13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

123. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Jónas Jónsson:

Jeg játa að vísu, að slík veðmálastarfsemi og hjer er talað um, er náttúrlega ekki æskileg í landinu. Má að nokkru leyti sama um slíkt segja og knattborðin, sem skattlögð voru nýlega. En úr því að fólkið er fíkið í þetta, þá vil jeg þó heldur, að það sje gert á leyfilegan hátt og einhver hafi gott af því. Þetta hestamannafjelag hefir gert talsvert gott hjer í bænum; það hefir unnið það, sem landinu og bænum bar að framkvæma, — gert 10 km. reiðveg inn fyrir bæinn og lagt talsvert til hans. Af því að jeg er einn af þeim mönnum, sem nota hesta, — þótt jeg sje ekki í þessu fjelagi — þá get jeg borið vitni um, að þessi vegur er mikil umbót í dýraverndunaráttina. Hestarnir urðu fótaveikir af þessum hörðu vegum; en bæði jeg og fleiri hafa veitt því eftirtekt, að í seinni tíð hafa hestar enst betur en áður.

Fyrir þessar ástæður hefi jeg búist við að láta þetta fjelag njóta þess, að það hefir komið nokkru góðu til leiðar. Hinsvegar játa jeg, að ef það kemur í ljós, að spilling fylgi þessu, þá sje sjálfsagt að breyta þessu aftur; en enn sem komið er held jeg, að slíkt verði varla sagt.