjett. Dýrin falla yfirleitt sjaldan. Jeg er ekki viss um, að þau hafi nokkurn tíma fallið síðan 1867, að minsta kosti ekki að neinu ráði. En það mun rjett, að á þeim tveim víkingsvetrum, 1835 –1836 og 1866–1867, hafi þau fallið nokkuð víða. Síðan hefir lítið borið á því, jafnvel lítið mjög frostaveturinn 1880–1881. Færi þá ekki hjá því, ef þau fjellu eins ört og háttv. frsm. minni hl. (ÁJ) vill vera láta, að vart yrði við bein þeirra í búfjárhögum eða nærri sjó, eins og áður var. Þau flýja einmitt á þær slóðir, þegar jarðbönn gerir og harðindi. Jeg held því, að þetta sje aðeins hugarburður um fall dýranna. Og víst geta dýrin að gagni orðið síðar, þótt þau verði friðuð um sinn.

Orsakirnar til þess að dýranna gætir nú minna en áður, veit jeg ekki. Þó gæti jeg ímyndað mjer, að víða væru nú upprættir hagar þeirra og lítið orðið um fjallagrös og kræðu á öræfunum og þess vegna væri tímgunin seinfærari. Einnig má vera, að sú tilgáta sje rjett, sem hv. 1. þm. N.-M. benti á við fyrri hl. þessarar umr., að tarfarnir væru of margir og órói þeir kýrnar og drepi jafnvel kálfana. En auðvitað er þetta órannsakað mál og mjer ókunnugt. Jeg trúi því ekki, að vetrarríkið sje orsök þess, að hreindýrunum fjölgar ekki meira. Jeg verð því, samkvæmt því, sem jeg hefi sagt, að halda því fram, að breytinguna á þskj. 287 beri að samþykkja.

Áður en jeg lýk máli mínu, vil jeg benda á eitt atriði í brtt. minni hl., sem virðist mjög athugavert. Það felst í þeim, meðal annars, að hreindýrin eigi að vera ófriðuð frá því í lok októbermánaðar og til 1. janúar ár hvert, og auk þess nokkurn tíma að sumrinu, meðan veiði er leyfð. En mjer finst mjög illa eiga við að hafa dýrin ófriðuð einmitt meðan harðast er í ári og þegar þau helst þurfa að leita til bygða. Þau ættu að vera fullkomlega friðuð allan veturinn og laus við ofsóknir, þegar þau eiga við erfiðust kjör að búa. Hinsvegar vil jeg taka það fram alment um þetta fyrirkomulag, sem minni hl. hugsar sjer á veiðunum, að jeg gæti búist við því, að í skjóli þess yrði drepið meira af dýrum en góðu hófi gegndi; dýrin yrðu veidd í blóra við þá, sem veiðileyfi hefðu. Og þetta er einmitt lakasti agnhnúinn á svona löguðu leyfi með ónógu eftirliti.

Jeg ætla ekki að fjölyrða um þetta frekar. Jeg geri auðvitað ekki mikið úr því, þótt brtt. mínar verði feldar, ef frv. verður þá samþykt óbreytt. En jeg tel ver farið en heima setið, ef samþ. verða brtt. minni hl.