11.05.1927
Efri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

43. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Allshn. hefir haft þetta mál til meðferðar. Það er breyting á lögum um skemtanaskatt og þjóðleikhús, sem sett voru á þingi árið 1923, og fer frv. aðallega í þá átt að gera skattskylda í þessu skyni allskonar dansleiki, sem standa fram yfir kl. 11 að kvöldi, þótt haldnir sjeu af einstökum fjelögum og dansskólum.

Þá er og í frv. heimild fyrir lögreglustjóra að ákveða skatt af dansleik, þótt talinn sje ókeypis fyrir fjelagsmenn. — Nefndinni þótti rjett að gera þá breytingu á frv., að húseigendur, sem leigja hús til dansleika, skuli ábyrgjast, að skatturinn sje greiddur. Er það til hægðarauka fyrir lögreglustjóra, að geta gengið að skattinum vísum þar, en þurfa ekki að eltast við hina og þessa, sem standa fyrir dansleik í hvert skifti.

Þá þótti nefndinni og rjett að leggja skatt á billiardspil. Sjer hún ekki neina ástæðu til þess að undanskilja þá tegund skemtana skatti frekar en aðrar. Þessi leikur er nú mjög farinn að tíðkast bæði í Reykjavík og öðrum kaupstöðum. Jeg skal engan dóm leggja á, hversu holl sú skemtun er. Hún getur sjálfsagt verið góð og holl og ekkert við hana að athuga, ef notuð er í hófi sjer til upplyftingar. En því miður er gert það mikið að henni víðast hvar þar, sem slík knattborð eru sett á stofn, að unglingar sjerstaklega eyða þar bæði tíma og fje óhóflega. Að athuguðu máli sýndist nefndinni rjett að leggja til, að skattur skuli greiddur af hverju knattborði, hvort sem opinn er aðgangur að því fyrir hvern sem hafa vill eða einstök fjelög eða klúbbar hafa það til afnota. Nefndin bar sig í þessum efnum saman við lögreglustjórann í Reykjavík, og gaf hann þær upplýsingar, að upp undir 20 knattborð mundu vera hjer í Reykjavík, sem notuð eru af einstökum fjelögum eða almenningi. Áætlar hann ágóða af hverju knattborði 150 krónur á mánuði. Nefndin leggur til, að þessi tegund skemtana verði skattlögð eins hátt og þær, sem hæst eru skattlagðar, eða með 20%. Nefndinni fanst ekki ástæða til að fara lægra í skattkröfur við billiardstofueigendur heldur en þetta. Enda má segja, að sje áætlun lögreglustjóra rjett, þá sje hver forstöðumaður eða eigandi slíkrar billiardstofu vel sæmdur af þeim ágóða, sem eftir er, þótt hann greiði 20% af nettótekjum af hverju knattborði.

Nefndin leggur í einu hljóði til, að frv. verði samþykt með þeirri breyting, sem felst í brtt. á þskj. 538.