18.03.1927
Efri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

56. mál, sandgræðsla

Frsm. (Einar Jónsson):

Jeg vil aðeins minna á þær brtt., sem landbn. fann ástæðu til að gera við þetta frv. eftir að það var afgr. frá 2. umræðu. Þessar tvær brtt. eru, eins og háttv. þm. sjá, ekki að neinu leyti efnisbreytingar á frv. Nefndin veitti því eftirtekt, að orðin í 1. gr. „við 4. gr.“ eru óþörf, og lagði þess vegna til að fella þau burtu.

Hin brtt. orsakast af því, að nefndin veitti því seinna eftirtekt, að við sektarákvæðin, sem liggja við því að skilja eftir opið hlið, er ekki tiltekið, hvert það skuli renna. En í 18. gr. laganna stendur, að brot gegn lögunum öllum í heild sje 50–100 kr. og renni í ríkissjóð. Brtt. á þskj. 188 hljóðar því um það, að sektir fyrir að skilja eftir opin hlið skuli renna í ríkissjóðinn. Þar sem þarna er talað um 50 kr. sem hámark, getur það ekki fallið saman við hin ákvæði laganna, nema slík breyting sje gerð. Jeg hefi haft aðstoð fróðs manns um þetta, og hygg jeg alveg óhætt að samþykkja þessa breytingu, að hún falli rjett inn í lögin.