19.04.1927
Neðri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

56. mál, sandgræðsla

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Aðalbreytingin, sem þetta frv. fer fram á á gildandi lagaákvæðum, er, að ríkissjóður leggi meira fje af mörkum til sandgræðslu en nú á sjer stað. M. ö. o., að í staðinn fyrir, að kostnaður við sandgræðslu hefir verið greiddur að jöfnu úr ríkissjóði og af landeiganda, þá er með breytingunni ákveðið, að ríkissjóður greiði framvegis 2/3 kostnaðar, en landeigandi 1/3.

Þetta verður að vísu til nokkurs kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, en hefir afarmikla þýðingu, þegar þess er gætt, að víða hagar svo til, að landeigendum er með öllu ókleift að standast þann kostnað, sem leiðir af sandgræðslunni.

Landbn. vill fyrir sitt leyti stuðla að því, að sandgræðslan verði sem mest aukin, því hún telur það eitt af þýðingarmiklum málum landbúnaðarins að hefta sandfokið og græða upp landið. Það hefir sýnt sig, að víða hagar svo til, að með einni saman friðun á sandfokssvæðunum verður landið algróið eftir nokkur ár. Á hinu er hætta, að uppblástrarsvæðin stækki, ef ekki er undinn bráður bugur að því að hefta fokið. Nú er það svo t. d. í Rangárvallasýslu, að þar eru stór svæði, sem hætta vofir yfir vegna uppblásturs og sandfoks. En eigendum slíkra landa er alls ekki kleift að leggja út í þann kostnað, sem leiðir af því að girða svæðið og friða það, nema að fá að minsta kosti þann styrk, sem farið er fram á með þessu frumvarpi.

Hinsvegar þótti nefndinni varhugavert að láta ákvæði 2. gr. frv. standa, þar sem sandgræðslunni er gert að skyldu að gera traðir eða upphleyptan veg um sandgræðslugirðingar. Slíkar traðir eða vegir gætu haft mikinn kostnað í för með sjer og þar af leiðandi tafið fyrir því, að ýms svæði yrðu tekin eins fljótt til friðunar og þörf er á. Nefndin lítur svo á, að þeir, sem fara um girðingarnar, sjeu aðallega menn, sem láti sjer ant um að loka hliðunum vegna landsins, sem friðað er. Kunnugir menn telja líka, að upphleyptir vegir um girðingar gætu valdið uppblæstri og á þann hátt orðið til skaða landi því, sem gróa á upp. Og bæði vegna kostnaðaraukans við þetta og tjóns, sem af því kann að leiða, leggur nefndin til, að þetta ákvæði verði felt niður. Jeg þykist svo ekki þurfa að hafa þessi orð fleiri, en vænti, að hv. þdm. geti fallist á að samþ. frv. með breytingu nefndarinnar á þskj. 365.